Bris­krabbamein

Krabbamein í brisi er alvarlegur sjúkdómur. Sumar tegundir krabbameins í brisi, taugainnkirtlaæxli, hafa þó betri horfur en útkirtlaæxli sem eru algengari. Steve Jobs er líklega einn þekktasti einstaklingurinn sem hefur greinst með taugainnkirtlaæxli í brisi. Hans mein var talið læknanlegt en hann neitaði hefðbundinni meðferð í upphafi síns sjúkdómsferils.

Helstu einkenni

 • Gula. Meinið getur stíflað gallgangakerfið sem veldur því að líkaminn nær ekki að losa sig við gallið. Hvíta augna og húðin verða gul og þvag dökkt. Algengari einkenni gulu eru þó aðrar ástæður eins og gallsteinar eða lifrarbólga. 
 • Verkur í efri hluta kviðar sem oft leiðir aftur í bak. 
 • Þreyta, slappleiki, minnkuð matarlyst og þyngdartap eru oft síðbúin einkenni. 
 • Sykursýki er sjaldgæft einkenni en þá hafa briskirtilsfrumur sem framleiða insúlín orðið fyrir skaða vegna æxlisins. 

Áhættuþættir

Margt er enn á huldu um það hvað veldur briskrabbameini en nokkrir þættir geta aukið líkur á briskrabbameini:

 • Reykingar og tóbak auka áhættu og unnt væri að lækka nýgengi briskrabbameins um 10-20% ef reykingum yrði hætt.
 • Áfengi. Langvinn briskirtilsbólga, sem oftast er af völdum of mikillar áfengisneyslu, eykur áhættu á meininu.
 • Offita er talinn áhættuþáttur, samkvæmt nokkrum rannsóknum. 
 • Rautt kjöt er mögulegur áhættuþáttur.
 • Erfðir og ættarsaga. Briskrabbamein er algengara hjá þeim sem eiga föður, móður eða systkini sem hafa greinst með sjúkdóminn. Vísbendingar eru um að þeir sem eru með stökkbreytingu í BRCA1 eða BRCA2 geni séu í aukinni áhættu.
 • Landfræðilegur munur. Briskrabbamein er algengast í Evrópu, Norður-Ameríku, Rússlandi og suðurhluta Suður-Ameríku. Sjúkdómurinn er hins vegar sjaldgæfur í Afríku og á Indlandi. Briskrabbamein er almennt séð algengara í þéttbýli en í strjálbýli. Nýgengi sjúkdómsins er mjög svipað innan Norðurlandanna, bæði hjá körlum og konum.

Nokkrar rannsóknir benda til þess að fæði sem inniheldur fólinsýru, ávextir og reglubundin hreyfing séu verndandi fyrir sjúkdóminn.

Hvað er briskrabbamein?

Brisið er 15-20 sentímetra langt líffæri, sem er fyrir aftan neðri hluta magans. Brisið er samsett úr bæði útkirtlum og innkirtlum. Algengustu krabbameinin myndast í útkirtlum, sem mynda meira en einn lítri af vökva á sólarhring, brisvökva, sem skilst (seytist) út í skeifugörnina. Í vökvanum eru margar tegundir ensíma (hvata), sem taka þátt í meltingu og niðurbroti fæðunnar. Bíkarbónat myndast einnig í brisinu en það eyðir sýruáhrifum í magasafa. Innkirtlahlutinn framleiðir hormón eins og insúlín og glúkagon. Insúlín sér til þess að halda blóðsykrinum í jafnvægi og skortur á insúlíni leiðir til sykursýki (diabetes mellitus).

Briskrabbamein á í flestum tilfellum upptök sín í þeim hluta brisins sem myndar meltingarensím, eða útkirtlum. Flest æxlin (60%) eru í hægri hluta brisins eða briskirtilshöfðinu, sem er næst skeifugörninni. Í einstaka tilfellum myndast æxli í þeim frumum sem framleiða hormón (Langerhanseyjar), og þau teljast til innkirtlaæxla (sjá kafla um innkirtlaæxli).

Greining

Ef einkenni og skoðun læknis vekja grunsemdir um briskrabbamein er yfirleitt byrjað á því að gera myndrannsókn með ómun eða tölvusneiðmyndatöku. Oft má þá greina víkkaða gallganga og stundum fyrirferð sem getur bent til æxlisvaxtar.

TÖLFRÆÐI UM BRISKRABBAMEIN

Svonefnd ERCP-rannsókn er gerð með speglunartæki þar sem fíngerð slanga er þrædd um maga frá skeifugörn upp í brisgang og gallgangakerfi. Með tækinu getur læknir tekið sýni frá æxlinu. Endanleg sjúkdómsgreining er gerð með smásjárrannsókn á vefjasýnum.

Ef sjúkdómsgreining hefur staðfest briskrabbamein getur segulómrannsókn gefið vísbendingar um útbreiðslu æxlis.

Meðferð

 • Skurðaðgerð. Því miður er aðeins hægt að fjarlægja mein í brisi með uppskurði í 10-20% tilfella. Oftast er hægri hluti briskirtilsins fjarlægður, en í þeim hluta brissins vaxa flest meinin. Við þá aðgerð eru einnig skeifugörn, gallblaðra og hluti gallganga, og neðri hluti magans ásamt nærliggjandi eitlum fjarlægð.
 • Geislameðferð og krabbameinslyfjameðferð hafa takmörkuð áhrif á briskrabbamein en geta haldið vexti meinsins í skefjum. Í þeim tilfellum sem ekki er hægt að fjarlægja æxli, er hægt með speglunartæki (ERCP) að leggja inn lítið rör sem leiðir gallið framhjá æxlinu. Þá minnkar gulan sem orsakast vegna stíflu í gallgöngunum.
 • Önnur lyf. Eftir aðgerð geta sjúklingar tekið inn töflur eða duft sem koma í stað meltingarensímanna sem brisið framleiddi áður til að aðstoða við meltingu fæðu. Einkenni eins og sársauka, ógleði og kláða er einnig hægt að minnka með lyfjum.  

Algengi og lífshorfur

Meðalaldur karla við greiningu er um 70 ár og kvenna 73 ár. Á hverju ári greinast um 46 með briskrabbamein, heldur fleiri karlar en konur. Í árslok 2018 voru 65 á lífi með sjúkdóminn.

Sjúklingar með krabbamein í brisi hafa í heild slæmar horfur og stafar það að miklu leyti af því hversu seint það greinist í flestum tilvikum. Sífellt er verið að leita nýrra leiða til að greina meinið fyrr og bæta meðferð.


Var efnið hjálplegt?