Æxli í heila og miðtaugakerfi

Æxli í heila geta verið bæði illkynja og góðkynja. Góðkynja æxli flokkast hér með krabbameinum því þau geta valdið alvarlegum skaða líkt og illkynja æxli.

Einkenni

Einkenni æxla í heila og miðtaugakerfi fara eftir staðsetningu. Eitt eða fleiri eftirtalinna einkenna eru algengust:

 • Höfuðverkur, algengastur á morgnana. Ógleði og uppgöst fylgja oft höfuðverknum.
 • Svimi eða skert jafnvægisskyn.
 • Sjóntruflanir.
 • Flog.
 • Tal- og heyrnarvandamál.
 • Hreyfiskerðing eða lamanir.
 • Mikil þreyta.
 • Minnistruflanir.
 • Persónuleikabreytingar.
 • Hormónatengdar breytingar frá æxlum sem staðsett eru í heiladingli og framleiða hormón.
Einkenni þessi geta einnig verið af saklaugum toga en ráðlagt er að leita læknis vegna þeirra. 

Orsakir

Orsakir æxla í heila og miðtaugakerfi eru að mestu leyti óþekktar. Þó er vitað að jónandi geislun, t.d. geislavirkni eftir kjarnorkusprengjur, getur aukið líkur á þessum æxlum. Röntgengeislar geta einnig aukið áhættu. Einnig eru vísbendingar um að mikil farsímanotkun og rafsegulsvið geti aukið líkur á þessum æxlum.

Hvað eru æxli í heila og miðtaugakerfi?

Í heilanum eru stjórnstöðvar fyrir hugsanir, tilfinningar og minningar, stjórnun hreyfinga og ákvarðanatöku. Þar eru meira en hundrað milljarðar taugafruma. Þær eru tengdar með mjög flóknu neti taugaþráða. Heilinn samhæfir og stýrir öllum líffærum líkamans. Auk taugafruma eru stoðfrumur í heilanum, svonefndar taugatróðsfrumur. Þær eru enn fleiri en taugafrumur og hafa það hlutverk að vernda þær og aðstoða.

Flest illkynja heilaæxli eiga upptök sín í stoðfrumum (taugatróðfrumum eða gliafrumum) og nefnast tróðæxli (glioma). Algengasta gerðin eru svonefnd stjarnfrumuæxli (astrocytoma). Þau eru flokkuð nánar eftir vefjafræðilegri þroskun (gráðu). Undir gráðu I falla mjög vel þroskuð æxli, en til gráðu IV (einnig nefnt glioblastoma multiforme) heyra æxli sem eru meðal þeirra illvígustu sem þekkjast. Stundum eiga æxli upptök sín í heilahimnum sem mynda hjúp utan um heila og mænu. Þau nefnast himnuæxli (meningioma). Þau eru langoftast góðkynja en geta samt verið þannig staðsett að erfitt getur reynst að fjarlæga þau með skurðaðgerð. Stöku sinnum eiga heilaæxli upptök sín í taugaslíðursfrumum, svokölluð taugaslíðursæxli (neurilemmoma/Schwannoma), en þau vaxa oftast út frá heyrnartaugum (acustic neuroma). Heiladingulsæxli (pituitary tumor) eru góðkynja æxli sem framleiða oft hormón og valda einkennum eftir því hvaða tegund hormóna þau seyta.

Æxli í heila og miðtaugakerfi dreifa sér yfirleitt ekki út fyrir miðtaugakerfið. Hins vegar er algengt að aðrar krabbameinsgerðir, t.d. krabbamein með upptök í brjóstum og lungum, myndi meinvörp í heilanum. Meinvörp geta haft svipuð einkenni og æxli upprunnin í heila en eru oftast meðhöndluð á annan hátt. Því er nauðsynlegt að aðgreina meinvörp í heila frá æxlum sem eiga þar uppruna sinn.

Greining

Þegar grunur er um heilaæxli er fyrst gerð nákvæm taugalæknisfræðileg skoðun á sjúklingi. Læknirinn athugar þá t.d. viðbrögð, hreyfigetu, tilfinningu, sjón og jafnvægisskyn. Með hjálp tölvusneiðmynda og segulómana má greina fyrirferðaraukningu í heila, heilahimnum og mænu og kanna staðsetningu og útbreiðslu æxla. Endanleg greining og tegundaflokkun er gerð af meinafræðingum þar sem vefjasýni úr meininu er skoðað í smásjá. 

TÖLFRÆÐI UM ÆXLI Í HEILA OG ÖNNUR ÆXLI Í MIÐTAUGAKERFI

 

Meðferð

 • SkurðaðgerðÞegar því verður við komið er æxlið skorið í burtu en stundum er staðsetning þess slík að opin skurðaðgerð getur valdið sjúklingnum miklum skaða. Er þá hægt að taka sýni með svonefndri stereotaktískri tækni. Þá er stálrammi notaður og hann festur á höfuð sjúklings. Með hjálp hans er staðsetning meinsins í þrívídd/rúmhniti ákvörðuð. Nýjasta hjálpartæki skurðlæknisins er þó svokölluð „neuronavigation-tækni “, en þá er þrívíddarstaðsetning æxlisins ákvörðuð með tölvutækni, sem ber saman segulómmyndir og höfuð sjúklings og getur læknirinn fylgst með á tölvuskjá nákvæmlega hvar verkfæri hans eru staðsett í vefjum heilans meðan á aðgerð stendur. Þessi tækni eykur mjög nákvæmni í aðgerðum. Ekki er óalgengt að jafnvægisskyn skerðist í kjölfar aðgerðar. Mikilvægt er að ná burtu öllu meininu eða sem stærstum hluta þess en jafnframt þarf að vernda nærliggjandi heilbrigðan vef eins og unnt er.
 • Geislameðferð er beitt í framhaldi aðgerðar ef um tróðæxli af gráðu III til IV er að ræða. Geislameðferð er einnig beitt í sumum öðrum tegundum heilaæxla í völdum tilfellum.
 • Lyfjameðferð. Stundum eru einnig gefin krabbameinslyf. Til að draga úr heilabjúg sem getur fylgt heilaæxlum eru oft notuð steralyf. Krampalyf eru eingöngu gefin ef fram koma krampar en ekki sem fyrirbyggjandi meðferð.

Algengi og lífshorfur

Heilaæxli og önnur æxli í miðtaugakerfinu eru mjög fjölbreytileg að gerð og horfur eru mjög breytilegar eftir vefjategund og staðsetningu æxlanna. Þetta geta verið afmörkuð æxli sem unnt er að lækna með uppskurði, en geta einnig verið mjög illvíg æxli með slæmar horfur.

Ungur aldur bætir horfur ásamt því að vera ekki með aðra sjúkdóma sem oft fylgir hækkandi aldri.

Fræðsluefni

Heilaæxli - margar gerðir og mismunandi hegðun


Var efnið hjálplegt?