Beint í efni
Frá vinstri: Ingibjörg mamma Helgu, Todda, yngsta systir hennar, Birta Júlía 18 ára dóttir, Helga, Guðrún Ósk, elsta dóttir Helgu, Hafdís miðstelpan og Hulda elsta systir Helgu. Barnabarnið Ylfa er fyrir framan hópinn.

„Dag­ur­inn í dag er það sem skipt­ir máli“

„Mikilvægast í stuðningi vina og fjölskyldu er að finnast maður ekki vera einn. En ég held að það sé erfitt að vera aðstandandi og mér finnst erfiðast að horfa á döpur augu og sjá vanmáttinn, því þá finn ég svo til með þeim.“

Saga Helgu Hafsteinsdóttur

Helga greindist með hraðvirkt brjóstakrabbamein í janúar 2017. Hún fór í brjóstnám í júlí, lyfjameðferð og svo geislameðferð. Átti þá að vera laus við meinið en þá komu í ljós meinvörp í hrygg, lunga og lifur. Nú er hún komin í lyfjameðferð í æð og tekur töflur til að minnka verki. Tilgangur meðferðarinnar er að auka lífsgæði og kaupa meiri líftíma.

„Ég missti pabba minn þegar ég var rétt að byrja í lyfjameðferð og þá hafði ég mestar áhyggjur af því að missa hárið fyrir jarðarförina hans. Ég vildi ekki taka athyglina frá honum og skammaðist mín fyrir veikindin. En það slapp og ég gat haldið jarðarförina með reisn.“

Eldri dóttir Helgu býr í Brussel og fékk álit sérfræðilæknis þar sem staðfesti að meðferðin sem Helga fær hér á landi sé sú sama og hún fengi úti. Hann bíður nú eftir að fá myndir til að meta hvort hún eigi möguleika á að fara í ónæmismeðferð sem ekki er komin til Íslands. Þá meðferð þyrfti hún að borga sjálf, en kostnaðurinn hleypur á milljónum. 

Helga Hafsteinsdóttir

„Ég er svo endalaust þakklát fyrir fjölskylduna mína og vini sem eru eins og herdeild í kringum mig. Og þó ég hafi ekki maka mér við hlið í þessum veikindum, þá hefur mér aldrei fundist ég vera ein. Dætur mínar, systur, mamma og vinir eru dugleg að aðstoða mig og það gefur mér auka kraft. Ég er sem betur fer með gott lundarfar og bjartsýn að eðlisfari og get ekki hugsað mér að eyða dýrmætum tíma í leiðindi ef maður á stutt eftir. Ég leyfi mér auðvitað að fara aðeins í sorgina, við eigum fullan rétt á því, en ég passa að dvelja þar ekki of lengi því lífið hefur upp á fullt af skemmtilegum hlutum að bjóða.“

Helga hefur því lært að njóta augnabliksins og efnisleg gæði skipta hana ekki miklu máli. Hún segist vera mun kærleiksríkari en hún var áður og hún byrjaði að mála eftir að hún veiktist: „Það er mikil heilun fólgin í því að mála og það er dásamlegt að finna listamanninn í sér fá tækifæri. Ég set mína reynslu á strigann og skil hana eftir þar og það hjálpar mér.“

Yngri dóttir Helgu er 18 ára og býr hjá henni. „Hún er svo umhyggjusöm og dugleg. Hún kíkir inn í herbergi til mín á hverju kvöldi til að athuga hvort allt sé í lagi og hún hefur þurft að sprauta mig og finnst það ekkert mál.

Frá vinstri: Ingibjörg mamma Helgu, Todda, yngsta systir hennar, Birta Júlía 18 ára dóttir, Helga, Guðrún Ósk, elsta dóttir Helgu, Hafdís miðstelpan og Hulda elsta systir Helgu. Barnabarnið Ylfa er fyrir framan hópinn.

Frá vinstri: Ingibjörg mamma Helgu, Todda, yngsta systir hennar, Birta Júlía 18 ára dóttir, Helga, Guðrún Ósk, elsta dóttir Helgu, Hafdís miðstelpan og Hulda elsta systir Helgu. Barnabarnið Ylfa er fyrir framan hópinn.

„Dagurinn í dag er það sem skiptir máli og ef þig langar að gera eitthvað skaltu ekki bíða með það. Ég er alla vega búin að ákveða að gera það sem mig langar án þess að spá í sjúkdóminn því það væri svipað og að vera með boðflennu heima hjá sér og vera alltaf að bíða eftir að hún fari, en fara samt að bjóða henni meira kaffi fyrir kurteisissakir og sitja svo uppi með hana. 

„Ég vil gera það besta sem ég get úr framtíðinni og mér finnst ég hafa átt gott líf. Ég er líka mjög þakklát fyrir að fá fleiri daga til að geta gert fallega og góða hluti úr lífinu.

Mér finnst líka mikilvægt að aðstandendur gleymi ekki sjálfum sér, næri sig andlega og líkamlega svo þeir séu sterkari fyrir okkur sem þurfum á þeim að halda. 

Við þá sem greinast finnst mér mikilvægt að segja að muna að lífið er ekki búið. Ekki hika við að leyfa fólki að hjálpa og gerið skemmtilega hluti sem gleðja ykkur.

Uppfært í september 2019: Helga lést af völdum síns sjúkdóms í apríl 2019. Krabbameinsfélagið vottar aðstandendum hennar sína dýpstu samúð.