Beint í efni

Frjó­semi

Sumar krabbameinsmeðferðir geta dregið úr frjósemi. Í einhverjum tilfellum eru áhrifin tímabundin, en í öðrum valda meðferðir ófrjósemi til frambúðar.

Skert frjósemi getur orsakast af:

 • Krabbameinsæxli sem skaðar innri eða ytri kynfæri
 • Skurðaðgerð þar sem hluti af kynfærum eins og eggjastokkum, legi, leghálsi, eistum eða typpi, eru fjarlægð
 • Ákveðnum krabbameinsmeðferðum sem geta valdið skaða á eggjastokkum eða eistum með þeim afleiðingum að framleiðsla kynhormóna truflast og hefur þannig skaðleg áhrif á frjósemi
 • Sálfræðilegum eða tilfinningalegum viðbrögðum vegna krabbameins, t.d. streitu og kvíða

Þessi atriði geta hvert fyrir sig eða saman, haft neikvæð áhrif á frjósemi og getuna til að eignast barn.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi kvenna:

 • Ef báðir eggjastokkar eða leg eru fjarlægð verða konur ófrjóar.
 • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi hjá konum. Áhrifin á frjósemina eru þó mismunandi og fara meðal annars eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.
 • Geislameðferð nálægt æxlunarfærum kvenna getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.
 • Andhormónameðferð hjá konum byggist á því að minnka eða hindra virkni estrógens, en það hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist aftur eftir að meðferðinni lýkur.

Ef konur vilja eiga möguleika á því að eignast börn eftir krabbameinsmeðferð er mjög mikilvægt að ræða fyrirfram við lækni eða hjúkrunarfræðing, hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemina. Í sumum tilfellum eru egg fryst áður en meðferð hefst.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi karla:

 • Ef bæði eistu eru fjarlægð verða menn ófrjóir.
 • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi. Áhrif á frjósemina eru þó mismunandi og fara meðal annars eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.
 • Ef eitlar nálægt kynfærum, blöðruhálskirtli eða sáðblöðrum eru fjarlægðir í skurðaðgerð getur það valdið skertri frjósemi.
 • Geislameðferð nálægt kynfærum getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.
 • Andhormónameðferð byggist á því að minnka eða hindra virkni testósteróns og hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist eftir að meðferð lýkur.

Ef karlar vilja eiga möguleika á því að eignast börn eftir krabbameinsmeðferð er mjög mikilvægt að ræða fyrirfram við lækni eða hjúkrunarfræðing, hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemina. Í sumum tilfellum er sæði fryst áður en meðferð hefst.

Framleiðsla á testósteróni getur minnkað eða stöðvast alveg í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Þeir sem upplifa einkenni á borð við þreytu og orkuleysi, hitakóf, minni afköst, skerta kynlöngun og/eða kyngetu þurfa í sumum tilfellum á testósterón meðferð að halda.

Heimildir

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader/fertilitet/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-kvinder/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-maend/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/behandling-og-evnen-til-at-faa-boern/behandling-fertilitet-kvinder/