Krabbameinsgáttin: Stafræn heilbrigðisþjónusta
Með veglegum fjárstuðningi hefur Krabbameinsfélagið gert þróun og innleiðingu á Krabbameinsgáttinni mögulega.
Þróun sem hófst fyrir áratug
Yfir 90% sjúklinga með krabbamein fá meðferð á dag- og göngudeildum Landspítalans en í veikindaferlinu þurfa þeir og aðstandendur þeirra að takast á við sjúkdóminn, aukaverkanir og einkenni. Markmiðið með notkun Krabbameinsgáttarinnar er að styðja við sjúklinga í því að takast á við sjúkdóminn og meðferð hans á milli þess sem þeir hitta heilbrigðisstarfsfólk.
Hugmyndin að Krabbameinsgáttinni er sprottin úr klínísku starfi á Landspítala og hófst þróun hennar fyrir um áratug. Erlendar rannsóknir sýna að sambærilegar veflausnir efla þátttöku sjúklinga í meðferð og sjálfsumönnun, og bæta líðan og öryggi þeirra.
Öllum nýjum sjúklingum sem greinast með krabbamein og hefja meðferð á Landspítala er boðinn aðgangur að krabbameinsgáttinni og fá upplýsingar um hvernig hún er notuð. Sjúklingurinn notar gáttina í gegnum Heilsuveru undir flipanum meðferð.
Krabbameinsgáttin hefur þrenns konar virkni:
- Einkennamat sem býður upp á að heilbrigðisstarfsfólk geti fylgst með og brugðist við einkennum sjúklinga.
- Miðlun fræðsluefnis til sjúklinga.
- Samskipti milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks í gegnum skilaboðagátt.
Einkennamat er framkvæmt með tveimur spurningalistum, DT listanum sem er mat á vanlíðan og þörfum, og ESASr listanum sem metur 9 algeng einkenni hjá sjúklingum með krabbamein. Sjúklingar fá senda spurningalistana í Heilsuveru og svara þeim þar, en svörin birtast og varðveitast í sjúkraskrá viðkomandi þar sem meðferðarteymið sér þau. Spurningalistarnir eru tengdir viðvörunarkerfi sem lætur heilbrigðisstarfsfólk vita ef sjúklingur er með alvarleg einkenni. Í þeim tilfellum fær heilbrigðisstarfsfólkið þá skilaboð um að hafa samband við sjúklinginn og um leið virkjast sjálfkrafa sending á fræðsluefni um þau vandamál og einkenni sem sjúklingur merkir við, óháð því hve einkennin eru mikil. Til viðbótar getur heilbrigðisstarfsfólk sent sérstaklega valið fræðsluefni, til dæmis um meðferðina, einkennin, stuðningsþjónustuna og fleira, eins og við á hverju sinni. Í gegnum skilaboðagáttina getur sjúklingur sent inn fyrirspurnir og heilbrigðisstarfsfólk sent svör til baka.
Þróun og innleiðing
Unnið er að því að innleiða Krabbameinsgáttina á fleiri heilbrigðisstofnunum og mun hún þannig nýtast sjúklingum óháð því hvar þeir eru staddir eða hvaðan þeir fá þjónustu.
Þróun og innleiðing Krabbameinsgáttarinnar hefur verið samstarfsverkefni á milli Landspítala, Embættis Landlæknis, Krabbameinfélags Íslands og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins. Krabbameinsfélagið hefur styrkt verkefnið um 20 milljónir króna á undanförnum árum og kostar nú vinnu við að auka notkunina enn frekar. Auk þess hefur Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins styrkt verkefnið um 9 milljónir.