Gallblöðru- og gallvega­krabbamein

Krabbamein í gallblöðru og gallvegum eru sjaldgæf hér á landi og uppgötvast oftast fyrir tilviljun, t.d. við gallsteinaaðgerð.

Einkenni

Æxlið uppgötvast stundum fyrir tilviljun og er algengast að sjúklingur hafi þá einkenni frá gallsteinum.

 • Gula. Æxli sem koma upp í gallvegum utan gallblöðru geta valdið gulu og kláða ef æxlið þrengir að eða stíflar gallvegina. Augnhvíta og húð verða þá gulleit, hægðir verða ljósar eða hvítleitar og þvag verður dekkra en venjulega. Gula er þó sjaldnast af völdum krabbameins, algengara er að henni valdi t.d. gallsteinar eða lifrarbólga. Ef æxli vex á svæðinu þar sem gallvegirnir opnast inn í skeifugörnina fær sjúklingurinn gulu tiltölulega snemma á sjúkdómsferlinum og þá er oft hægt að greina sjúkdóminn á byrjunarstigi og lækna sjúkling.
 • Æxlið uppgötvast oft ekki fyrr en það hefur dreift sér og einkenni eins og kviðverkir, minni matarlyst og þyngdartap eru komin fram.

Áhættuþættir

Orsakir þessa krabbameins eru lítt þekktar. Þó er vitað um nokkra þætti sem auka áhættu að fá krabbamein í gallblöðru.

 • Gallsteinar. Um 80% einstaklinga með krabbamein í gallblöðru hafa jafnframt gallsteina. Þó svo að flestir þeir sem fá gallblöðrukrabbamein séu með gallsteina þá er ekki mikil áhætta fylgjandi því að fá gallsteina, því þeir eru mjög algengir. Aðeins um einn af hundraði þeirra sem fá gallsteina fá einnig gallblöðrukrabbamein.
 • Offita virðast auka áhættu.
 • Á vextir og grænmeti virðist hafa jákvæð áhrif.
 • Sýkingar í gallvegakerfinu hafa í för með sér aukna áhættu á æxlum í gallvegum utan gallblöðru.
 • Meðfæddir breytileikar á gallvegakerfinu. Sjúklingar með sjúkdóm sem nefnist frumkominn gallgangatrefjunarkvilli (primary sclerosing cholangitis, PSC) eru jafnframt í aukinni hættu á að frá krabbamein í gallvegi.
 • Taugaveiki (typhoid fever) smitast með bakteríu sem heitir salmonella typhi sem getur valdið krónískri bólgu í gallblöðru og þannig aukið áhættu. Taugaveiki er landlæg í Asíu, Afríku, Mið- og Suður-Ameríku. Til að minnka líkur á smiti er mikilvægt að forðast mat og drykk sem getur verið mengaður og láta bólusetja sig gegn taugaveiki. Bóluefnin ekki fullkomna vörn.

Hvað er krabbamein í gallblöðru og gallvegi?

Gall er gulleitur vökvi sem er nauðsynlegur til að sundra fitu í fæðunni svo unnt sé að frásoga hana í smáþörmunum, þ.e. að niðurbrotin fituefni í fæðunni komist út í blóðið. Á hverjum sólarhring framleiðir lifrin um það bil hálfan lítra af galli. Það fer í gegnum gallgangakerfi lifrarinnar í gallvegina og þaðan út í gallblöðruna, sem er undir hægri hluta lifrarinnar. Þar safnast gallið saman áður en það fer út í þarmana. Við máltíðir dregst gallblaðran saman og skammtar gall í gegnum stóru gallrásina út í skeifugörnina. Krabbamein sem myndast í gallgöngum innan lifrar flokkast með lifrarkrabbameini. Krabbamein í gallblöðru eru um tvöfalt algengari en krabbamein í gallvegum utan gallblöðru.

Greining

Ýmsar blóðrannsóknir geta gefið til kynna að gallvegir séu stíflaðir, og ómun af kviðnum getur vakið upp grunsemdir um æxlisvöxt í gallblöðru eða gallvegum. Þá er hægt að rannsaka gallvegi með speglun ásamt röntgenmyndatöku, svonefnd ERCP-rannsókn (endoscopic retrograde cholangio-pancreatography), en þá er speglunartæki rennt niður um kok og alla leið niður í skeifugörn, grönn slanga er þrædd í gegnum speglunartækið og upp í op gallvegakerfisins í skeifugörninni. Þá er röntgenskuggaefni sprautað upp gallvegakerfið og röntgenmyndir teknar. Einnig eru oft tekin vefjasýni eða frumusýni til þess að fá endanlega greiningu sem reynist þó í mörgum tilfellum torsótt. Langflest æxli í gallblöðru og gallvegakerfi eru af flokki kirtilkrabbameina. Þau geta verið mjög vel þroskuð, þ.e. kirtilmyndandi með vef sem líkist eðlilegum vef og því erfið í smásjárgreiningu. Yfirleitt eru myndgreiningarrannsóknir eins og tölvusneiðmynd og segulómun einnig notaðar við greiningu á gallblöðru- og gallvegakrabbameinum.

Meðferð

Krabbamein í gallvegum gefa oftast einkenni seint og því í flestum tilfellum ekki unnt að fjarlægja þau að fullu með skurðaðgerð sem er eini möguleikinn til varanlegrar lækningar. 

TÖLFRÆÐI UM KRABBAMEIN Í GALLBLÖÐRU OG GALLVEGUM

 • Skurðaðgerð. Ef unnt er að gera skurðaðgerð á gallblöðrukrabbameini í þeim tilgangi að komast fyrir meinið, er öll gallblaðran fjarlægð ásamt nærliggjandi hluta lifrar. Venjulega eru nálægir eitlar fjarlægðir um leið. Ef æxli sem eru við mót gallvegakerfis og skeifugarnar eru fjarlægð þarf venjulega einnig að nema brott hluta af brisi og skeifugörn. Stundum eru framkvæmdar aðgerðir til að bæta lífsgæði þó ekki reynist unnt að komast algerlega fyrir meinið. Ef æxli stíflar gallvegina getur verið þörf á að tengja framhjá hindruninni og í skeifugörnina. Þetta vandamál er einnig oft leyst með því að koma fyrir grönnu röri í gallvegunum þar sem þeir þrengjast. Þá hverfa þau vandamál sem gulan veldur.
 • Lyfjameðferð. Þegar skurðaðgerð er ekki möguleg er stundum mælt með krabbameinslyfjameðferð til þess að reyna að halda vexti æxlisins í skefjum. Einnig er hægt að gefa lyf til að minnka einkenni eins og verki, ógleði og kláða. Krabbameinslyfjameðferð hefur á síðustu árum jafnframt verið gefin sem eftirmeðferð eftir skurðaðgerðir.
 • Geislameðferð ásamt lyfjameðferð er stundum beitt til að halda æxlinu í skefjum. 

Algengi og lífshorfur

Krabbamein í gallblöðru og gallvegum eru sjaldgæf hér á landi, um 9 einstaklingar greinast árlega með sjúkdóminn. Þau greinast oftast á aldrinum 60-75 ára og er meðalaldur við greiningu 70 ár.

Gallblöðru- og gallvegakrabbamein greinist oft ekki fyrr en sjúkdómurinn er langt genginn og horfur sjúklinga eru yfirleitt ekki góðar. Sjúklingar lifa oft aðeins um eitt til eitt og hálft ár eftir greiningu á gallvegakrabbameini, en betri horfur eru hjá þeim sem greinast með æxli upprunnin við op gallveganna inn í skeifugörnina. Um fjórðungur þess hóps sjúklinga lifir í fimm ár frá greiningu sjúkdómsins. Sjúklingar með æxli sem eru upprunnin í gallblöðru og uppgötvast ekki fyrr en eftir að einkenni æxlis eru komin fram hafa slæmar horfur. Hins vegar eru mun betri horfur hjá þeim sem greinast fyrir tilviljun þegar gallblaðra er fjarlægð, t.d. vegna einkenna frá gallsteinum.


Var efnið hjálplegt?