Beint í efni

Kvíði og þung­lyndi

Flestir upplifa kvíða á einhverjum tímapunkti í tengslum við krabbameinsgreiningu,  krabbameinsmeðferð eða eftirfylgni. Til að mynda á meðan beðið er eftir svari úr sýnatöku, árangri krefjandi krabbameinsmeðferðar eða í tengslum við óttann um endurkomu krabbameins.

Hjá flestum dvína kvíða- og þunglyndiseinkennin með tímanum. En sé raunin önnur er mikilvægt að leita aðstoðar hjá fagfólki, sérstaklega ef kvíði og þunglyndi verður viðvarandi og hefur hamlandi áhrif á þitt daglega líf. 

Kvíði

Í sjálfu sér er kvíði einn og sér ekki hættulegur, en honum geta fylgt ýmis óþægileg einkenni, eins og hraður hjartsláttur, andþyngsli, ógleði, magaverkur, svimi, skjálfti og munnþurrkur.

Kvíði er hluti af viðvörunarkerfi líkamans sem hefur það hlutverk að skynja hættur og búa líkamann undir að velja viðbragð við þeim. Hann getur í sumum tilfellum verið hjálplegur, skerpt athygli fólks og jafnvel verið hvatning til að klára erfið verkefni. Þegar kvíði er ekki í samræmi við raunverulegt hættustig og fer að valda vanlíðan og truflun á daglegu lífi getur verið um kvíðaröskun að ræða.

Bjargráð við kvíða

Til eru ýmsar leiðir til að ná betri stjórn á kvíða, hugsunum og líðan. Þar má nefna  jóga, núvitund, slökun, öndunaræfingar og að tala við fjölskyldu og vini. Regluleg hreyfing og hollt mataræði getur einnig skilað sér í betri líðan. Ef kvíðinn minnkar ekki með tímanum og tekur of mikið pláss í daglegu lífi er mikilvægt að leita aðstoðar hjá fagfólki.

Þunglyndi

Það er eðlilegt að upplifa depurð í tengslum við krabbameinsgreiningu, á meðan á meðferð stendur eða rétt eftir að henni lýkur. Einkenni á borð við áhugaleysi, orkuleysi, vonleysi, sjálfsgagnrýni og sorg yfir framtíðarplönum sem hafa breyst í kjölfar veikinda geta gert vart við sig. Þetta eru allt eðlileg viðbrögð við krefjandi aðstæðum og breytingum á lífinu í tengslum við krabbamein. Þrátt fyrir að margir upplifi einkenni sem samsvara þunglyndiseinkennum, eru fáir sem þróa með sér þunglyndi sem þarfnast meðferðar. Hjá flestum dvína einkennin með tímanum.

Bjargráð við þunglyndi

Það er ýmislegt sem fólk getur gert til að ýta undir vellíðan, t.d. stunda reglulega hreyfingu, hollt mataræði, ræða við ástvini eða jafnvel skrifa um líðan sína. Ef einkennin vara í langan tíma eða versna með tímanum, getur verið um þunglyndi að ræða. Þá er mjög mikilvægt að leita sér aðstoðar því fólk sem upplifir þunglyndi getur ekki bara „harkað af sér“. Mörgum reynist vel að fara í gegnum samtalsmeðferð hjá sálfræðingi og í sumum tilfellum er einnig ákjósanlegt að meðhöndla þunglyndið með lyfjum.

Sjá einnig Ótti við endurkomu krabbameins