Undirbúningur fyrir viðtöl
Með undirbúningi fyrir viðtal við lækni aukast líkur á því að viðtalið sé gagnlegt jafnt fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein, aðstandendur þess og heilbrigðisstarfsfólk.
Ekkert er eðlilegra en að margskonar spurningar vakni upp hjá þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra. Það er alltaf betra að spyrja frekar en að velkjast í vafa og hafa áhyggjur – kannski að ástæðulausu. Áður en farið í viðtalið er gott að velta fyrir þér hvers þú væntir af samtalinu við lækninn, íhuga það og ræða við þína nánustu.
Með því að undirbúa viðtalið aukast líkur á að það verði gagnlegt og veiti öryggi. Hér má lesa nokkur ráð til að stuðla að því.
Fyrir viðtalið
- Gott er að biðja maka, ættingja, vin eða einhvern sem þú treystir vel að koma með þér til læknisins. Ef það gengur ekki af einhverjum ástæðum er ef til vill hægt að hafa viðkomandi í símanum með kveikt á hátalara og/eða í mynd.
- Skrifaðu niður þær spurningar sem þú vilt fá svör við.
- Gerðu lista yfir þau lyf og bætiefni sem þú tekur inn, þar með talið vítamín.
- Skrifaðu niður einkenni sem þú finnur fyrir og lýstu þeim eins vel og þú getur. Taktu fram hvenær þú fórst að finna fyrir þeim og hvort eitthvað dragi úr einkennum eða auki þau.
Meðan á viðtalinu stendur
- Ekki hika við að biðja um að það sem rætt er sé endurtekið eða útskýrt nánar.
- Fáðu þann sem kemur með þér, eða er í símanum, til að punkta niður það helsta sem fram kemur.
- Hægt er að spyrja hvort taka megi viðtalið upp (til dæmis á farsíma).
Áður en viðtalinu lýkur
- Athugaðu hvort þú hafir fengið svör við öllum spurningunum sem þú skrifaðir niður.
- Gakktu úr skugga um að þú vitir hver næstu skref eru.
- Spyrðu hvern þú getir haft samband við ef einhver vandamál eða spurningar koma upp.
- Fáðu upplýsingar um áreiðanlegar vefsíður eða annað fræðsluefni varðandi sjúkdóm þinn og meðferðarmöguleika.
Eftir viðtalið
- Geymdu það sem þú hefur skrifað niður eða gögn sem þú hefur fengið á öruggum stað ef þú skyldir þurfa að vísa í eða fara yfir þau aftur síðar.
- Merktu tímasetningu næsta viðtals inn í dagbók eða dagatal.
- Ræddu við þína nánustu um það sem kom fram í viðtalinu.
Þetta er viðtalið þitt, nýttu það vel!
Fleiri hafa gefið út leiðbeiningar sem geta verið hjálplegar þegar kemur að læknisheimsóknum. Landspítali gaf sem dæmi út Sjúklingaráðin 10 og Kraftur Að hverju á ég að spyrja lækninn?