Beint í efni

Viss­ir þú þetta um hlaup og hlaup­ara?

Samkvæmt statista.com þá voru um 50 milljón Bandaríkjamanna sem reimuðu á sig hlaupaskóna árið 2021. Það eru um 15% allra Bandaríkjamanna! Ef við yfirfærum það yfir á Ísland má reikna með að tæplega 60 þúsund Íslendingar reimi reglulega á sig hlaupaskóna! 

  • Meðal skreflengd hlaupara er líklegast á bilinu 75-90 cm. 
  • Um það bil 200 vöðvar koma að hverju hlaupi. 
  • Margir hlauparar skipuleggja frí í kringum hlaup og hlaupadagskrána sína. 
  • Kettir, kanínur og kengúrur eru einu dýrategundirnar sem geta hlaupið lengra en mannfólkið í einum rykk. 
  • Larry Macon hljóp eitt árið 239 maraþon. 
  • Hraðasta hálfa maraþonið, aftur á bak, er 1 klst. og 40 mín. 
  • Hlauparar velja sér oftar hollari mataræði en þeir sem hlaupa ekki, skv. niðurstöðum rannsóknar á almenningi í Slóveníu.  
  • Niðurstöður rannsókna benda eindregið til þess að 7,2 gráður á celcíus sé sá hiti sem henti best til þess að hlaupa keppnishlaup.  
  • Hvorki fleiri né færri en rúmlega 53000 manns hlupu í London maraþoninu 21. apríl sl. 
  • Upphaflega hlaupabrettið var notað sem refsing fyrir fanga. 
  • Meðal þyngd á kvenna hlaupaskó er 238 gr. en á karla hlaupaskó 278 gr. skv. runrepeat.com. 
  • Hlaupaskór endast að meðaltali í 500-800 km en þarna skipta undirlag, líkamsþyngd, hlaupastíll og fleira máli. 
  • Sjálfumyndataka er það sem fer mest í taugarnar á hlaupurum á keppnisdegi. 
  • Mörg sem hlaupa hafa mikinn áhuga á litnum á þvaginu sínu enda kannski ekki nema von því litur þvagsins gefur til kynna hvort maður þurfi að drekka meira vatn.  
  • Flestir hlauparar þola ekki að lenda á rauðum göngukalli á gatnamótum. 
  • Hlauparahné (e. runner‘s knee) er talið vera algengustu meiðslin á meðal hlaupara. 
  • Ágætis leið til að koma auga á hlaupara er að fylgjast með tánöglum fólks, til dæmis í sundlaugum landsins – hlauparar eru oft með svartar táneglur eða það vantar eina eða fleiri táneglur. 
  • Eitt af því sem fer hvað mest í taugarnar á hlaupurum er þegar útbúnaður sem skráir hlaup, til dæmis hlaupaúr, bilar í miðju hlaupi og hættir að skrá hlaupið.