Beint í efni

Ótti við end­ur­komu krabba­meins

Áhyggjur og ótti við endurkomu krabbameins á sér eðlilegar skýringar. Hræðsla við endurkomu er eðlilegt viðbragð og í sumum tilfellum getur hún jafnvel verið gagnleg þar sem hún hvetur fólk til þess að mæta í eftirlit og fylgja leiðbeiningum um heilbrigðan lífsstíl. Með tímanum dvínar óttinn við endurkomu krabbameins hjá flestum.

Eitt af hlutverkum mannsheilans er að vera á verði fyrir mögulegum hættum og tryggja öryggi fólks. Krabbamein getur verið mikil ógn og jafnvel þó krabbameinsmeðferð sé lokið heldur heilinn áfram að vera á verði og reyna þannig að koma í veg fyrir að slík hætta komi upp aftur.

Eftir að krabbameinsmeðferð lýkur eiga sumir erfitt með að treysta líkama sínum aftur. Sumum finnst líkaminn hafa svikið sig, til dæmis þeir sem hafa veikst af krabbameini þrátt fyrir heilbrigðan lífsstíl eða þeir sem hafa verið með krabbamein án einkenna sem olli því að sjúkdómurinn uppgötvaðist seint.

Í aðstæðum sem rifja upp fyrri reynslu getur óttinn við endurgreiningu skotist fram, eins og:

  • við eftirlit og eftirfylgniviðtöl
  • ákveðnar dagsetningar, t.d daginn sem krabbameinið greindist eða aðgerðardag
  • þegar þú finnur til einkenna sem eru svipuð þeim sem komu fram fyrir greiningu
  • þegar þú eyrir af krabbameinsgreiningu annarra eða fráfalli einhvers sem var með krabbamein
  • þegar þú keyrir fram hjá eða kemur á spítalann þar sem meðferðin fór fram

Vítahringur ótta

Óttinn við endurkomu er eðlilegt viðbragð við mögulegri hættu, en hann getur orðið að yfirþyrmandi og óyfirstíganlegum vítahring.

Oft er einhver „kveikja“ (e. trigger) sem veldur, t.d. líkamlegir verkir eða að heyra af fólki sem greinist með krabbamein. Þetta getur valdið áhyggjum og þar sem heilinn greinir þetta sem hættuástand fer að bera á óróleika og kvíðaeinkennum. Í kjölfarið er eðlilegt að reyna að ná stjórn á aðstæðum, t.d. með því að skoða líkamann oft, hafa samband við heilbrigðisstarfsfólk, fara í skoðanir og útiloka að eitthvað sé að. Margir finna aftur ró og öryggi eftir slíkt, en það getur enst stutt þar sem margar aðstæður geta „kveikt“ óttaviðbragð á ný.

Þegar fólk upplifir sig fast í vítahring erfiðra hugsana og áhyggna er mikilvægt að leita sér hjálpar.

Vítahringur ótta við endurkomu

Ráð til að takast á við ótta um endurkomu

  • Ræddu við heilbrigðisstarfsfólk um einkenni sem þú átt að vera vakandi fyrir og gætu bent til þess að krabbameinið sé komið aftur.
  • Vertu með á hreinu hvað þú getur gert til að efla heilsuna og hvert þú átt að leita ef á þarf að halda.
  • Viðurkenndu óttann og talaðu við einhvern um þessar tilfinningar. Oft er auðveldara að sleppa taki af áhyggjum þegar þú hefur náð að setja þær í orð.
  • Ræddu við fjölskyldumeðlimi, vini, annað fólk sem hefur fengið krabbamein eða heilbrigðisstarfsfólk. Ráðgjöf og stuðningur Krabbameinsfélagsins stendur alltaf til boða, þér að kostnaðarlausu.
  • Einbeittu þér að því sem þú getur gert til auka vellíðan þína. 
  • Styrktu heilsuna með því að borða heilsusamlegan mat, hreyfa þig reglulega og taka virkan þátt í lífinu, ásamt því að reyna að sofa sem best.
  • Skoðaðu hvort hugleiðsla, öndunar- og núvitundaræfingar gagnist þér.

Heimildir

Er du redd for at kreften skal komme tilbake? (kreftforeningen.no)

Er du redd for tilbakefall? - Kreftforeningen

https://www.cancer.dk/hverdag/senfoelger/angst-depression/#Angst_for_tilbagefald

https://cancer.ca/en/living-with-cancer/life-after-treatment/worrying-that-cancer-will-come-back