Aðstandendur
Fjölskylda og vinir ganga oft í gegnum erfiða og flókna tíma í kjölfar krabbameinsgreiningar hjá ástvini sínum. Það er misjafnt hvernig við bregðumst við og tökumst á við erfiða atburði á borð við alvarleg veikindi ástvinar og algengt að hugsanir og tilfinningar af ýmsum toga geri vart við sig.
Það getur verið misjafnt hvenær og hvort þörf fyrir stuðning skapast í veikindaferlinu. Þörfin fyrir stuðning og úrvinnslu kemur oft ekki fram fyrr en meðferð er lokið, eða jafnvel þegar nokkuð langt er liðið frá veikindunum eða ef þau taka sig upp aftur.
Að læra að þiggja aðstoð eða stuðning getur verið mikill lærdómur og stórt skref. Mundu að með því að hlúa að þér eykur þú líkur á að halda eigin heilsu, sem er einnig mikilvægt fyrir ástvin þinn. Með því að þiggja aðstoð gætir þú einnig létt á mögulegri sektarkennd sem ástvinur getur fundið fyrir vegna aukins álags sem þú ert undir, tengt veikindunum.
Eftirfarandi staðir bjóða upp á stuðning við aðstandendur:
Ráðgjöf og stuðningur þér að kostnaðarlausu
Þjónusta félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga Krabbameinsfélagsins er í boði í greiningarferli, meðferð eða að lokinni meðferð, á íslensku, ensku og pólsku. Þjónustan er líka fyrir aðstandendur.