Beint í efni

Vanda­mál í melt­ing­ar­vegi

Hægðartregða og niðurgangur eru algeng vandamál í meltingarvegi í tengslum við krabbamein og krabbameinsmeðferð. Streita, kvíði og þunglyndi eru meðal annars þeir áhrifavaldar sem kollvarpa getað kerfinu.

Hægðatregða

Ónóg neysla á trefjum og vökva ásamt lítilli hreyfingu getur haft neikvæð áhrif á meltingarstarfsemina. Slíkt getur valdið því að erfitt er fyrir líkamann að losa sig við hægðir eða þær koma með margra daga millibili.

Ákveðnar gerðir verkjalyfja (ópíóíðar) geta einnig valdið hægðatregðu. Þau sem taka slík lyf þurfa í mörgum tilfellum að taka einhvers konar hægðalyf samhliða.

Ef þú upplifir mikla og viðvarandi hægðatregðu er mikilvægt að ræða við heilbrigðisstarfsfólk um einkennin og reyna að finna út hvað veldur. Það getur einnig reynst vel að ræða við næringarfræðing og fá ráð um mataræði. Í sumum tilfellum er ráðlagt að nota hægðalyf tímabundið. 

Almenn ráð við hægðatregðu:

  • Drekktu nóg af vatni, minnst átta glös daglega. Aðrir góðir drykkir eru til að mynda sveskjusafi, koffínlaust te og volgt vatn með sítrónu.
  • Neyttu trefjaríkrar fæðu á borð við grænmeti, ferska og þurrkaða ávexti (t.d. sveskjur), heilkornavörur, baunir, maís og ertur. Til að trefjarnar geri sitt gagn skiptir máli að drekka mikinn vökva.
  • Borðaðu trefjaríkan morgunverð (t.d. hafragrautur með ferskum eða þurrkuðum ávöxtum) og heitur drykkur með, eins og  koffínlaust te eða volgt vatn með sítrónu
  • Hreyfðu þig eins mikið og þú getur, farðu í léttan göngutúr eða gerðu léttar æfingar
  • Ef fagfólk ráðleggur trefjar sem fæðubótarefni eða lyf við hægðatregðu, skiptir máli að drekka mikinn vökva með

Niðurgangur

Lausar eða vatnsríkar hægðir að minnsta kosti þrisvar sinnum á sólarhring er skilgreining á niðurgangi. Mikilvægt er að láta heilbrigðisstarfsfólk vita ef niðurgangur er mikill því þá er hætta á vökvaskorti, næringarskorti og öðrum vandamálum. Það getur metið hvort þörf sé á lyfjum til meðhöndlunar. 

Almenn ráð við niðurgangi:

  • Drekktu nóg af vatni, minnst átta glös daglega. Aðrir góðir drykkir eru til að mynda útþynntur safi, koffínlaust kaffi og te.
  • Hafðu vökvann við stofuhita, það gæti verið þægilegra en ískaldur drykkur
  • Borðaðu litla skammta af mat oft yfir daginn í stað nokkurra stórra máltíða
  • Tyggðu matinn vel

Matur sem vert væri að prófa:

Hrísgrjón, núðlur, harðsoðin egg, bananar, grænmeti (soðið, bakað í ofni og/eða maukað), eplamús, kartöflustappa, hrökkbrauð, kex, ristað brauð, kjúklingur eða kalkúnn án skinns, roðlaus fiskur, sýrðar mjólkurvörur, jógúrt, kefír, saltríkur matur.

Matur sem mögulega væri gott að sleppa:

Brauð með miklum kornum, hrátt grænmeti og ávextir í miklu magni, mjög trefjaríkt grænmeti eins og spergilkál (brokkolí), blómkál, kál, maís, baunir, ertur, laukur í miklu magni, sterk krydd, feitur, reyktur og steiktur matur, smjör, rjómi, rjómaostur, olía og majónes, áfengir drykkir og drykkir sem innihalda koffín, gervisæta.

Heimildir

Forstoppelse - Kreftforeningen

Causes of constipation | Coping physically | Cancer Research UK

Forstoppelse - Kræftens Bekæmpelse (cancer.dk)

Niðurgangur hjá fullorðnum | Heilsuvera

Hægðatregða hjá fullorðnum | Heilsuvera