Jökull í KALEO styrkir Krabbameinsfélagið
Jökull Júlíusson í KALEO afhenti Krabbameinsfélaginu í upphafi árs 2.5 milljónir sem var afrakstur Rauðu jólanna, viðburðar sem hann hélt í Hlégarði í desember fyrir fullu húsi.
Af því tilefni slógum við á þráðinn til Jökuls sem staddur er í Nashville í Bandaríkjunum við upptökur.
Þegar hann svarar hinum megin línunnar er einhver stóísk ró yfir honum og við byrjum á að þakka honum fyrir þessa höfðinglegu gjöf og spyrja hvernig þetta hafi komið til.
,,Ég held fast í þá hefð að vera heima yfir jólahátíðina enda á faraldsfæti nánast allan ársins hring. Við vinirnir og fjölskyldan höfum haldið Rauðu jólin síðustu ár því það hefur verið besta leiðin fyrir mig til að hitta sem flesta yfir jólin. Þessi hittingur er orðin hefð en hefur verið óformlegur viðburður hingað til með það eina markmið að vinir og fjölskylda geti notið þess að hittast. En það fylgir þessu eitt skilyrði, það verða allir að mæta í ljótri jólapeysu” útskýrir Jökull og hlær. ,,Svo ákváð ég að gera þetta stærra, gera viðburð úr þessu, fá fleira fólk með mér í lið, bjóða upp á tónlist og almenna skemmtun, nýta tækifærið og gefa til baka”.
Vináttan í forgrunni
Hann segir hæg heimatökin í Mosó, sinni heimabyggð með öllu því góða fólki sem þar er, við að setja upp viðburð sem þennan og byrjaði hann á að hafa samband við Hilmar vin sinn og úr varð þessi viðburður í Hlégarði.
Þegar hann er spurður nánar út í uppboðið, hvað hefði verið boðið upp nefnir hann flugmiða frá Icelandair, úlpur og varning frá 66 Norður, miða á Old Trafford, áritaða hanska frá Gunnari Nelson og áritaðar fótboltatreyjur frá Aroni Gunnarssyni landsliðsfyrirliða svo fátt eitt sé nefnt.
,,Uppboðið varð aðaltekjulind viðburðarins, einkar hressandi og skemmtilegt í alla staði og ekki síst fyrir þá staðreynd að geta fært Krabbameinsfélaginu örlítinn stuðning”.
Aðspurður af hverju Krabbameinsfélagið hafi orðið fyrir valinu segir Jökull að flestir tengi við málefnið. ,,Það þekkja flestir einhvern sem hefur greinst með krabbamein eða misst vin eða fjölskyldumeðlim úr sjúkdómnum. Þess vegna völdum við Krabbameinsfélagið, okkur þótti það viðeigandi í ár”.

,,Þetta átti fyrst og fremst að vera léttur og skemmtilegur viðburður, með vináttuna í forgrunni, tónlist alltumlykjandi og síðast en ekki síst uppboði á alls kyns varningi þar sem ágóðinn rann óskiptur til Krabbameinsfélagsins”.
Lífsstíllinn
Það fer ekki framhjá neinum sem fylgist með Jökli og KALEO að hann leggur mikið upp úr góðum lífsstíl. Og þar sem eitt af lykilatriðum forvarna krabbameins er heilbrigður lífsstíll þá lék okkur forvitni á að fræðast um hans.
,,Það er mikilvægt í mínu starfi að hugsa um sig, hljóðfærið er líkaminn minn og ef hann er ekki í góðu standi þá er ég ekki 100%. Það er þrennt sem ég legg áherslu á og það er hreyfing, svefn og gott mataræði”.
Hann segist halda úti mismunandi rútínum við mismunandi aðstæður. Langir dagar í stúdíóinu, álagið við að vera á tónleikaferðalagi og spila 5-6 kvöld í viku eða dvelja heima í Mosó falla ekki undir sömu rútínuna og því mikilvægt að sinna sér á þeim forsendum sem hann býr við í það og það skiptið.
,,Ég hef alltaf hugsað vel um heilsuna alveg frá því ég var ungur í fótbolta. Enginn lúxus heldur verið meðvitaður um það sem þarf til að ná árangri og góðri heilsu. Þegar við í KALEO erum að ferðast kannski til 6 landa á viku, gera soundtjékk á daginn, hitta fólk og spila á kvöldin þá er mér nauðsynlegt að finna tíma til að hreyfa mig sem oft getur verið áskorun en þar sem það er mér mikilvægt tekst mér oftast að finna tíma fyrir mig”.
Hefði valið sömu leið
Með reynsluna í farteskinu spyrjum við hvort hann hefði breytt einhverju ef fótboltastrákurinn Jökull 12 ára fengi tækifæri á að hitta tónlistarmanninn Jökul 34 ára. Svarið er afdráttarlaust nei. ,,Ég hefði alltaf valið sömu leið því með því að framkvæma og reka mig á hef ég lært svo margt, eins og hver önnur manneskja. Það eru mjög mikil forréttindi að vinna við það sem maður elskar og í mínu tilfelli er það tónlistin. Hingað er ég kominn eftir þær leiðir sem ég hef valið sem oft á tíðum hafa innifalið áskoranir, sigra jafnt sem ósigra. Ég er spenntur fyrir komandi tímum, er að klára plötu hér í Nashville, vinn frá morgni til kvölds með hádegishléi og hreyfingu innifaldri í verkefnum dagsins ásamt góðri næringu”.
Hann biðst velvirðingar á því hve erfitt það hafi verið að ná í sig, sem okkur finnst nú ekkert tiltökumál miðað við dagskrá og eril starfs hans. ,,Það er ekki alltaf slétt og fellt í þessu starfi. Þegar maður kemst í flæði þá reynir maður að nýta tímann aðeins lengur til að koma verkefninu áfram”.
Vill gefa til baka
Að síðustu spyrjum við Jökul hvernig hann vill geta horft til baka sem gamall maður, hvernig hann vilji að sín verði minnst af öðru en tónlistinni sem mun að sjálfsögðu lifa með okkur langt út fyrir lífshlaupið. Hann er snöggur til svars og segir fjölskyldu sína og vini. ,,Ég á mjög sterkt bakland, góða fjölskyldu og vini og ég mundi vilja að þau hafi fundist ég traustsins verður og að sama skapi gefið þeim til baka. Rauðu jólin voru hluti af því að gefa til baka en í stærra samhengi í þetta skiptið og ég er þakklátur fyrir að getað verið í þeirri aðstöðu og ég vil vera í þeirri aðstöðu áfram, að gefa til baka”.

Hilmar Gunnarsson, Jökull Júlíussonn, Dion Duff og Georg Leite