Beint í efni

Frétt­ir af að­stöðu dag­deildar á Land­spít­ala

Afar bág aðstaða dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala, þar sem flestir í krabbameinslyfjameðferð hér á landi fá sína meðferð, hefur lengi verið til umræðu. Krabbameinsfélagið hefur fylgst með málinu og reglulega leitað frétta af því. Í síðustu viku áttu Hlíf Steingrímsdóttir, formaður félagsins, og Halla, framkvæmdastjóri, fund með forstjóra Landspítala og fleiri stjórnendum um málið. 

Afar bág aðstaða dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala, þar sem flestir í krabbameinslyfjameðferð hér á landi fá sína meðferð, hefur lengi verið til umræðu. Á vegum Krabbameinsfélagsins var mikil umræða um aðstöðuleysi deildarinnar frá vorinu 2021, þegar félagið bauð stjórnvöldum að leggja uppbyggingu deildarinnar lið með 450 milljóna fjárframlagi ef þegar yrði hafist handa við að bæta aðstöðuna.

Skemmst er frá því að segja að stjórnvöld brugðust ekki við á þeim tíma. Húsnæði dagdeildarinnar er enn óbreytt og löngu sprungið. Aðstaðan er bæði allt of lítil og langt frá því að þar sé hægt að uppfylla þarfir notenda hennar, sem auðvitað hefur áhrif bæði á starfsfólk og mönnun.

Krabbameinsfélagið er í góðu sambandi við þá sem eru að nýta þjónustuna, meðal annars í gegnum Notendaráð félagsins, sem hefur svarað spurningum frá félaginu um reynslu sína af deildinni. „Þeim sem nýta þjónustuna er tíðrætt um hve vel heilbrigðisstarfsfólkið á deildinni leggur sig fram í þjónustunni en á sama tíma blöskrar fólki líka að sjá hvernig starfsaðstæðurnar eru“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

„Við vitum að þeir sem fá lyfjameðferð á dagdeildinni eru mjög margir að takast á við erfiðustu verkefni lífs síns. Það er erfitt að heyra af því hjá fólki að það geti ekki nema í undantekningartilvikum haft sína nánustu með sér í lyfjagjöf, sem þýðir að fólkið verður af mjög mikilvægum stuðningi. Aðstandendur geta sömuleiðis ekki fylgst nægilega vel með, eða átt mikilvæg samskipti við heilbrigðisstarfsfólkið. Það má ekki gleyma því að nánustu aðstandendur eru í mörgum tilvikum bein framlenging af starfsfólkinu þegar heim er komið og milli meðferða.“

Krabbameinslyfjameðferð tekur verulega á og er margt sem getur komið upp á sem þörf er á að ræða við heilbrigðisstarfsfólk. Að sögn Höllu er algeng umkvörtun þjónustuþega að þrengslin geri slík samskipti erfiðari. „Margir nefna hversu þröngt er setið á meðferðarstofunum, sem geri það að verkum að fólk veigri sér við að ræða viðkvæm mál sem það þó þyrfti að ræða. Það hefur þá jafnvel sjálft reynslu af því að hafa orðið vitni að slíkum samræðum og vill ekki að aðrir heyri.“

Krabbameinsfélagið hefur fylgst með málinu og reglulega leitað frétta af því. Í vikunni áttu Hlíf Steingrímsdóttir, formaður félagsins, og Halla, framkvæmdastjóri, fund með forstjóra Landspítala og fleiri stjórnendum um málið. Fundurinn var góður og ljóst að fullur skilningur er á vandanum innan spítalans.

„Að bæta aðstöðu deildarinnar er á höndum Landspítala og er í algerum forgangi hjá okkur,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. „Við höfum stuðning Heilbrigðisráðuneytisins en það hefur því miður tekið lengri tíma að finna lausn en við hefðum kosið. Öllum er ljóst að deildin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið og hversu mikla þýðingu það hefur, bæði fyrir þá sem nota þjónustuna og starfsfólkið. Við vonumst til að í apríl verðum við komin með einhverja mynd af lausn sem dugi til bráðabirgða, þar til nýtt dag- og göngudeildarhús verður tilbúið sem hluti af nýjum Landspítala.“

Fyrirsjáanleg fjölgun krabbameinstilvika á næstu árum er spítalanum einnig áhyggjuefni. „Við búumst því miður við mikilli fjölgun krabbameinstilvika á næstu árum, en samhliða eru framfarirnar sem betur fer miklar og sífellt aukinn árangur, þannig að lifendum fjölgar líka mjög hratt. Í þessu felast miklar áskoranir sem krefst þess að við séum á tánum í öllu tilliti og í góðu samstarfi við Krabbameinsfélagið og notendur þjónustunnar,“ segir Runólfur.

Hlíf Steingrímsdóttir, formaður Krabbameinsfélagsins tekur undir orð Runólfs um mikilvægi þess að þétt og gott samstarf ríki á milli spítalans og Krabbameinfélagsins. „Við tökum sannarlega undir með Runólfi. Það er mikilvægt að eiga opið og gott samtal um stöðuna, hér er um mikið og stórt hagsmunamál að ræða. Það er skylda Krabbameinsfélagsins sömuleiðis að miðla upplýsingum til þeirra sem nýta þjónustuna. Við munum fylgjast vel með áfram og hlökkum til að heyra af ákvörðunum spítalans varðandi aðstöðuna þegar vorar. Málið getur einfaldlega ekki beðið.“

Upplýsingasíða Krabbameinsfélagsins (frá árinu 2021) um dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. 

https://www.youtube.com/watch?v=3e0VF_MdQBg&t=1s