Beint í efni

Bylt­ing - hálf­ur millj­arð­ur til krabba­meins­rann­sókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, meðal annars með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.

Vísindamenn á Íslandi eru hluti af vísindasamfélagi á heimsvísu sem sinnir fjölbreyttum rannsóknum á vettvangi krabbameina. Vísindamenn beita margvíslegum aðferðum til að betri árangur náist; að krabbameinstilfellum fækki, að dauðsföllum af völdum krabbameina fækki og unnt sé að bæta lífsgæði þeirra sem greinst hafa með krabbamein og aðstandenda þeirra.

Störf íslenska vísindafólksins eru mikilvæg, bæði sem hluti af uppbyggingu þekkingar á alþjóðavettvangi og einnig svo þekkja megi og vinna út frá innlendum upplýsingum sem varða t.d. útbreiðslu krabbameina hérlendis og árangur meðferða.

Á síðustu áratugum hafa orðið stórkostlegar framfarir í greiningu og meðferð krabbameina fyrir tilstilli krabbameinsrannsókna. Enn er þó langt í land.

Stofnframlag Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins var 250 milljónir og samanstóð af framlagi Krabbameinsfélagsins sjálfs, framlaga frá aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins auk þess sem minningarsjóðir Kristínar Björnsdóttur og Ingibjargar Johnsen runnu inn í sjóðinn. Frá stofnun sjóðsins hefur Krabbameinsfélagið, með öflugum stuðningi frá almenningi og fyrirtækjum í landinu, styrkt sjóðinn um 229 milljónir til viðbótar.

Stofnun Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins var mikið heillaskref og Krabbameinsfélagið, með fólkinu í landinu, getur verið stolt af því að leggja lið því öfluga vísindafólki sem er að finna hér á landi og stuðla að frekari framförum, landsmönnum til heilla.

Ragnheiður Haraldsdóttir er formaður stjórnar Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands

Nú stendur yfir evrópska krabbameinsvikan (European week against cancer) Þá vekja evrópsk krabbameinsfélög athygli á ýmsum þáttum sem skipta máli í því marghliða verkefni sem krabbamein er.