Skjaldkirtils­krabbamein

Flestir hnútar sem finnast í skjaldkirtli eru góðkynja, það er að segja ekki krabbamein. Slíkir hnútar ásamt krabbameini í skjaldkirtli eru algengari hjá konum en körlum, er ástæðan fyrir því ekki þekkt. 

Hvað er skjaldkirtilskrabbamein?

Skjaldkirtillinn er framan á hálsinum, fyrir framan og neðan barkakýlið. Í skjaldkirtlinum myndast mikilvæg hormón, thyroxin og tri-iodo-thyronin, sem örva efnaskipti líkamans.

Góðkynja truflanir á starfsemi skjaldkirtilsins eru algengar, sérstaklega meðal kvenna. Við vanstarfsemi skjaldkirtils hægist á efnaskiptum með einkennum eins og kulvísi, þreytu og harðlífi. Ef skjaldkirtillinn framleiðir hins vegar of mikið af hormónum aukast efnaskiptin með einkennum eins og hitatilfinningu, örum hjartslætti, eirðarleysi, niðurgangi og þyngdartapi. Bæði við of litla og of mikla virkni getur skjaldkirtillinn stækkað, en slíkt kallast keppur (goiter eða struma).

Skjaldkirtillinn framleiðir einnig hormón sem kallast kalsitónin og verður til í C-frumum kirtilsins (parafollicular frumum). Þetta hormón tekur þátt í kalkefnaskiptum líkamans.

Skjaldkirtilskrabbameinum er skipt í fjórar megintegundir. Algengasta gerðin eða um 75-80% allra krabbameina í skjaldkirtli, er totumyndandi krabbamein (papillary carcinoma), sem getur komið fyrir í hvaða aldurshópi sem er. Í öðru sæti er skjaldbúskrabbamein (folliculer carcinoma), um 15% meinanna. Þau greinast einkum hjá þeim sem komnir eru yfir fimmtugt. Alvarlegasta gerðin er villivaxtarkrabbamein (anaplastic carcinoma), um 5% skjaldkirtilskrabbameina og kemur svo til eingöngu fram hjá einstaklingum eldri en 55 ára. Mergfrumukrabbamein (medullary carcinoma) er fjórða megingerð skjaldkirtilskrabbameina en þau eru upprunnin í C-frumum skjaldkirtilsins. Þessi æxli eru sjaldgæf hér á landi eða aðeins um 2% skjaldkirtilskrabbameina. Þau eru stundum tengd erfðasjúkdómnum MEN (multiple endocrine neoplasia), sem felur í sér að æxli myndast í mörgum líffærum sem framleiða hormón.

Einkenni

Þreifanlegur hnútur á hálsi. Flest skjaldkirtilskrabbamein greinast sem einkennalausir hnútar í kirtlinum. Meira en 80% af slíkum hnútum í skjaldkirtli eru þó góðkynja. 

Stundum vex æxlið þannig að það veldur einkennum eins og:

  • Hæsi
  • Hósta
  • Kyngingarerfiðleikum
  • Öndunarerfiðleikum
  • Þrýstingstilfinning í hálsi.
Stækkaðir eitlar á hálsi. Stöku sinnum greinist æxli í skjaldkirtli fyrst sem meinvarp í eitli á hálsi.

Áhættuþættir

Áhættuþættir skjaldkirtilskrabbameins eru ekki vel þekktir og ekki er vitað af hverju konur fá oftar bæði krabbamein og góðkynja sjúkdóma í skjaldkirtilinn en karlmenn. Vitað er að jónandi geislun og erfðir geta hafa áhrif á tíðni sjúkdómsins:

  • Jónandi geislun · getur valdið skjaldkirtilskrabbameini. Geislameðferð á háls á unga aldri er þekktur áhættuþáttur, en slíkri geislun var nokkuð beitt á árum áður við eitlastækkunum á hálsi, hálsbólgu, stækkun hóstarkirtils og húðvandamálum. Auk þess var tíðni sjúkdómsins hærri hjá þeim sem urðu fyrir geislun af völdum kjarnorkuslyssins í Chernobyl árið 1986 og atómsprenginganna í Hiroshima og Nagasaki í seinni heimstyrjöldinni árið 1945.
  • Bólgusjúkdómur í skjaldkirtli. Nokkuð aukin hætta á myndun totumyndandi skjaldkirtilkrabbameins virðist vera til staðar hjá þeim sem hafa ákveðna gerð af bólgusjúkdómi í skjaldkirtli (Hashimoto's-thyroiditis).
  • Erfðir. Aðeins um 3% skjaldkirtilskrabbameina almennt eru talin arfgeng, en sterkur erfðaþáttur er til staðar í hluta mergfrumuæxli. 

Greining

Ef grunur er um æxli í skjaldkirtli byggist greining sjúkdómsins einkum á þremur liðum. 

TÖLFRÆÐI UM KRABBAMEIN Í SKJALDKIRTLI

  • Læknisskoðun. Læknirinn þreifar á skjaldkirtlinum og eitlum á hálsi. Þéttur og fastskorðaður hnútur vekur grun um krabbamein en jöfn stækkun skjaldkirtilsins er oftast góðkynja.
  • Ómskoðun. Venjulega er kirtillinn ómskoðaður og hnútur eða fyrirferð rannsökuð og útbreiðsla vaxtarins metin.
  • Vefjasýni. Einnig er gerð fínnálarástunga á hnútum, en þá er stungið nál í hnútinn og frumur sogaðar út og skoðaðar í smásjá, svonefnd frumurannsókn. Stundum er nauðsynlegt að fjarlægja hnútinn til endanlegrar greiningar í vefjarannsókn.

Meðferð

Skjaldkirtilskrabbamein er fyrst og fremst meðhöndlað með skurðaðgerð.

  • Skurðaðgerð. · Skurðaðgerð er aðalmeðferðin, annað hvort er helmingur kirtilsins fjarlægður eða hann allur. Það fer eftir stærð, aldri og öðrum þáttum hvort er valið. Stundum þarf að fjarlægja nærliggjandi hálseitla. Ef allur kirtillinn er fjarlægður þarf að meðhöndla með skjaldkirtilshormónum í uppbótarskyni ævilangt. Ef einungis helmingur kirtilsins er fjarlægður þarf um 1 af hverjum 5 á uppbótarmeðferð að halda. 
  • Geislameðferð. · Stundum er geislavirkt joð gefið eftir skurðaðgerð í þeim tilgangi að eyða öllum kirtilfrumum og krabbameinsfrumum sem hugsanlega hefur ekki tekist að fjarlægja með aðgerð. Þetta er tiltölulega örugg meðferð með fáum fylgikvillum. Hjá ákveðnum hópi sjúklinga er beitt ytri geislameðferð.
  • Krabbameinslyfjameðferð. Villivaxtargerð skjaldkirtilskrabbameins er stundum meðhöndluð með geislameðferð og krabbameinslyfjum ef ekki er hægt að beita skurðaðgerð.

Flestir eru lausir við meinið eftir meðferð. Venjulega er eftirliti háttað þannig að læknirinn þreifar hálsinn, tekur blóðpróf og/eða sendir sjúkling í ómskoðun af hálsinum.

Tölfræði og lífshorfur

Horfur sjúklinga sem greinast með skjaldkirtilskrabbamein eru í heildina mjög góðar, um  88% eru á lífi fimm árum frá greiningu.


Yfirfarið í maí 2020


Var efnið hjálplegt?