Lifrar­krabbamein

Skorpulifur vegna ofneyslu áfengis er mikilvægasti áhættuþátturinn fyrir lifrarkrabbamein á Vesturlöndum. Svo er einnig hér á landi. Tíðni skorpulifrar og lifrarkrabbameins á Íslandi er þó með því lægsta sem þekkist.

Einkenni

Lifrarkrabbamein gefur venjulega ekki ákveðin einkenni á byrjunarstigum sjúkdóms, enda þarf upp undir 90% lifrarinnar að vera óstarfhæf til að lifrarbilun komi fram.

 • Lifrarbilun getur birst með einkennum eins og bólgnum ökklum, lítilli matarlyst, þyngdartapi, vökva í kviðarholi, ógleði og slappleika
 • Óþægindatilfinning í kviðnum eða kviðverkur.
 • Gula getur komið fram ef æxli vex þannig að það stífli gallrásir. Augnhvítur og húð verða þá gullituð og þvagið verður oft dekkra en venjulega og hægðir ljósari.

Áhættuþættir

Meira er vitað um orsakir lifrarkrabbameins heldur en margra annarra krabbameina. Meginorsakaþættirnir eru þrenns konar:

 • Sýking með lifrarbólguveiru B eða C (annarri hvorri eða báðum).
 • Langvinnir lifrarsjúkdómar svo sem af völdum áfengisnotkunar, lifrarbólgu B og C, járnofhleðslu (hemókrómatósis) o.fl. 
 • Neysla krabbameinsvaldandi efna svo sem myglueiturefnisins aflatoxíns sem framleitt er af sveppnum Aspergillus flavus en aflatoxín getur safnast fyrir í mygluðu korni og hnetum. Flest tilfelli af völdum aflatoxíns eru í Afríku sunnan Sahara eyðurmerkurinnar, Suðaustur-Asíu og Kína þar sem lítið eftirlit er með aflatoxíni í matvælum en sýking af völdum lifrarbólguveiru B er einnig algeng í þessum löndum.

Hér á landi, þar sem lifrarkrabbamein er hlutfallslega sjaldgæft, eru skorpulifur vegna misnotkunar áfengis og járnofhleðslu algengustu áhættuþættir. Enn er lifrarkrabbamein sem tengt er lifrarbólguveirum afar sjaldgæft á Íslandi, en tíðni slíkra sýkinga er hins vegar vaxandi hér á landi. Í löndum þar sem lifrarkrabbamein er mun algengara, t.d. í Kína og í vissum hlutum Afríku, er mikilvægasta ástæðan langvinn sýking af lifrarbólguveiru B. Myglueitrið aflatoxín er líka algengt í þessum löndum. Auk þess sem að framan er talið hefur fleira verið nefnt sem mögulegir áhættuþættir með missterkum tengslum, svo sem reykingar, sykursýki, röntgenskuggaefnið thorotrast og ýmis fleiri efnasambönd.

Hvað er lifrarkrabbamein?

Lifrin er stærsti kirtill líkamans og er um 1,5 kg að þyngd. Hún er hægra megin í kviðarholinu, innan við hægri rifjabogann. Lifrin framleiðir um hálfan lítra af galli á hverjum sólarhring, en gallið skilst út úr lifrinni yfir í gallgangakerfið og fer niður í skeifugörnina þar sem það blandast fæðunni. Gallið tekur þátt í að brjóta niður fitu með því að gera hana vatnsleysanlega (sápuverkun). Lifrin getur líka safnað saman og geymt orku og næringarefni, t.d. sykurefni (glýkógen) ásamt vítamínum og járni. Lifrin hefur mikilvægt efnaskipta- og afeitrunarhlutverk. Á hverri mínútu fer meira en einn og hálfur lítri af blóði í gegnum lifrina, sem getur breytt eiturefnum (t.d. áfengi) og lyfjum í hættulausari efni, sem eru síðan losuð úr líkamanum með hægðum eða þvagi.

Lifrarkrabbamein á í flestum tilfellum upptök sín í lifrarfrumum, svonefnt lifrarfrumukrabbamein (hepatocellular carcinoma). Hluti krabbameins í lifur á upptök sín í gallgöngum inni í lifrinni (cholangiocarcinoma). Þegar talað er um lifrarkrabbamein er átt við æxli sem upprunnin eru í lifrinni. Í lifur er nokkuð algengt að fram komi meinvörp frá æxlum sem upprunnin eru í líffærum utan lifrar, oft frá meltingarvegi, brisi og lungum. Hér á landi eru slík æxlismeinvörp mun algengari í lifur en lifrarkrabbamein sem á upptök í lifrinni. Í þessari umfjöllun er aðeins verið að fjalla um æxli sem eiga uppruna sinn í lifrinni.

Greining

 • Myndrannóknir. Þær rannsóknir sem notaðar eru til að finna æxlishnúta í lifur eru myndgreiningarrannsóknir svo sem ómskoðun, tölvusneiðmyndun og segulómskoðun.

TÖLFRÆÐI UM LIFRARKRABBAMEIN

 • Blóðpróf. Í sumum tilvikum er unnt að mæla efni í blóði (alfa-fetoprotein), sem getur hækkað í lifrarfrumukrabbameini. 
 • Smásjárrannsókn af vef eða frumum úr æxlinu, svokölluðum fínnálar- eða grófnálarsýnum, gefur endanlega greiningu og upplýsingar um hvaða gerð af krabbameini um er að ræða.

Meðferð

 • Skurðaðgerð er eina meðferðin sem getur læknað lifrarkrabbamein. Til að aðgerð skili árangri þarf lifrarstarfsemi að vera góð og æxlið að vera á afmörkuðum stað í lifrinni og ekki vera búið að dreifa sér. Oftast fjarlægir skurðlæknir æxlið og mismikinn lifrarvef í kringum það. Lifrin getur starfað eðlilega þrátt fyrir að stór hluti hennar sé fjarlægður. Í sumum tilfellum þarf að fjarlægja alla lifrina og sjúklingur verður að fá aðra lifur með líffæraflutningi. Almennt er þó minnihluta sjúklinga treyst í aðgerð (ekki skurðtækir) vegna þess að meinið er of langt gengið þegar það greinist eða að lifrarstarfsemin er ekki nægilega góð. 
 • Krabbameinslyfjameðferð. Ef ekki er unnt að fjarlægja meinið með skurðaðgerð er öðrum aðferðum beitt til að halda aftur af meininu. Það getur verið krabbameinslyfjameðferð eða staðbundið aðgerðarinngrip á lifur. 
 • Geislameðferð hefur ekki borið nægjanlega góðan árangur og er því sjaldan notuð.

Algengi og lífshorfur

Árlega greinast að meðaltali 15 karlar og 6 konur með lifrarkrabbamein og er meðalaldur við greiningu um 69 ár hjá körlum og 73 ára hjá konum. Í árslok 2018 voru 28 karlar og 13 konur á lífi með sjúkdóminn.

Horfur sjúklinga með lifrarkrabbamein eru almennt ekki góðar, fimm ára lífshorfur eru 21% hjá körlum og 12% hjá konum. Margir látast innan árs frá greiningu, enda greinast meinin oft seint. Horfur eru þó nokkuð góðar fyrir lítil æxli sem finnast fyrir tilviljun og til er sjaldgæft vefjafræðilegt afbrigði af lifrarfrumukrabbameini sem almennt hefur góðar horfur.


Var efnið hjálplegt?