Beint í efni

Út­taugask­aði

Það er helst meðan á lyfjameðferð stendur sem úttaugaskaði kemur fram. Í sumum tilfellum verður einkenna þó ekki vart fyrr en eftir að meðferð lýkur, en hættan á taugaskaða er í takt við umfang og lengd lyfjameðferðarinnar.

Það eru helst taugar í fótum og höndum sem verða fyrir slíkum skaða. Einnig getur orðið vart við breytta skynjun í kringum munn og háls, sérstaklega í köldu veðri. Einhverjir upplifa að þau fari versnandi mánuðina eftir að lyfjameðferð lýkur, en hjá öðrum haldast þau stöðug eða minnka aðeins, án þess að hverfa alveg.  Oftast ganga einkennin til baka að meðferð lokinni og flestir eru lausir þau við innan árs. Í sumum tilfellum verða einkennin  langvarandi. 

Einkenni úttaugaskaða

Áhrif og einkenni úttaugaskaða eru einstaklingsbundin. Þau geta verið allt frá örlítilli breyttri skynjun í fingrum og yfir í skerta hreyfigetu. Meðal einkenna sem geta gert vart við sig þegar meðferð er skammt á veg komin eru skyntruflanir í fingrum eða tám, t.d. stingir og brunatilfinning, náladofi, tilfinningaleysi, verkir og óþægindi. Þá getur létt snerting valdið óþægindum eða sársauka.

Einkenni sem kemur yfirleitt ekki fram fyrr en meðferð hefur staðið í töluverðan tíma er minnkandi hæfni fínhreyfinga. Má þar nefna að hneppa tölum, fletta blaðsíðum, taka upp litla hluti, skrifa og vinna á lyklaborð. Þá hefur tilfinningin við að finnast eins og gengið sé á púðum verið nefnd ásamt jafnvægisleysi, vöðvaslappleika, óöryggi við gang, erfiðleikum við að ganga í stiga og stíga yfir þröskulda.

Hvað er til ráða?

Hvenær sem einkenna verður vart sem gæti bent til úttaugaskaða er mikilvægt að láta lækni eða hjúkrunarfræðing vita. Ef einkennin eru mjög slæm þarf í sumum tilfellum að minnka lyfjaskammta eða hætta meðferð með ákveðnum lyfjum.

Eftirfarandi ráð geta dregið úr einkennum:

 • Meðferð hjá sjúkraþjálfara, t.d. styrktarþjálfun, teygjur, jafnvægisæfingar ásamt meðferðum sem örva  blóðrásarkerfið o.fl.
 • Nota hanska við ýmis störf, t.d. við uppvask, garðvinnu o.fl.
 • Bera reglulega rakakrem á fætur og hendur.
 • Örva líkamshluta með skerta tilfinningu t.d. með fótarúllu, gaddabolta (spiky ball) eða öðru
 • Forðast að verða kalt á höndum og fótum þar sem óþægindin geta versnað í kulda. 
 • Regluleg hreyfing 
 • Forðast reykingar og mikla áfengisneyslu því ákveðnir þættir geta valdið auknum taugaskaða
 • Klæðast stuðningssokkum og -hönskum, þeir geta haft góð áhrif ef staðbundin bólga er þar til staðar 
 • Fótabað og fótanudd 
 • Forðast skó sem þrengja að
 • Bera menthol krem 1% á svæði sem hafa orðið fyrir úttaugaskaða, en það hefur reynst sumum góð staðbundin verkjastilling

Heimildir

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader/nerveskade-polynevropati/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/gode-raad-nerveskader/

https://www.cancer.org/treatment/treatments-and-side-effects/physical-side-effects/peripheral-neuropathy.html