Vélinda­krabbamein

Þótt vélindakrabbamein sé með háa dánartíðni þá hafa lífslíkur batnað talsvert undanfarin 50 ár. Sjúkdómurinn er meira en þrefalt tíðari meðal karla en kvenna og er hluti skýringarinnar fólginn í meiri áfengisneyslu hjá körlum. 

Einkenni

  • Kyngingarerfiðleikar eru oftast fyrstu einkenni um krabbamein í vélinda. Fólki getur fundist eins og kökkur sé í hálsinum, en einnig geta verið óljós einkenni við kyngingu.
  • Verkir. Stundum getur æxlið valdið verkjum. 
  • Uppköst og blóðugur uppgangur geta einnig verið einkenni um vélindakrabbamein.  
  • Minnkandi matarlyst, þyngdartap, auk þreytu og slappleika vegna blóðleysis, eru síðkomin einkenni.

Orsakir

Reykingar og óhófleg áfengisneysla eru sterkir áhættuþættir fyrir myndun flöguþekjukrabbameins í vélinda. Rannsóknir seinni ára hafa einnig sýnt að offita er mikilvægur áhættuþáttur. Vélindabakflæði hefur verið talið tengjast kirtilkrabbameini í vélinda. Fjölgun sjúklinga með vélindabakflæði er talin vera ein af meginástæðunum fyrir aukningu á tíðni kirtilkrabbameina í neðri hluta vélindans.

Hvað er vélindakrabbamein?

Vélindað tengir saman kokið og magann. Það er um 25 cm að lengd og víðast um 1,5 cm í þvermál. Í veggjum vélindans eru sterkir vöðvar sem þrýsta matnum niður í magann. Milli vélindans og magans er efra magaopið, sem virkar eins og öflugur ventill. Hann opnast þegar fæðan á að fara ofan í magann en lokast fljótt aftur til að koma í veg fyrir að innihald magans leki aftur til baka upp í vélindað. Ef efra magaopið er ekki nógu virkt lekur súr magasafi upp í vélindað. Kallast það ástand vélindabakflæði og veldur brjóstsviða og/eða nábít.

Krabbamein í vélinda eru fremur sjaldgæf hér á landi. Um helmingur æxla á upptök sín í miðju vélindanu og um þriðjungur í neðri hluta þess. Algengasta vefjagerð vélindakrabbameins hefur verið flöguþekjukrabbamein. Á seinni árum hefur tíðni þessarar gerðar minnkað hlutfallslega, en tíðni krabbameins sem kemur frá kirtilfrumum (kirtilkrabbamein – adenocarcinoma) aukist talsvert. Kirtilkrabbamein er algengast í neðri hluta vélindans, við mót maga og vélinda. Nú orðið eru flöguþekjukrabbamein og kirtilkrabbamein nánast jafn algeng, en ástæður þessara breytinga eru enn ekki þekktar. Kirtilkrabbamein hefur verið tengt bakflæði á súrum magasafa upp í vélindað og í kjölfar þess umbreytingu hinnar eðlilegu flöguþekju á yfirborði vélindaslímhúðar yfir í kirtilþekju (Barrett's vélinda).

Greining

Þegar einkenni vekja grun um að meinsemd geti verið til staðar í vélinda er venjulega ráðlögð speglun á vélindanu og tekin vefjasýni til rannsóknar úr meinsemdum sem sjást. Greining meinsins er gerð með smásjárrannsókn á vefjasýni og segir sú rannsókn til um eðli og tegund æxlisins. Dreifing sjúkdómsins er könnuð með myndgreiningarrannsóknum og ómun af vélinda, þar sem kannað er meðal annars hvort stækkaðir eitlar séu utan við vélindavegginn.

Meðferð

Meðferð fer eftir staðsetningu og útbreiðslu sjúkdómsins. Ef æxlið er bundið við slímhúð í vélindanu, getur verið nægjanlegt að fjarlægja það með speglun (EMR, endoscopic mucosal resection). Skurðaðgerð er oft beitt við þessum sjúkdómi og er þá æxlið ásamt hluta vélindans fjarlægt og maginn tengdur við það sem eftir er af vélindanu. Stundum er gefin krabbameinslyfjameðferð fyrir og eftir aðgerð til að auka líkur á lækningu við meðferðina. Í sumum tilvikum er eingöngu beitt geisla- og krabbameinslyfjameðferð. Ef æxlið er í efsta þriðjungi vélindans gefur slík meðferð jafn góðan árangur og skurðaðgerð. Þessum meðferðum er einnig beitt ef um útbreiddan sjúkdóm er að ræða. Í einkennameðferð vegna kyngingarerfiðleika eru ýmis úrræði eins og stoðnetsísetning, víkkun á vélinda og magasonda um kviðvegg (PEG).

TÖLFRÆÐI UM VÉLINDAKRABBAMEIN

Algengi og lífshorfur

Árlega greinast að meðaltali um 21 einstaklingur með vélindakrabbamein, 16 karlar og 5 konur og er meðalaldur við greiningu um 68 ár hjá körlum og um 72 ár hjá konum. Í lok árs 2018 voru 12 konur og 51 karl á lífi með sjúkdóminn.  

Sjúklingar með vélindakrabbamein hafa í heild ekki góðar horfur. Horfur hafa þó batnað talsvert, einkum vegna þess að nú greinist meinið oftar á fyrri sjúkdómsstigum en áður og einnig vegna bættrar meðferðar. Um11% kvenna og 22% karla eru á lífi fimm árum frá greiningu vélindakrabbameins. 


Var efnið hjálplegt?