Sogæðabjúgur
Skurðaðgerðir, geislameðferðir og sumar tegundir krabbameinslyfja geta skaðað sogæðakerfið og þannig leitt til sogæðabjúgs. Í þeim tilfellum sem sogæðabjúgur myndast er misjafnt hvenær hann gerir vart við sig. Stundum er það strax eftir krabbameinsmeðferð, en hann getur líka komið fram löngu eftir að meðferð lýkur.
Við sogæðabjúg raskast sogæðakerfið en hlutverk þess er aðallega þríþætt. Í fyrsta lagi safna sogæðar umfram millifrumuvökva í vefjum líkamans og skila honum aftur út í blóðrásina. Í öðru lagi taka sogæðar í þörmum við fituefnum og koma þeim í blóðrásina. Í þriðja lagi tekur sogæðakerfið þátt í flutningi ónæmisfruma og mótefna.
Hvað er sogæðabjúgur?
Sogæðabjúgur er vökvasöfnun sem verður vegna skertrar starfsgetu sogæðakerfisins í ákveðnum líkamshluta og er langvinnt ástand. Algengast er að sogæðabjúgur komi fram í handleggjum eða fótleggjum, en hann getur einnig komið fram á öðrum stöðum svo sem brjósti, andliti, hálsi, ytri kynfærum, baki eða kvið. Sogæðabjúgur er ekki hættulegur, en getur valdið miklum óþægindum.
Sogæðabjúgur er algengastur hjá konum sem fá meðferð við brjóstakrabbameini eða krabbameini í kvenlíffærum. Hann getur þó einnig myndast í kjölfar meðferðar krabbameins á höfuð- og hálssvæði auk þess sem karlar geta fengið sogæðabjúg út frá meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli, typpi eða eistum. Engin þekkt lækning er til við sogæðabjúg en ýmsar áhrifamiklar leiðir við að halda einkennum niðri og minnka óþægindi eru til.
Ráð við sogæðabjúg
Mikilvægt er að vera vakandi fyrir einkennum og leita sér fljótt aðstoðar ef sogæðabjúgur gerir vart við sig.
Ráð við að halda einkennum sogæðabjúgs niðri felast fyrst og fremst í:
- Æfingum sem auka blóðflæði
- Þrýstimeðferð, t.d. með sérstakri þrýstiermi eða þrýstisokk
- Sogæðanuddi sem örvar sogæðakerfið og getur stýrt flæði sogæðavökvans fram hjá „lokuðu“ svæði, t.d. þar sem eitlar hafa verið fjarlægðir
- Húðumhirðu og hreinlæti, þar sem sogæðabjúgurinn veldur því að húðin verður þurr og teygjanleiki minnkar sem leiðir til þess að hún rifnar/springur auðveldlega og verður útsettari fyrir sýkingum.
Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að hreyfing, hollt mataræði og hæfileg líkamsþyngd hafa jákvæð áhrif á blóðflæði líkamans, sem getur aukið virkni sogæðakerfisins.
Heimildir
https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/lymfoedem/
https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/lymfodem/
https://www.cancerresearchuk.org/about-cancer/coping/physically/lymphoedema-and-cancer/about