Vélinda­krabbamein

Lífslíkur þeirra sem fá vélindakrabbamein hafa batnað talsvert undanfarna áratugi þar sem meinin greinast nú oftar á fyrri sjúkdómsstigum auk þess sem meðferð hefur batnað. Dánartíðnin er þó enn há. 

Hvað er vélindakrabbamein?

Vélindað gengur frá koki að maga og afmarkast af efri og neðri hringvöðva. Hlutverk vélindans, sem er nokkurs konar vöðvarör, er að flytja fæðu frá munni niður í maga. 

Vélindakrabbamein eru að mestu tvenns konar, flöguþekjukrabbamein (squamous cell carcinoma) sem oftast eru staðsett ofanvert í vélinda og kirtilfrumukrabbamein (adenocarcinoma) sem eru í neðsta hluta vélinda. Aðrar tegundir eru til en eru mun sjaldgæfari og ekki verður fjallað um þær hér. 

Flöguþekjukrabbamein er algengara á heimsvísu en tíðni kirtilfrumukrabbameina hefur farið vaxandi, sérstaklega á Vesturlöndum. Vélindakrabbamein er illvígur sjúkdómur og greinast um 20-25 sjúklingar á Íslandi árlega, meirihlutinn karlar. 

Einkenni

Einkenni eru svipuð hvort sem um er að ræða kirtilfrumu- eða flöguþekjukrabbamein. Helstu einkenni:

  • Kyngingarerfiðleikar eða sársauki við kyngingu. Einstaklingar upplifa stundum eins og fæðan festist eða gangi hægt niður. 
  • Uppköst eru sjaldgæf í upphafi sjúkdóms en eftir því sem æxli verður stærra og holrými í vélindanu verður þrengra geta komið uppköst ef fæða kemst ekki í gegnum þrenginguna.

  • Minni matarlyst, þyngdartap, þreyta og slappleiki eru oft merki um lengra genginn sjúkdóm. Slappleiki getur verið vegna blóðleysi sem getur fylgt vélindakrabbameini. 

Áhættuþættir

Tíðni vélindakrabbameins eykst með aldri og er meðalaldur sjúklinga við greiningu um 70 ár. Nokkrir þættir hafa verið tengdir aukinni áhættu á að þróa vélindakrabbamein.

Flöguþekjukrabbamein:

Helstu áhættuþættir eru reykingar og áfengisneysla. Lítil inntaka á grænmeti og ávaxta hefur verið tengd aukinni áhættu sem og veirusýkingar af völdum HPV veiru (Human papilloma virus).

Kirtilfrumukrabbamein:

Helsti áhættuþáttur er langvarandi vélindabakflæði með umbreytingu á þekju neðst í vélinda. Í vélindabakflæði gúlpast magasýra upp í vélindað sem er ekki í stakk búið að taka við svo súru innihaldi. Við langvarandi áreiti af þessu tagi verður umbreyting á þekju neðst í vélinda (Barrett´s vélinda). Þessi áhættuþáttur er talinn helsta orsök fyrir aukningu sjúkdómsins á Vesturlöndum.

Reykingar eru einnig áhættuþáttur í kirtilfrumukrabbameini en hins vegar er sambandið ekki talið vera eins sterkt eins og í flöguþekjukrabbameinum.

Mikil ofþyngd hefur einnig verið talin til áhættuþátta en sennilega tengist það aukinni tíðni á vélindabakflæði í þessum hópi sökum aukins þrýstings í kviðarholi. Að auki er talið að hormónabreytingar í einstaklingum í mikilli ofþyngd valdi viðvarandi bólgu sem er áhættuþáttur.

Nokkrir þættir hafa verið taldir verndandi fyrir myndun kirtilfrumukrabbameina eins og notkun sýruhemjandi lyfja og blóðfitulækkandi lyfja, svo kallaðra statinlyfja. Einnig hafa nýlegar rannsóknir leitt að því líkum að bólgueyðandi lyf hafi svipuð áhrif. 

Greining

  • Vélindaspeglun. Við ofangreind einkenni er mælt með speglun af vélinda og maga. Ef æxli sést í speglun er tekið vefjasýni til greiningar.
  • Myndgreiningarrannsóknir. Sú rannsókn sem er framkvæmd við uppvinnslu á vélindakrabbameini er sneiðmynd af kviðar- og brjóstholi til að meta útbreiðslu sjúkdómsins. Vélindakrabbamein dreifa sér oft fyrst til nærliggjandi eitla og svo með blóðrás til lifur, lungna, beina og heila. Ef ekki sjást ummerki um meinvörp í sneiðmynd og læknandi meðferð er talin möguleg er gerð rannsókn í jáeindaskanna til að meta á nákvæmari hátt útbreiðslu sjúkdóms.
  • Smásjárskoðun er gerð á sýni úr vélindaspeglun og eftir sértækar litanir á vefjasýninu er hægt að greina hvort um sé að ræða góðkynja æxli, flöguþekju- eða kirtilfrumukrabbamein eða önnur sjaldgæfari illkynja mein.

Samráðsfundur

Alltaf þegar sjúklingur greinist með vélindakrabbamein skal halda samráðsfund. Samráðsfund sitja fulltrúar mismunandi sérgreina, sérfræðilæknar Landspítala frá myndgreiningardeild, krabbameinslækningadeild, lyflækningum meltingarfæra, skurðlæknar og meinafræðingar. Farið er yfir niðurstöður allra einstaklinga sem greinast með krabbamein í meltingarfærum og meðferð ákveðin út frá niðurstöðum. Niðurstöður samráðsfundar eru leiðbeinandi og er það sérfræðilæknis sem hefur einstakling til meðferðar að meta og hvort viðkomandi er treyst í ráðlagða meðferð. 

Meðferð

Staðsetning, útbreiðsla og vefjagreining vélindakrabbameins ákvarðar meðferð einstaklingsins. Við staðbundin vélindakrabbamein er gerð áætlun um læknandi meðferð. Við vélindakrabbamein sem bundin eru eingöngu við slímhúð vélindans og vaxa ekki niður í dýpri lög þess er í vissum tilfellum hægt að fjarlægja krabbameinið í vélindaspeglun (EMR, endoscopic mucosal resection).

Við flöguþekjukrabbamein er sú meðferð sem mælt er með krabbameinslyfja- og geislameðferð. Þetta er gefið sem læknandi meðferð og í framhaldi gerðar speglanir m.t.t. þess að fylgjast með hvort endurkoma verði á sjúkdómi. Ef það gerist er í vissum tilfellum gerð skurðaðgerð. Við kirtilfrumukrabbamein sem vex dýpra í vélindavegg en slímhúð er mælt með krabbameinslyfjameðferð og í framhaldi skurðaðgerð. Skurðaðgerðin er umfangsmikil þar sem neðri hluti vélinda er fjarlægður og magi er dreginn upp í brjósthol og tengdur við vélinda. Í aðgerðinni þarf bæði að fara inn í kviðar- og brjósthol.

Ef um er að ræða útbreitt krabbamein er gefin krabbameinslyfjameðferð og eftir atvikum geislameðferð í líknandi tilgangi. Líknandi meðferð er einnig gefin ef endurkoma verður á sjúkdómi eftir skurðaðgerð. Ef um kyngingarerfiðleika er að ræða þrátt fyrir krabbameinslyfjameðferð er möguleiki á að víkka vélindað í speglun eða setja stoðnet. Ef þetta er ekki möguleiki er hægt að setja magaslöngu gegnum kviðvegg (PEG) sem hægt er að nota til næringar. 

Tölfræði og lífshorfur

Vélindakrabbamein er illvígur sjúkdómur og oft er um útbreitt mein að ræða þegar einstaklingur greinist.  Fimm ára hlutfallsleg lifun fyrir sjúklinga með vélindakrabbamein hefur farið batnandi á Íslandi undanfarin ár eins og annars staðar í heiminum en horfur  einstaklinga fara eftir útbreiðslu sjúkdóms.

Yfirfarið í nóvember 2021


Var efnið hjálplegt?