Beint í efni

Hjarta- og æða­sjúk­dóm­ar

Sumar krabbameinsmeðferðir geta valdið síðbúnum aukaverkunum sem tengjast hjarta- og æðakerfinu. Slíkar aukaverkanir eru sjaldgæfar, en þær eru alvarlegar og í sumum tilfellum geta þær verið lífshættulegar.

Geislameðferð á brjóstkassa, þar sem hjartað er hluti af geislunarsvæðinu, eykur hættu á kransæðasjúkdómi sem og hjartabilun, hjartsláttartruflunum og lokugalla síðar í lífinu. Ákveðnar tegundir krabbameinslyfja, t.d. Trastuzumab, Anthracycline og Cisplatin geta aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum síðar í lífinu.

Sem betur fer upplifir aðeins lítill hluti sjúklinga aukaverkanir sem hafa áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma. Misjafnt er hversu langur tími líður frá því að meðferð lýkur þangað til einkenni koma fram hjá þeim sem fá slíka sjúkdóma í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Hjá mörgum koma einkenni ekki fram fyrr en árum eða áratugum eftir að meðferð lýkur.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að ræða við heimilislækni ef þú hefur fengið krabbameinsmeðferð sem getur haft áhrif á hjarta- og æðakerfið. Einnig er nauðsynlegt að vera meðvitaður um einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og leita sér hjálpar ef slík einkenni koma fram.

Heilbrigður lífsstíll er lykilatriði til þess að draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Ráðlagt er að stunda reglulega hreyfingu, viðhalda hæfilegri líkamsþyngd, forðast reykingar og óhóflega notkun áfengis og fylgjast með að blóðþrýstingurinn sé ekki yfir viðmiðunarmörkum.

Leitaðu strax læknisaðstoðar ef þú upplifir eftirfarandi einkenni:

  • Verk, þrýsting eða þyngsli í brjóstkassa.
  • Verk, dofa eða óþægindi í efri hluta líkamans, svo sem í baki, handlegg, öxl, hálsi, maga eða kjálka/tönnum.
  • Óreglulegan, hægan eða mjög hraðan hjartslátt.
  • Mæði.
  • Ógleði, uppköst, uppþembu eða brjóstsviða.
  • Svita og/eða kaldsveitta húð.

Ef þú telur að þú sért að fá hjartaáfall skaltu strax hringja í 112 og óska eftir sjúkrabíl.

Heimildir

Hjerte- og karsykdommer

Seneffekter etter kreftbehandling (helsedirektoratet.no)

Vidensopsamling på senfølger efter kræft hos voksne - Sundhedsstyrelsen

Hjartaáfall | Heilsuvera