© Mats Wibe Lund

Akranes og nágrenni

Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis var stofnað 9. febrúar 1969 og félagsmenn eru 300 talsins. Formaður félagsins er Sólveig Ásta Gautadóttir og skrifstofustjóri er Auður Finnbogadóttir.

Starfsemin 2016-2017

Eins og undanfarin ár var október annasamur og upplífgandi. Fyrstu slaufunni var að þessu sinni nælt í baráttukonuna Jensínu Valdimarsdóttir. Um miðjan október 2016 hélt Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis bleika stuðningsgöngu. Gengið var frá stjórnsýsluhúsinu við Stillholt sem leið lá að bleiklýstu Akratorgi. Skemmtidagskrá var á torginu þar sem Steinunn Sigurðardóttir fyrrum hjúkrunarforstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og stjórnarmaður hollvinasamtaka stofnunarinnar hélt stutt ávarp auk þess sem Bergdís Fanney Einarsdóttir flutti tónlistaratriði. Einnig voru dregnir út veglegir happdrættisvinningar sem fyrirtæki á svæðinu létu af hendi rakna. 

Jóga-námskeið var haldið að vori og er það alltaf jafn vel sótt. Líkt og áður var það Margrét Bára Jósefsdóttir sem sá um það. Jógað er sívinsælt og er orðinn fastur liður í starfseminni. Jógað fór fram í húsnæði Hver á vorönninni og gekk það vel.

Að öðru leyti hefur starfsárið verið frekar rólegt og vinna okkar í stjórninni farið í að vekja athygli á félaginu í okkar heimabyggð, og hvaða þjónustu við bjóðum upp á. Í lok starfsársins voru útbúnir bæklingar og voru þeir settir í dreifingu hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Ólöf Inga Birgisdóttir.


Var efnið hjálplegt?