© Mats Wibe Lund

Austurland

Krabbameinsfélag Austurlands var stofnað 20. apríl 1970 og eru félagsmenn um 155 talsins. Starfssvæði félagsins nær yfir Vopnafjörð, Borgarfjörð eystra, Seyðis­fjörð, Fljótsdalshrepp og Fljótsdalshérað. Helstu verkefni félagsins eru aðstoð við krabbameins­greinda einstaklinga sem þurfa að ferðast frá heimabyggð og dvelja langdvölum að heiman vegna meðferðar. Formaður félagsins er Alfreð Steinar Rafnsson.

Starfsemi 2016-2017

Starfssvæði Krabbameinsfélags Austurland er víðfeðmt og nær yfir Vopnafjörð, Borgarfjörð eystra, Seyðisfjörð, Fljótsdalshrepp og Fljótsdalshérað. Helstu verkefni félagsins eru eftirfarandi: Aðstoð við krabbameinsgreinda einstaklinga sem þurfa að ferðast frá heimabyggð og dvelja langdvölum að heiman vegna meðferðar. Félagið tekur þátt í og greiðir fyrir félagsmenn kostnað við húsnæði í íbúðum eða á sjúkrahóteli eftir því sem við á hverju sinni. Kostnaður vegna húsnæðis meðan á krabbameinsmeðferð stendur yfir hefur aukist frá því árið á undan og er nú um það bil 50% af félagsgjöldunum.

Krabbameinsfélag Austurlands hefur nú um tveggja ára skeið rekið þjónustuskrifstofu í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands, StarfA, þar sem skjólstæðingum félagsins og aðstandendum býðst að fá afnot af öllum þeim úrræðum sem StarfA hefur að bjóða, þeim að kostnaðarlausu. Í þeim úrræðum má til að mynda nefna slökun, jóga, fyrirlestra um lýðheilsu og margt fleira. Ráðgjafi á vegum félagsins er til viðtals og ráðgjafar á skrifstofunni á þriðjudögum en starfsfólk StarfA aðra daga vikunnar. Kostnaður við þessa starfsemi er langt umfram félagsgjöld og styrk úr velunnarasjóðnum á síðasta ári en hann nam 500.000 kr. Til þess að brúa það bil sem til þurfti var efnt til góðgerðarkvölds í Valaskjálf 2. apríl 2016. Undirtektir voru mjög góðar. Fjöldi listamanna kom fram að kostnaðarlausu og eigandi Valaskjálfar lagði einnig til húsnæði og léttar veitingar. Segja má að góðgerðarkvöldið hafi komið fjárhag félagsins fyrir vind að þessu sinni.

Félagið hefur eins og undanfarin ár í samvinnu við Krabbameinsfélag Austfjarða tekið þátt í hvíldarhelgi á Eiðum fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Hvíldarhelgin tókst afburðavel og það voru glaðir og ánægðir gestir sem héldu heimleiðis í helgarlok.

Alfreð Steinar Rafnsson.


Var efnið hjálplegt?