Beint í efni
Guðrún Einarsdóttir reynslusögur 2025

Hugsar meira um að lifa í nú­inu

Guðrún Einarsdóttir greindist með blóðkrabbamein árið 2015. Hún fann fyrir ótta og kvíða við greiningu en í dag lifir hún í sátt við sjúkdóminn. Segist kunna betur að meta lífið, finni fyrir þakklæti og hugsar meira um að lifa í núinu.

„Þegar ég var níu ára gömul þá dó afi minn úr krabbameini. Hann var með magakrabbamein. Ég man eftir ömmu þegar hún reyndi alltaf að finna einhvern mat og búa til krúska handa honum, eitthvað sem hann gæti borðað. Ég man þetta mjög vel.“ Hún segist hafa farið mjög oft á Landspítalann að heimsækja afa sinn og hafi þá tekið ákvörðun um að hún vildi verða hjúkrunarkona eins og þessar konur sem voru að hugsuðu svo vel um afa hennar. Lærði hjúkrun og hefur hjúkrað mörgum krabbameinssjúklingum.

Árið 2016 greindist móðir hennar með krabbamein og lést þremur mánuðum síðar. Sjálf greindist Guðrún fyrir jólin 2015 og var í lyfjameðferð á sama tíma og mamma lá á dánarbeði. „Þegar ég greindist, þá var ég búin að vera lasin í svolítinn tíma. Og ég man eftir því að ég beið fyrir framan læknastofuna eftir að hitta blóðsjúkdómalækni. Þá varð mér svo óglatt að þá lá við að ég kastaði upp af kvíða. Ég kveið svo rosalega fyrir. Svo fékk ég þessa greiningu að það væri þarna eitthvað í blóðinu og ég man að ég varð alveg ofboðslega hrædd. Hélt að ég væri að deyja og ætti ekkert langt eftir og tilkynnti börnunum það.“ Guðrún segist hafa vitað svo lítið um sjúkdóminn, fannst þetta flókið mál.
En síðan hafi þetta nú skýrst allt smá saman og í dag upplifi hún ekki með neinn kvíða, sé alveg róleg.

„Það sem ég geri fyrir sjálfa mig, það er náttúrulega að hugsa vel um mig, sem sagt að sofa vel og borða hollan mat og góðan mat og reyna að hreyfa mig svona eins og ég get.“

Reglulegt eftirlit veitir ákveðið öryggi

Guðrún fer í eftirlit á Landspítalana á þriggja mánaða fresti. Hún segir það veita sér ákveðið öryggi. Tekin sé blóðprufa og kannað hvernig blóðið er. „Það veitir mér svona ákveðið öryggi þá veit ég alltaf að það er allt í lagi. Þannig að ég get alltaf haldið mér bara góðri, verið kát og glöð. Stundum hefur þurft að setja mig á lyf og svo lækka gildin. Þá hætti ég að taka lyfin en ég er búin að vera í þessu núna í eiginlega í bráðum níu ár.

Á gott bakland

„Ég kann betur að meta lífið. Ég finn fyrir svo miklu þakklæti og hugsa meira um að lifa í núinu, vera núna. Ég veit ekkert hvað er á morgun eða það skiptir ekki máli fyrr en á morgun.“

Guðrún segist þurfa að hafa svolítið fyrir því að vera alltaf bjartsýn, vera jákvæð. Hún reyni að vera alltaf góð, er aldrei í vondu skapi og aldrei í fýlu eða neitt svoleiðis. „Reyni að vera skemmtileg, sem ég held ég sé bara stundum, sko, gera grín að sjálfri mér svolítið“ segir Guðrún og brosir. Segist aldrei sár, reið eða bitur - líði ofsalega vel og finnist allir góðir við sig.

Guðrún segist vera mjög sátt og hafa fengið mjög góða þjónustu alls staðar og á gott bakland og er hamingjusöm.

Guðrún Einarsdóttir 2025
Guðrún Einarsdóttir 2025
Guðrún Einarsdóttir 2025