Beint í efni

Áhrif hreyf­ingar

Vissir þú að fólk sem hreyfir sig reglulega er ólíklegra til að fá krabbamein?

Reglubundin hreyfing hefur ótvírætt gildi fyrir almenna heilsu og vellíðan og ávinningurinn er margþættur. Rannsóknir hafa með afgerandi hætti sýnt að hreyfing dregur úr líkum á margvíslegum sjúkdómum, þar á meðal ákveðnum krabbameinum.

Mjög sterkar vísbendingar eru um að þeir sem hreyfa sig reglulega draga úr líkum á ristilkrabbameini, brjóstakrabbameini og legbolskrabbameini. 

Regluleg hreyfing hefur einnig jákvæð áhrif á fólk sem greinist með krabbamein, að jafnaði vegnar þeim sem hreyfa sig fyrir og/eða eftir greiningu betur.  

Vita landsmenn að hreyfing getur haft áhrif á krabbameinslíkur? 

Það vita ekki allir að regluleg hreyfing geti haft áhrif á líkurnar á að við fáum krabbamein, könnun Krabbameinsfélagsins árið 2023 sýndi að 40% Íslendinga virðast ekki þekkja til þessara tengsla.  

Hve mikla hreyfingu þarf til ? 

Þegar talað er hér um reglulega hreyfingu er átt við að hreyfa sig að minnsta kosti rösklega (hjartsláttur og öndun verða hraðari en þó hægt að halda uppi samræðum) í minnst 150 mínútur á viku eða kröftuglega (svitamyndun og mæði og erfitt að halda uppi samræðum) í minnst 75 mínútur á viku. Þetta er í algeru samræmi við ráðleggingar Landlæknis um hreyfingu. 

Gott er samt að muna að jafnvel þó þessi viðmið náist ekki er öll hreyfing af hinu góða. Allt er betra en ekki neitt! 

Ganga, skokk eða hlaup eru dæmi um auðvelda og aðgengilega leið fyrir flesta til að ná daglegri hreyfingu en að sjálfsögðu kemur fjölmargt annað til greina, öll hreyfing sem reynir á, þannig að öndun verður hraðari og hjartað slær örar, er jákvæð og telur upp í ráðlagðan tíma.  

Víðtæk heilsufarsleg áhrif hreyfingar 

Fyrir utan að draga úr líkum á krabbameinum hefur regluleg hreyfing víðtæk jákvæð heilsufarsleg áhrif og gegnir lykilhlutverki í að viðhalda og bæta heilsu og líðan fólks.  

Krabbameinsfélagið hvetur alla til að temja sér lífsvenjur þar sem hreyfing er sjálfsagður hluti daglegs lífs. Við hvetjum líka ykkur sem nú þegar hreyfið ykkur reglulega til að reyna að drífa fjölskyldumeðlimi, vini og kunningja með ykkur.