Legbols­krabbamein

Yfirleitt greinist krabbamein í legbol á byrjunarstigum og eru fimm ára lífshorfur góðar. Það er því að þakka að almennt séð leita íslenskar konur nokkuð fljótt til læknis vegna einkenna sem geta gefið vísbendingar um sjúkdóminn.

Helstu einkenni

Legbolskrabbamein er sjaldgæft fyrir breytingaskeið en það kemur fyrir að konur allt niður í þrítugt greinist með sjúkdóminn. Óeðlilegar blæðingar eru oftast fyrsta einkenni um krabbamein í legbol.

  • Óeðlilegar blæðingar:
Fyrir breytingaskeið: Fyrsta einkenni er oftast óreglulegar blæðingar, t.d. blæðingar milli reglulegra tíða eða óvenju miklar og/eða langvinnar tíðablæðingar.

Eftir breytingaskeið: Ávallt þarf að rannsaka konur sem hafa blæðingar eftir að hafa gengið í gegnum breytingaskeið.

  • Mikil útferð, stundum illa lyktandi.
Hafa ber í huga að bæði blæðingar og útferð eru mun oftar tilkomnar af öðrum ástæðum en vegna krabbameins.

Áhættuþættir

Þekking á orsökum legbolskrabbameins er allnokkur, enn er þó langt í land að skýra eðli þeirra að fullu. Vitað er að áhrif kvenhormóna koma mikið við sögu. Eftirfarandi þættir sem tengjast hormónum geta aukið áhættuna:

  • Estrógenlyf með eða án prógesteróns við einkennum tíðahvarfa.
  • Saga um sepa í legslímhúð
  • Að hafa ekki orðið þunguð
  • Offita. Fituvefur getur valdið hækkun á estrógenum í kvenlíkamanum.
  • Fjölblöðruheilkenni (Polycystic ovary syndrome (PCOS)). Konur með þetta heilkenni hafa óeðlileg hormónagildi, t.d. meira af estrógenum.
  • Að byrja ung á blæðingum (fyrir 12 ára). 
  • fara seint á tíðahvörf (eftir 50 ára). 
  • Tamoxifen, lyf sem notað er til meðferðar við brjóstakrabbameini.

Hvað er legbolskrabbamein?

Legið er í mjaðmagrindinni, milli þvagblöðrunnar og endaþarmsins. Veggir þess eru gerðir úr sléttvöðvavef sem er um 1-3 sentimetrar að þykkt. Inni í leginu er holrúm þar sem fóstur getur byrjað að vaxa. Legbolsslímhúðin sem klæðir innri veggi (holrúm) legbolsins brotnar niður við hverjar tíðablæðingar og ný slímhúð myndast á milli tíða. Eftir tíðahvörf verður þessi slímhimna (endometrium) þynnri og rýrari. Krabbamein í legbol eiga langoftast upptök sín í legbolsslímhúð, þ.e. kirtilkrabbamein af ýmsum gerðum.

Greining

Kvensjúkdómalæknir framkvæmir kvenskoðun og með ómskoðun í gegnum leggöng er mögulegt að meta þykkt slímhúðarinnar í leginu. Of þykk slímhúð getur bent til ofvaxtar (hyperplasiu) eða krabbameinsmyndunar, en iðulega tengist slímhúðarkrabbamein í legbol afbrigðilegum ofvexti legbolsslímhúðar.

TÖLFRÆÐI UM KRABBAMEIN Í LEGBOL

Legbolskrabbamein er oftast greint með því að taka sýni úr legslímhúðinni eða skafa slímhimnuna innan úr legholinu (útskaf) og senda vefinn í smásjárskoðun hjá vefjameinafræðingum. Slíkt er gert í aðgerð hjá kvensjúkdómalækni.

Konur sem greinast með krabbamein í útskafi frá legi fara í segulómun af grind, tölvusneiðmynd af kviðarholi og lungnamynd til að kanna mögulega útbreiðslu æxlis.

Legbolskrabbameini er venjulega skipt í fjögur mismunandi stig. Á stigi I vex meinið einungis í leginu, á stigi II er það vaxið niður í leghálsinn, á stigi III vex það einnig utan við legið og á stigi IV hefur það myndað fjarmeinvörp, t.d. í lungum og lifur. Í flestum tilfellum uppgötvast krabbamein í legi þegar á byrjunarstigi og batahorfur eru þá mjög góðar.

Meðferð

Krabbamein í legbol er langoftast meðhöndlað með skurðaðgerð. Legið, eggjastokkarnir og eggjaleiðararnir eru þá fjarlægðir ásamt aðlægum vef. Ef æxlið er óskurðtækt við greiningu og ef æxlið tekur sig upp aftur innan grindarholsins eftir upphaflega aðgerð í lækningaskyni er æxlið yfirleitt meðhöndlað með krabbameinslyfjameðferð og/eða geislameðferð.

Konur sem gangast undir meðferð geta upplifað þá tilfinningu að kvenleiki þeirra hafi minnkað og þar af leiðandi misst sjálfsöryggi eða áhuga á kynlífi. Ef þessi tilfinning er viðvarandi gæti verið rétt að ræða við heilbrigðisstarfsmann og/eða kynlífsfræðing.

Algengi og lífshorfur

Horfur sjúklings með krabbamein í legbol eru almennt séð góðar, þar sem sjúkdómurinn uppgötvast mjög gjarnan snemma í sjúkdómsferlinu, í kjölfar óreglulegra tíðablæðinga eða blæðinga eftir tíðahvörf.

Að meðaltali greinast 38 konur árlega með legbolskrabbamein og er meðalaldur við greiningu um 66 ár. Árlega deyja 5 konur úr sjúkdómnum. Í árslok 2018 voru rúmlega 493 konur á lífi sem greinst hafa með sjúkdóminn.

Fimm ára hlutfallsleg lifun kvenna á Íslandi er um 88% en horfurnar fara mjög eftir því á hvaða stigi sjúkdómurinn greinist. Þannig eru fimm ára lífshorfur um 90% ef sjúkdómurinn hefur greinst á stigi I en aðeins um 20% ef hann hefur greinst á stigi IV.


Var efnið hjálplegt?