Beint í efni

Sum­ar­frí með Krabba­mein

Flestir tengja sumarið við gleði og samveru ásamt björtum sumarnóttum og fríi frá amstri dagsins,. Hins vegar getur sumarið verið áskorun fyrir þau sem eru að takast á við krabbameinsmeðferð og haft áhrif á andlega og líkamlega vellíðan.

Hér eru nokkur ráð sem auka líkurnar á að sumarið verði uppspretta gleði, góðrar samveru og minninga.

Samskipti: yfir sumartímann eru margir á ferð og flugi. Af því tilefni getur komið upp sú staða að þú treystir þér ekki til þess að ferðast eða getur það ekki vegna meðferðar. Mikilvægt er að halda samskiptum við fjölskyldu og vini á þessum tíma jafnt sem öðrum og aðlaga sig eftir því sem aðstæður leyfa.

 • Símtöl og myndsímtöl eru góð leið til að vera í samskiptum við fjölskyldu og vini sem eru á faraldsfæti.
 • Þá er góð leið að fara styttri ferðalög og skipuleggja ánægjulega hluti sem taka minni orku: ísbíltúr, lautarferð eða heimsókn á safn getur verið góð leið til þess að brjóta upp daginn án þess að eyða of mikilli orku og ganga of nærri sér.
 • Veldu vel það sem veitir þér mesta ánægju og leyfðu þér að segja nei við því sem þú treystir þér ekki í. Á þann máta færðu meira út úr þeirri samveru sem þú velur að taka þátt í.

Börn og sumarfrí: Það getur verið gott að skipuleggja sumarfrí barnanna vel, svo þau fái þá útrás og útiveru sem þau þurfa og þú líka, á þínum forsendum. Þá er mikilvægt að óska eftir aðstoð vina og vandamanna séu aðstæður þannig að þú eigir erfitt með að halda í við þau.

 • Hvers kyns námskeið, frístund eða íþróttanámskeið eru góð leið fyrir börn að njóta sín og brjóta upp daginn fyrir alla.
 • Gott er einnig að skipuleggja samverustundir með börnunum sem krefjast ekki mikillar orku eins og að fara með þau á leikvöll þar sem þú getur setið á meðan þau leika sér
 • Þreyta og magnleysi er ein algengasta aukaverkun sem fólk í krabbameinsmeðferð upplifir. Það getur verið nauðsynlegt að taka því rólega og slaka á suma daga, þrátt fyrir að það sé gott veður og möguleg ferð upp í bústað. Þá getur verið nauðsynlegt að fá aðstoð frá fjölskyldu eða vinum sem geta boðið krökkunum með sér út á meðan þú hvílir þig. Börn eru oft með áhyggjur af veikindum foreldra og því gott fyrir þau að skipta um umhverfi og geta notið sín áhyggjulaus..

Ferðalög: Fyrir marga einkennast sumrin af ferðalögum og útilegum. Krabbameinsþreytan getur hins vegar haft áhrif á getuna til að taka þátt í almennri virkni og því oft nauðsynlegt að aðlaga sig nýjum veruleika.

 • Styttri ferðir frá heimilinu er kjörinn valkostur því það getur reynt á að sitja lengi í bíl. Þá er líka minna mál að fara heim ef vanlíðan gerir vart við sig
 • Ef ætlunin er að fara í lengra ferðalag getur verið upplagt að brjóta það upp með því að stoppa og gista einhversstaðar á leiðinni í stað þess að keyra alla leið á einum degi
 • Breyttur gátlisti inniheldur lyf og annað nauðsynlegt sem fylgir krabbameinsmeðferð, mikilvægt er að yfirfara hann vel áður en farið er af stað.
 • Útilega úti í garði getur verið skemmtileg leið fyrir fjölskylduna að upplifa útilegustemninguna en á sama tíma vera með þægindi og öryggi heimilisins innan seilingar.

Hreyfing/útivist: Það er mikilvægt að hafa hreyfingu sem hluta af daglegu lífi meðan á krabbameinsmeðferð stendur en hún þarf að vera á forsendum hvers og eins og bráðnauðsynlegt er að gæta þess að fara ekki fram úr sér.

 • Á sumrin er algengt að vilja færa hreyfinguna út úr húsi. Þá er mikilvægt að klæða sig eftir veðri og passa að hafa nóg vatn og nesti meðferðis ef halda á í göngu eða aðra hreyfingu langt frá heimili.
 • Góð regla er að láta einhvern vita ef þú ferð ein/n út að hreyfa þig, hvert þú ætlar og hvað þú áætlar að vera lengi.
 • Ef veðrið er gott og sólin skín er mikilvægt að muna eftir sólarvörninni.
 • Svo er andlega nauðsynlegt að stoppa og njóta náttúrunnar og ferska loftsins.

Garðvinna:

 • Aðstoð getur verið nauðsynleg. Ef það eru unglingar á heimilinu er mögulega hægt að virkja þau til að aðstoða í garðinum. Eins er hægt að hafa samband við fjölskyldu og vini, flestum finnst gott að geta lagt lið.
 • Hjálpartæki geta auðveldað garðvinnuna eins og stóll til að sitja á, verkfæri með löngu skafti svo ekki þurfi að beygja sig o.fl.
 • Það er mikilvægt að ofgera sér ekki, taka reglulegar pásur, drekka nóg af vatni og næra sig. Gera garðvinnuna ánægjulega á þínum forsendum
 • Minna er meira, því það er betra að gera minna á hverjum degi í fleiri daga heldur en að keyra sig út í einn dag með hættu á að vera rúmliggjandi næstu daga á eftir
 • Rétt líkamsbeiting er lykilatriði til að njóta og minnka hættuna á að ofþreyta sig.

Ferðalög erlendis: Þegar farið er erlendis er að mörgu að huga, það hjálpar að vera vel undirbúin áður en lagt er af stað og:

 • eiga samtal við krabbameinslækninn áður en lagt er af stað. Athuga hvort það sé eitthvað varhugavert eða ráðleggingar sem best er að fylgja. Spurningum eins og hvort best sé að vera með grímu á flugvellinum eða í vélinni getur verið gott að fá svör við.
 • vera viss um að lyfjaskammturinn sé með og nýtist alla ferðina.
 • vera með afrit af sjúkraskránni, hafa upplýsingar um hvaða lyf þú ert að taka og í hvaða krabbameinsmeðferð þú hefur verið.
 • láta ferðafélaga einnig fá afrit af þessu, sem og lista yfir þá sem eru merktir sem ICE (In Case of Emergency) í símanum þínum.

Gæta hófs í sólinni: Sólargeislarnir eru varasamir fyrir alla en þeir sem eru í lyfja- eða geislameðferð eru sérstaklega viðkvæmir fyrir þeim.

 • Best er að takmarka að vera í sól milli kl. 10:00 og 16:00, þegar geislar hennar eru sterkastir.
 • Bera á sig breiðvirka sólarvörn með a.m.k. 30 SPF á fjögurra klukkustunda fresti en ef farið er í sundlaug eða sjóinn, þá á tveggja klukkustunda fresti.
 • Vera sem mest í skugga. Búa til skugga þegar hann er ekki að finna í umhverfinu, með regnhlíf eða hatti.
 • Nota fatnað sem vörn. Gæta þess sérstaklega að hylja ör og svæði sem voru geisluð.

Sigrast á hitanum: Í fríum erlendis viljum við vera sem mest úti við. Líkamar fólks sem er í krabbameinsmeðferð eru hins vegar ekki alltaf tilbúnir fyrir mikinn hita og mikil hætta er á magnleysi.

 • Best er að vera ekki of lengi í hita í senn. Taka pásur í skugga eða loftkælingu til að leyfa líkamanum að kólna.
 • Vera í víðum fötum úr efni sem andar vel. Þetta getur hjálpað líkamanum að viðhalda réttum hita og komið í veg fyrir ofhitnun.
 • Drekka vatn! Passaðu upp á að drekka nóg af vatni, helst áður en þú verður þyrst/ur. Íþróttadrykkir, eins og Gatorade, eru einnig hentugir til að viðhalda söltum.
 • Vatnsmiklir ávextir og grænmeti, eins og kál, vatnsmelóna og brokkólí er gott að grípa til.
 • Bleyta handklæði með köldu vatni eða vera með kalt vatn í spreybrúsa til að hjálpa líkamanum að halda hitastiginu niðri.
 • Viðhalda virkni með léttum æfingum, eins og stuttum göngum, yoga eða sundi í kaldri laug/sjó.
 • Fyrir mörg getur verið nauðsynlegt að vera með hatt eða klút í stað hárkollu.
 • Munnþurrkur, magnleysi, ógleði, höfuðverkur, hægðatregða og svimi geta verið merki um ofþornun, gott er að fylgjast vel með þessum einkennum.
 • Höfuðverkur, ógleði, vöðvakrampi, föl húð, lítil þvaglát, mikill sviti, svimi, roði eða heit húð, 39° hiti eða meira, ruglingur, uppköst, yfirlið og hraður púls geta verið einkenni sólstings. Nauðsynlegt er að vera vakandi fyrir þessum einkennum og gera ráðstafanir komi til þeirra.

Skynsemin að leiðarljósi: Þegar kemur að sumrinu er sólin ekki það eina sem fólk þarf að varast. Margar af athöfnum sumarsins, eins og t.d. sund, það sem við borðum og útileikir geta verið varasamar þar sem að margrar krabbameinsmeðferðir veikja ofnæmiskerfið. Því er mikilvægt að forðast skaðlegar bakteríur sem geta valdið sýkingum og veikindum.

 • Ef hvítu blóðkornin eru lág er best að forðast almenningssundlaugar og sjóinn. Þetta getur dregið úr hættunni á að veikjast
 • Í lautarferðum og þegar matur er grillaður er mikilvægt að skola, elda og kæla matvælin áður en þeirra er neytt. Þetta getur minnkað líkurnar á að veikjast út frá matnum.

Sumarfrí og krabbamein geta bætt andlega og líkamlega heilsu sé það skipulagt með þarfir allra í huga.

Gleðilegt sumar!