Beint í efni

Skapa- og leg­ganga­krabba­mein

Skapa- og leggangakrabbamein eru tiltölulega sjaldgæf. Talið er að HPV-veirur eigi þátt í myndun meirihluta þessara meina.

Hvað er skapa- og leggangakrabbamein?

Ytri kynfæri konunnar eru gerð úr ytri og innri skapabörmum ásamt sníp. Milli ytri kynfæranna og leghálsins eru leggöngin.

Krabbamein í sköpum er almennt um þrisvar til fjórum sinnum algengara en krabbamein í leggöngum. Algengasta krabbamein í sköpum og leggöngum er flöguþekjukrabbamein (squamous cell carcinoma). Fleiri vefjagerðir illkynja æxla geta einnig komið fyrir á þessum stöðum svo sem sortuæxli (malignant melanoma), en þau eru mjög sjaldgæf.Krabbamein sem á upptök sín í leggöngunum er mun sjaldgæfara en meinvörp eða vöxtur æxlis niður í leggöng, sem annars á upptök sín utan legganga, oftast í leghálsi. Slík meinvörp eru oftast meðhöndluð á svipaðan hátt og æxli upprunnin í leggöngum.

Helstu einkenni

Sköp: Ákafur kláði, sviði, roði, blæðingar og hnúður eða sár sem grær illa. Krabbameinið vex oft í kjölfar vissra húðbreytinga, t.d. harðra og hvítra bletta (svokallaðra leukoplakia).

Leggöng: Blóðug útferð eða allnokkur blæðing frá leggöngum. Einnig getur sársauki verið til staðar, t.d. í sambandi við þvaglát.

Greining

Við grun um krabbamein í sköpum eða leggöngum er gerð kvensjúkdómarannsókn. Læknirinn tekur þá vefjasýni frá óeðlilegu svæði og þau eru síðan rannsökuð og greind í smásjárskoðun. Stundum eru auk þess tekin fínnálarsýni frá nálægum eitlum.

Meðferð

Meginmeðferð krabbameins í sköpum er skurðaðgerð. Þá er æxlið og skapabarmar fjarlægt ásamt nálægum eitlum. Stundum er geislameðferð beitt á svæðið fyrir og/eða eftir aðgerðina. Einnig getur geislameðferð verið eina úrræðið, t.d. ef konan er ekki talin þola aðgerð vegna annars sjúkdóms eða hás aldurs.

Krabbamein í leggöngum er oftast meðhöndlað með krabbameinslyfjum og geislameðferð. Svokallaðri ytri og innri geislun er beitt. Ef unnt er að beita innri geislun með innleggi sem sett er beint inn í leggöngin á æxlissvæði er mögulegt að gefa stærri geislaskammt á æxlið heldur en ef geisluninni er eingöngu beitt utan frá. Jafnframt er aðliggjandi heilbrigðum vef þyrmt eftir fremsta megni.

Orsakir

Talið er að veirur eigi drjúgan þátt í myndun krabbameina í sköpum og leggöngum. Þar er aðallega um að ræða HPV-veirur, en til eru margar tegundir þeirra veira og geta sumar þeirra orsakað kynfæravörtur (condyloma accuminata) á skapabörmunum og í leggöngunum, en einkum eru það aðrar gerðir veirunnar sem geta valdið forstigsbreytingum og illkynja vexti. Eins og reyndin er með krabbamein í leghálsi geta þó liðið mörg ár frá sýkingu þar til að æxli myndast. Óvíst er með þátt reykinga í tilurð krabbameins í ytri kynfærum kvenna.

Tölfræði og lífshorfur

Horfur kvenna sem greinast með krabbamein í sköpum og leggöngum eru á heildina litið fremur góðar. Krabbamein í sköpum hefur oftast talsvert betri horfur en krabbamein í leggöngum.

Að meðaltali greinast um 8 konur árlega með þessi mein og greinast krabbamein í sköpum oftast meðal eldri kvenna (eldri en 65-70 ára), en þær konur sem fá krabbamein í leggöngin eru oftast á milli 40 og 69 ára.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri - Krabbameinsskrá