Beint í efni

Krabba­mein á höfði og hálsi

Krabbamein á höfði og hálsi teljast þau mein sem myndast í vörum, munnholi, munnvatnskirtlum, munnkoki, hálskirtlum og barkakýli.

Þessi mein eru talsvert algengari meðal karla en kvenna. Reykingar, munntóbak og áfengi eru meðal þekktra áhættuþátta.

Hvað er krabbamein á höfði og hálsi?

Krabbamein í vörum og munnholi

Varir og slímhúð munnholsins eru klæddar lagskiptri flöguþekju, sem er í sífelldri endurnýjun. Krabbamein í vörum og munnholi á í langflestum tilvikum upptök sín í þekjufrumum. Varakrabbamein, sem er orðið mun fátíðara en munnholskrabbamein, uppgötvast oftast snemma í sjúkdómsgangi og þá er hægt að lækna það áður en sjúkdómurinn nær að dreifa sér. Krabbamein í munnholi hefur oftar en krabbamein upprunnið í vör dreift sér til nærliggjandi eitla áður en unnt er að greina og meðhöndla æxlið. Forstigsbreytingar þessara krabbameina geta greinst í slímhúð í munnholi og á vörum.

Krabbamein í munnvatnskirtlum

Hlutverk munnvatnskirtlanna er að framleiða munnvatn sem gerir það að verkum að léttara er að vinna úr fæðunni og kyngja henni. Í munnvatninu er m.a. ensím (amýlasi) sem sundrar kolvetnum en melting fæðu hefst í munninum með hjálp munnvatns frá munnvatnskirtlum. Munnvatnið stuðlar einnig að því að halda munnholinu og tönnunum hreinum. Um einn lítri af munnvatni myndast á sólarhring. Mestur hluti þess kemur frá hinum þremur stóru gerðum munnvatnskirtla: Vangakirtlum (gl. parotis), sem eru fyrir framan, undir og rétt aftan við eyrun, kjálkakirtlum (gl. submandibularis), sem eru á hálsi, undir höku og tungukirtlum (gl. sublingualis), sem eru undir tungunni. Auk þess eru litlir munnvatnskirtlar í slímhimnum kinna, góms, tungu og vara. Algengast er að æxli myndist í vangakirtli. Flest æxli sem koma fyrir í munnvatnskirtlum eru góðkynja og teljast ekki með krabbameinum, en um 15% eru illkynja. Þetta hlutfall er þó hærra af æxlum sem upprunnin eru í litlu munnvatnskirtlunum í munnslímhúð, en í heild eru æxli í þeim sjaldgæf.

Krabbamein í barkakýli

Barkakýlið (larynx) er framan á hálsinum og tengir efri hluta barkans við munn- og nefhol. Barkakýlið er gert úr fimm brjóskhlutum sem haldast saman af liðböndum og vöðvum. Skjaldbrjóskið, svonefnt adamsepli, er stærst og getur – sérstaklega hjá körlum – orðið áþreifanlegt og sýnilegt framan á hálsinum. Barkakýlið er mikilvægt fyrir öndun, tal og söng. Einnig gegnir það hlutverki þegar fólk nærist. Þegar við kyngjum lokast barkalokið þannig að matur og drykkur fara rétta leið, þ.e.a.s. niður vélindað í stað þess að berast niður barkann. Inni í barkakýlinu eru raddböndin. Þegar við öndum eðlilega, án þess að tala, eru raddböndin slök þannig að loftið getur farið léttilega milli barka og munn- og nefhols. En þegar við tölum eða syngjum strekkist á raddböndunum og þau titra þannig að hljóð myndast. Raddböndin virka líkt og strengir; hljóðið verður bjartara því meira sem strekkist á þeim. Tungan, gómurinn og varirnar ummynda síðan hljóðin í orð. Krabbamein í barkakýli á fyrst og fremst upptök sín í yfirborðsþekju barkans og tengist gjarnan forstigsbreytingum sem sjást í flöguþekjuslímhúð. Algengust eru æxli sem eiga uppruna sinn í sjálfum raddböndunum eða 60-75%. Næstalgengust eru æxli fyrir ofan raddböndin, en krabbamein í neðri hluta barkakýlisins eru mjög sjaldgæf. Langflest krabbamein í barkakýli eru af flöguþekjugerð, en kirtilmyndandi æxli koma einnig fyrir og eru talin vera upprunnin í kirtlum í barkakýlinu.


Helstu einkenni

Krabbamein í vörum og munnholi: Krabbamein í vör myndast í flestum tilfellum utan á neðri vör og birtist þá sem sár sem vill ekki gróa, með eða án sársauka. Hvítleitir blettir (leukoplakia) og rauðleitir blettir (erythroplakia) geta verið frumstig krabbameins innan á vörum eða í munnslímhúð. Krabbamein í munnholi getur einnig birst sem sár sem ekki vill gróa. Sárið er oft hart eða þétt viðkomu. Sár sem hafa varað í tvær vikur og sýna engin merki um bata ættu að vera metin af sérfræðingi til að greina eða útiloka krabbamein.

 • Önnur einkenni munnholskrabbameins eru erfiðleikar við að tyggja, kyngja og hreyfa tunguna, einkum ef meinin eru aftarlega í munnholi. Stundum uppgötvar sjúklingur meinið sem óvenjulegt þykkildi eða fyrirferð sem stundum getur truflað legu gervitanna.
 • Munnvatnskirtilsæxli uppgötvast oft sem fyrirferðaraukning. Gjarnan er um að ræða kúlulaga þéttan hnút, oftast á vangakirtilssvæðinu, einkum ef um er að ræða góðkynja fjölgerðaræxli (pleomorpic adenoma). Ef sársauki er tengdur fyrirferðaraukningu eða andlitstaugarlömun þá aukast líkur á að hnútur sé illkynja. Ekki eru þó allir hnútar eða þéttingar sem fram koma í munnvatnskirtlum merki um æxlisvöxt. T.d. geta sýkingar eða bólgubreytingar verið orsökin og getur tengst steinamyndun í útfærslugöngum kirtilsins.

Krabbamein í koki getur birst sem verkur eða særindi við að tyggja, kyngja eða þegar kjálki eða tunga eru hreyfð. Stundum leiðir verkur til eyrna.

Krabbamein í nefi eða skútum valda yfirleitt ekki einkennum fyrr en þau eru langt gengin. Þá geta einkenni verið nefstífla, höfuðverkur, nefblæðingar, verkur og/eða bólga.

Megineinkenni krabbameins í barkakýli er hæsi. Sá sem er hás lengur en þrjár vikur ætti að fara í læknisrannsókn. Jafnvel lítið æxli á raddbandi getur valdið hæsi. Stundum veldur krabbamein í barkakýli erfiðleikum við að kyngja eða tilfinningu um að kökkur sé í hálsinum. Sársauki getur einnig verið til staðar.

Greining

Ekki er óalgengt að tannlæknir eða heimilislæknir hitti fyrst viðkomandi. Ef grunur er um krabbamein eða æxli þá er viðkomandi vísað til sérfræðings í háls-, nef- og eyrnalækningum, sem gerir eða pantar eftirfarandi rannsóknir:

 • Læknirinn skoðar sjúkling og þreifar eftir breytingum.
 • Ef æxli eða vefjabreyting finnst er tekið sýni, sem gefur oft endanlega greiningu.
 • Ef krabbamein er staðfest er fengin tölvusneiðmynd og/eða segulómrannsókn af hálsi og tölvusneiðmynd af lungum til að meta stærð æxlis og kanna hvort vísbendingar séu um að meinið hafi dreift sér.
 • Við grun um krabbamein í barkakýli getur læknirinn rannsakað barkakýlið og raddböndin með hjálp barkaspeglunartækis. Vissar rannsóknir á krabbameini í barkakýli og raddböndum þarf að framkvæma í svæfingu.

Meðferð

Meginmeðferðir krabbameina á höfði og hálsi er skurðaðgerð og geislameðferð. Í sumum tilfellum er gefin lyfjameðferð.

Ef krabbamein í vör eða munnholi greinist á byrjunarstigi getur verið nóg að fjarlægja það, ásamt nærliggjandi vef. Stundum þarf að beita viðbótarmeðferð í formi geislameðferðar eftir skurðaðgerð, sérstaklega ef sjúkdómur er lengra genginn. Krabbameinslyfjameðferð er aðallega beitt til að auka áhrif geislameðferðar eða í líknandi tilgangi. 

Skurðaðgerð er helsta lækningaaðferðin við æxlum í munnvatnskirtlum, en stundum er geislameðferð einnig beitt. Við aðgerð er hluti munnvatnskirtilsins eða allur kirtillinn fjarlægður. Við krabbamein í vangakirtlinum er reynt, ef hægt er, að hlífa hinni mikilvægu andlitstaug (nervus facialis) sem liggur í gegnum kirtilinn. Stundum er æxlið þannig vaxið að slíkt er ekki mögulegt, og þá veldur aðgerðin því að helmingur andlitsins lamast. Megineinkenni þess er slapandi munnvik þeim megin andlits og andlitsvöðvar þeim megin rýrna og lamast.

Meðferð krabbameins í barkakýli er háð því á hvaða stigi æxlið er þegar það uppgötvast. Lítil og afmörkuð æxli eru venjulega meðhöndluð með geislameðferð. Allra minnstu æxlin eru þó oftast meðhöndluð með leysiskurðaðgerð. Þegar um stærri æxli er að ræða er gefin samtvinnuð lyfja- og geislameðferð. Við endurkomu sjúkdóms þarf að fjarlægja allt barkakýlið með skurðaðgerð (laryngectomy). Krabbameinslyfjameðferð og/eða geislameðferð getur verið beitt í líknandi tilgangi. Í þeim tilfellum þar sem nauðsynlegt er að fjarlægja barkakýlið þarf sjúklingurinn að læra að tala á nýjan hátt. Það er nú orðið hægt með mörgum mismunandi aðferðum. Algengast er að með aðgerð sé settur inn ventill eða loftloka til að tengja barkann við vélindað. Talið myndast við það að slímhimna vélindans fer að titra þegar sjúklingur þrýstir fingri á op hálsins og loft þrýstist inn í vélindað, svokallað vélindatal. Önnur aðferð er að nota svonefndan raddtitrara sem þrýstir undir hökuna og sendir inn titring í munninn og með hjálp tungunnar, gómsins og varanna er hægt að mynda hljóð.

Áhættuþættir og forvarnir

Tveir meginþættir auka hættuna á krabbameini á höfði og hálsi:

 • Reyktóbaksnotkun, svo sem sígarettur, vindlar og pípur.
 • Áfengisneysla, sérstaklega hjá reykingafólki.

Aðrar þekktar orsakir eru:

 • HPV-veirusmit, sérstaklega stofn 16. HPV-veiran greinist í auknum mæli í krabbameinum í munnkoki. Möguleg ástæða er breytt kynlífshegðun. 
 • Útfjólublá geislun sólar er áhættuþáttur fyrir krabbameini í vör; bændur, sjómenn og aðrir sem vinna mikið utandyra eru líklegri til að fá meinið en aðrir. (Reykingar eru þó aðaláhættuþáttur krabbameina í vör).
 • Sárasóttarsýking í munni getur valdið slímuþykkildi (e. leukoplakia) sem getur með tímanum þróast í krabbamein.
 • Betel-lauf og areca-hnetur. Í Austurlöndum fjær hefur verið vinsælt að tyggja svokölluð betel-lauf og areca-hnetur, sem oft er blandað saman við leskjað kalk en þetta er talið auka hættuna á myndun æxla á höfði og hálsi.
 • Ónæmisbæling. Æxli í munnholi eru algengari hjá ónæmisbældum einstaklingum, m.a. sjúklingum með alnæmi.

Lítið er vitað um áhættuþætti munnvatnskirtilskrabbameins.

Tölfræði og lífshorfur

Krabbamein í munnholi og vör

Horfur sjúklinga með krabbamein í vör eru mun betri en sjúklinga með munnholskrabbamein. Langflestir með krabbamein í vör eru á lífi fimm árum eftir greiningu. Hins vegar er aðeins tæplega helmingur þeirra sem greinast með munnholskrabbamein í munnbotni, tungu og koki á lífi eftir fimm ár frá sjúkdómsgreiningu, enda hafa þessi æxli oft dreift sér til eitla þegar einkenni verða til þess að sjúklingur leitar læknis. 

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri-Krabbameinsskrá

Krabbamein í munnvatnskirtlum

Horfur sjúklinga með munnvatnskirtilkrabbamein eru mjög mismunandi eftir vefjagerð krabbameinsins.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri-Krabbameinsskrá

Krabbamein í barkakýli

Horfur sjúklinga með krabbamein í barkakýli og þar með í raddböndunum hafa batnað á undanförnum áratugum. Horfur eru bestar ef æxlið er á raddböndunum sjálfum. Ef æxlin eru ofan raddbanda hafa þau oft dreift sér til nærliggjandi eitla áður en einkenna verður vart og sjúklingur leitar læknis, en í slíkum tilfellum eru horfur lakari. 

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri-Krabbameinsskrá