Beint í efni

Al­næm­is­veir­an (HIV)

Alnæmisveiran (Human immunodeficiency virus, HIV) er veira sem ræðst á ónæmiskerfið og dregur úr getu líkamans til að berjast gegn sýkingum og sjúkdómum. 

Einstaklingur sem sýktur er af alnæmisveirunni getur orðið alvarlega veikur af völdum sýkinga sem heilbrigður einstaklingur gæti venjulega losnað við nokkuð auðveldlega. Þeir sem eru sýktir af veirunni og hafa veikst vegna þess skaða sem hún vefur valdið eru sagðir vera með áunna ónæmisbæklun eða alnæmi (Acquired immune deficiency syndrome, AIDS). AIDS er lokastig alnæmissýkingar, þegar líkaminn ræður orðið illa við að verjast lífshættulegum sýkingum án meðferðar.

Engin lækning er til við alnæmisveirusýkingu en til er lyfjameðferð, svokölluð veiruvarnarmeðferð (antiretroviral, ARV), sem hægir á dreifingu veirunnar um líkamann. Lyfjameðferðir af þessu tagi gera flestum sem smitaðir eru af alnæmisveirunni kleift að lifa lengi við góða heilsu.

Fólk með alnæmisveirusmit er líklegra en annað til að fá sumar gerðir krabbameins, vegna þess að ónæmiskerfi þess eru veiklað og verður því berskjaldaðra fyrir sjúkdómum. Algengustu tegundir krabbameins sem tengjast alnæmisveirusmiti eru Kaposisarkmein sem er krabbamein í æðum, einnig krabbamein í eitlum, leghálsi, legi, endaþarmsopi, lungum, kvensköpum, leggöngum, typpi og lifur.  Að auki eru auknar líkur á krabbameini í vör, munni, koki og húð.

Dreifing veirunnar

Allir ættu að vita hvort þeir séu smitaðir af alnæmisveirunni. Sé um enga meðferð að ræða hjá manneskju sem smitast hefur, getur veiran dreift sér um líkamann og valdið heilsutjóni auk þess sem smitið getur borist til bólfélaga viðkomandi. Niðurstöðu úr þeim greiningaprófum sem notuð eru nú til dags má oftast vænta innan mánaðar frá smitun. Greiningaprófin felast í rannsókn á blóð- eða munnvatnssýni.

Alnæmisveiran getur borist milli einstaklinga sem stunda óvarið kynlíf og þegar fólk deilir sýktum sprautubúnaði eða öðrum oddhvössum áhöldum. Hún getur líka borist í fólk þegar sýkt blóð er notað við blóðgjöf. Að auki getur veiran borist frá móður til barns á meðgöngu, við fæðingu og brjóstagjöf.

Helsta leiðin til að koma í veg fyrir alnæmisveirusmit er að stunda öruggt kynlíf, nota smokk við allar samfarir eða halda sig við einn bólfélaga sem hefur látið prófa fyrir alnæmisveirunni í blóði sínu og er ekki smitaður. Einnig ætti fólk að láta rannsaka stöðu sína varðandi kynsjúkdóma almennt og fá meðferð ef þarf. Forðast ætti að sprauta lyfjum í æð. Ef ekki er komist hjá því ætti alltaf að nota nýjar, einnota nálar og sprautur. Einnota, nýjar nálar ættu líka alltaf að vera notaðar við húðflúrun og líkamsgötun.

Meðferð vegna HIV-sýkingar  

Þeir sem greinast HIV-jákvæðir (sýktir af alnæmisveirunni) gangast undir frekari rannsóknir þar sem kannað er hversu langt sýkingin er gengin svo ákvarða megi hvenær tímabært sé að hefja HIV-meðferð. Það breytir lífi fólks varanlega að greinast með HIV-smit og er líklegt til að hafa áhrif á tilfinningalíf og lífshætti viðkomandi. Til eru samtök sem veita þeim sem greinst hafa með HIV-smit stuðning. Slík samtök geta líka oft veitt upplýsingar um bestu fáanlegu meðferð. Eindregið er mælt með að fólk sem greinist HIV-jákvætt hætti að reykja.

Veiruvarnarmeðferðir (antiretroviral treatments, ARV) koma í veg fyrir tvö af hverjum þremur krabbameinstilfellum í HIV-smituðum einstaklingum, einkum Kaposi-sarkmein og eina gerð eitlakrabbameins (non-Hodgkins eitlakrabbamein). Ávinningur af veiruvarnarmeðferðum er ekki eins augljós hvað varðar sumar aðrar gerðir krabbameins, svo sem krabbamein í leghálsi, endaþarmsopi og lungum og aðra tegund eitlakrabbameins (Hodgkins eitlakrabbamein). Almennt séð eru meiri líkur á að fólk fái krabbamein eftir því sem það eldist. Þar sem lífslíkur einstaklinga sem smitaðir eru af HIV hafa almennt batnað og auknar líkur á að þeir nái háum aldri er mjög mikilvægt að þeir mæti í krabbameinsskimun.

Meðferð hægir á dreifingu HIV um líkamann og gerir ónæmiskerfinu kleift að starfa betur. Þetta eykur viðnám líkamans gegn sýkingum og gerir viðkomandi kleift að lifa lengur og halda betri heilsu. Fólk finnur síður fyrir orkuleysi, þunglyndi og minnisleysi auk þess sem starfsemi meltingarkerfisins er betri. Einnig eru minni líkur á að einstaklingurinn smiti aðra. Læknar ákveða hvernig meðferð hvers og eins er háttað út frá þörfum viðkomandi. Fylgst er vel með, svo að veirunni sé haldið í skefjum og til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif.

Meðferðin getur þó haft óþægilegar aukaverkanir. Þær algengustu eru ógleði, þreyta, niðurgangur, húðútbrot og skapsveiflur auk þyngdartaps eða þyngdaraukningar.

Heimilislæknir og aðrir heilbrigðisstarfsmenn geta veitt frekari upplýsingar. Einnig er upplýsingar að finna á vefsíðum heilbrigðisyfirvalda.