Svefntruflanir
Að eiga erfitt með svefn, sofna en vakna fljótt aftur, sofa létt, ná hvorki djúpum svefni eða hvíld eru svefntruflanir sem geta komið upp í tengslum við krabbamein og meðferð þess.
Andlegt álag, verkir, streita og fleiri þættir sem fylgja krabbameinum og meðferð þeirra geta haft neikvæð áhrif á svefninn. Þeir sem eiga fyrri sögu um svefnleysi eru líklegri til að upplifa slíkt. Svefn hefur áhrif á lífsgæði og því líklegt að þreyta og syfja hafi áhrif á hvaða verkefnum er hægt að sinna og gæðastundir með ástvinum.
Ráð við svefnleysi
Ef svefntruflanir hrjá þig er gott að halda svefndagbók til þess að fá yfirsýn yfir svefninn og skrá svefn og vökutíma allan sólarhringinn í eina viku. Ræða síðan við lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk um niðurstöðuna.
Það er margt sem þú getur gert til að hafa jákvæð áhrif á svefninn:
- Stundað líkamlega áreynslu/hreyfingu.
- Varið tíma utandyra og andað að þér fersku lofti.
- Haft reglu á svefntímanum, farið að sofa á svipuðum tíma daglega.
- Hugleitt og gert öndunaræfingar bæði fyrir svefn og ef þú vaknar upp um nótt.
- Tileinkað þér rólegheit áður en þú ferð að sofa, lesið eða hlustað á tónlist.
- Haft svefnherbergið hæfilega dimmt og hæfilega svalt.
- Notað rúmið eingöngu fyrir svefn og kynlíf, ekki vinnu eða afþreyingu.
Það sem hefur neikvæð áhrif á svefninn er:
- Orkuríkur matur skömmu áður en þú ferð að sofa.
- Koffín drykkir eða nikótín skömmu áður en þú ferð að sofa.
- Áfengi skömmu áður en þú ferð að sofa. Margir finna fyrir slökunaráhrifum við neyslu áfengis en áfengi hefur neikvæð áhrif á lengd og gæði svefns.
- Að leggja sig yfir daginn en ef þú hefur þá þörf er best að hafa blundinn ekki lengri en 20 mínútur og helst fyrir klukkan 17.
- Skjáir eins og sjónvarp, tölvur, snjallsímar og spjaldtölvur. Bláa ljósið á skjánum truflar framleiðslu á svefnhormóninu melatónín og getur þannig valdið svefntruflunum.