Beint í efni

Þegar ást­vin­ur grein­ist með krabba­mein

Það er flestum áfall þegar ástvinur greinist með krabbamein.  Þá er algengt að hugsanir og tillfinningar af ýmsum toga geri vart við sig.

Sálræn viðbrögð

Þú gætir upplifað ýmislegt sem tengist því að verða fyrir áfalli eða sjokki, eins og; örvinglan, sorg, vonbrigði, afneitun, dofa, erfiðleika við einbeitingu.

Einnig gætirðu upplifað svipaðar tilfinningar og sýnt svipuð viðbrögð og sá sem greinist með krabbamein. Til að mynda gætirðu fundið fyrir pirring, reiði, kvíða, skapsveiflum, ótta og viðkvæmni.

Við þessar aðstæður er í raun ekki hægt að tala um að ákveðin viðbrögð séu rétt eða röng. Manneskjan er margbreytileg og þess vegna er misjafnt hvernig við bregðumst við og tökumst á við erfiða atburði í lífinu. Viðbrögð þín gætu til að mynda markast af því hvernig sambandi þínu við ástvininn er háttað, hversu alvarleg eða umfangsmikil veikindi hans eru og hvernig honum líður almennt í veikindunum og í meðferðinni vegna þeirra.

Samskipti við aðra

Yfirleitt hefur fólkið í kringum þann sem greinist með krabbamein þörf fyrir að sýna umhyggju og fá fréttir af því hvernig gengur. Það getur tekið á þann sem greinist með krabbamein að endurtaka aftur og aftur sömu upplýsingarnar þó gott sé að finna fyrir samhug og stuðningi. Hér eru nokkrar hugmyndir sem gætu verið gagnlegar fyrir aðstandendur:

 • Stofna samskiptahóp á Facebook, í skilaboðum eða tölvupósti og setja fréttir þar inn. Þá getur verið upplagt að segja frá því hvernig best sé að hafa hlutina á þeim tímapunkti, t.d. þörf fyrir næði, þörf fyrir að hitta eða heyra í fólki eða hvaða aðstoð myndi gagnast best.

 • Tengiliðir. Aðstæður, áhugamál og persónugerð geta gert það að verkum að við þekkjum mismikið af fólki. Sumir tengjast inn í marga hópa og þá getur sérstaklega verið gott að hafa tengilið inn í hvern hóp sem miðlar upplýsingum áfram til dæmis til vinnustaðarins, sauma­klúbbsins, hlaupahópsins eða kórsins.

 • Hlustaðu. Stundum vill sá sem er í krabbameinsmeðferð einfaldlega slökkva á símanum eða taka sér frí frá samfélagsmiðlum. Því er gott að hlusta og virða allar óskir og láta tengiliði og aðra í tengslanetinu vita þegar svo ber undir.

Það hafa ekki allir möguleika á að aðstoða eða sýna ekki vilja til þess. Þetta gæti sært tilfinningar ykkar eða reitt ykkur til reiði. Þetta gæti verið sérstaklega erfitt ef fólk sem þið höfðuð vænst þess að fá stuðning frá, veitir hann ekki.

 Í slíkum aðstæðum er gott að hafa í huga að sjaldnast er ástæðan persónuleg heldur gæti verið að viðkomandi sé að glíma við, til að mynda, mikið álag í persónulegu lífi, vantreysti sér og óttist að segja ekki réttu hlutina. Það gæti líka verið að gömul áföll eða reynsla valdi því að viðkomandi forðist það sem vekur upp erfiðar tilfinningar. Ef um er að ræða samband við manneskju sem skiptir þann sem er með krabbamein máli er líklegast best að segja viðkomandi hvernig honum/henni líður og hvernig upplifunin er í ykkar samskiptum.

Samskipti við þann sem greinst hefur með krabbamein

Þú gætir fundið til vanmáttar og óöryggis í samskiptum við þann sem greinst hefur með krabbamein, til dæmis vegna þess að þú óttast að segja eitthvað rangt eða að segja ekki það rétta. Það er gott að hafa í huga að það er ekki til nein ein rétt leið til að segja eða gera hlutina við þessar aðstæður. Það að hlusta með óskiptri athygli er oft það sem reynist hjálplegra en nokkur orð. Eitt það mikilvægasta af öllu er að manneskjan finni að þér er annt um hana og þú ert tilbúinn til að vera til staðar og styðja við hana eins og þú best getur og treystir þér til. Það getur verið gott að segja þessa hluti upphátt við einstaklinginn. Flestir þeirra sem greinast með krabbamein vilja finna að þeir þurfi ekki að fara í gegnum þetta ferli einir og þarfnast stuðnings frá fjölskyldu og vinum.  Ekki veigra þér við að ræða ótta þinn og áhyggjur við manneskjuna. Það að ræða þessar tilfinningar hreinskilnislega getur hjálpað öllum að komast í gegnum erfiða tíma saman. Hafa ber í huga að ekki eru allir þeir sem greinast með krabbamein tilbúnir til að ræða tilfinningar sínar. Sumir hafa þörf fyrir að fá útrás eftir öðrum leiðum.

Hollráð:

  • Vertu þú sjálfur.
  • Ræddu líka þína líðan og áhyggjur við þann sem hefur greinst.
  • Sýndu að þú viljir vera til staðar.
  • Hlustaðu.
  • Vertu raunsæ/r varðandi þá aðstoð sem þú býður fram.  Það getur verið mikilvægt að orð þín standist þegar á reynir.

Að verða skotmark erfiðra tilfinninga

Venjulega tekur það þann sem greinist með krabbamein tíma að átta sig á tilfinningum áður en hann getur tjáð þær eða deilt þeim á þann hátt sem hann myndi kjósa. Á þessum tíma verða fjölskylda og vinir stundum skotmark fyrir sterkar og yfirþyrmandi tilfinningar sem viðkomandi þarf að fá útrás fyrir. Ef þú upplifir að reiði eða pirringi sé beint að þér mundu þá að þú ert ekki orsakavaldur þessara tilfinninga heldur ertu sá aðili sem viðkomandi treystir til að taka við þeim.