Bónus og viðskiptavinir styrkja Krabbameinsfélagið um 5 milljónir króna
Bónus tók í ár í fyrsta sinn þátt í söfnun til styrktar Bleiku slaufunni, árlegu átaki Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að auka vitund og stuðning í baráttunni gegn brjóstakrabbameini.
Viðskiptavinir Bónus sýndu mikinn samhug og lögðu samtals tæpar 4 milljónir króna til málefnisins með því að bæta 500 krónum við innkaupin sín í sjálfsafgreiðslukössum verslana um allt land. Bónus bætti síðan einni milljón króna við og nam heildarstyrkurinn því 5 milljónum króna, eins og kemur fram í tilkynningu.
„Við í Bónus erum mjög stolt af því hve vel viðskiptavinir tóku þessari söfnun. Bleika slaufan er samfélagslegt málefni sem snertir okkur öll og það er ánægjulegt að sjá hversu margir vilja leggja sitt af mörkum. Við viljum þakka viðskiptavinum okkar kærlega fyrir frábær viðbrögð og hlýjan stuðning,“ segir Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus.
Samstaða sem skiptir máli
Heildarupphæðin, 5 milljónir króna, hefur verið afhent Krabbameinsfélaginu og mun renna til verkefna sem styðja við rannsóknir, fræðslu og aðstoð við fólk sem greinist með krabbamein. Björgvin afhenti Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, ávísun að styrknum á dögunum. ,,Söfnunin sýnir glöggt að þegar fyrirtæki og viðskiptavinir standa saman að góðu málefni má hafa raunveruleg áhrif,” segir Björgvin.
Heimild: Ragna Gestsdóttir, þriðjudaginn 11. nóvember 2025, dv.is
