Beint í efni
Vinkonuhópur Delia

„Óskap­lega gott að vita að mað­ur geti leitað til vin­kvenna“

„Ég kallaði strax í krakkana mína og tengdabörn og sagði þeim frá þessu og þau hafa verið mér óskaplega mikill og góður stuðningur. Síðan stofnaði ég hóp á Facebook sem ég kallaði Verkefnið 2017 og í honum eru hátt í 70 nánar vinkonur, fjölskyldumeðlimir og svo vinkonur sem tengjast mér til dæmis í gegnum hundana, vinnuna og svo framvegis. Eini karlmaðurinn í hópnum er sonur minn. Þessi hópur hefur verið mér ómetanlegur í ferlinu og ég er bara svo sjúklega heppin með þau öll.“

Saga Deliu Kristínar Howser

Delia uppgötvaði hnút í brjóstinu í lok mars 2017 og fékk í framhaldinu greiningu um að hún væri með brjóstakrabbamein. Við tók brjóstnám, lyfjameðferð og svo uppbygging brjóstanna, en það ferli er enn í gangi þar sem eftir á að móta geirvörtu, gera tattoo og fylla upp með fitu. Í síðustu viku var Delia útskrifuð úr lyfjameðferðinni, er laus við lyfjagjafir en tekur töflur einu sinni á dag.

„Ég kallaði strax í krakkana mína og tengdabörn og sagði þeim frá þessu og þau hafa verið mér óskaplega mikill og góður stuðningur. Síðan stofnaði ég hóp á Facebook sem ég kallaði Verkefnið 2017 og í honum eru hátt í 70 nánar vinkonur, fjölskyldumeðlimir og svo vinkonur sem tengjast mér til dæmis í gegnum hundana, vinnuna og svo framvegis. Eini karlmaðurinn í hópnum er sonur minn. Þessi hópur hefur verið mér ómetanlegur í ferlinu og ég er bara svo sjúklega heppin með þau öll.“

- Delia Kristín Howser

Inn á Facebooksíðuna hefur Delia póstað fréttum af meðferðinni og hvernig hefur gengið. En hún segist ekki hafa verið mikið að væla þar:

„Það hef ég gert meira í persónulegum samtölum, það sjaldan ég fann þörfina auk þess sem hundarnir mínir tóku við tárum og öskrum í gönguferðum. Hjálpin og stuðningurinn sem maður fær í kjölfarið á svona veikindum er svo mikilvægur og það er svo óskaplega gott að vita að maður geti leitað til vinkvenna, þótt maður þiggi ekki allt sem manni er boðið. Því sumt getur maður ekki lagt á börnin sín þótt þau séu orðin fullorðin.“

Vinkonuhópur Delia

Delia hélt boð fyrir vinkonur sínar, en einungis um helmingur komst á þeim tíma sem boðið var, það voru þær Vigdís Gunnars, Helga, Anna Soffía, Guðrún, Salome, Guðlaug Steindórs, Elína, Sigurða, Þóra Rósa, Guðlaug Helga, Vigdís Jóns, Þórdís Gísla, Sigríður, Matthildur, Sólveig Dóra (tengdadóttir Deliu), Lilja Guðrún (dóttir Deliu), Hildur (vinkona Lilju) og Helma dóttir hennar.

Delia á sex hunda sem reyndust henni mikill stuðningur í veikindunum, Team Hraunhvammur, kallar hún hópinn sem þreyttist ekki á gönguferðum með henni úti í náttúrunni. Og hún mælir með því að fólk sé bjartsýnt lendi það í þessum aðstæðum, hlusti á lækna- og hjúkrunarteymið og fylgi því sem þau segi: „Já, og leyfi sér að skæla og vera sár og reið, því það er hluti af ferlinu, en bara passa sig að dvelja þar ekki of lengi. Það er svo mikilvægt að njóta hverrar mínútu og framkvæma það sem þig langar og treystir þér til. Og umfram allt annað er mikilvægt að hreyfa sig.“

vinkonuhopur-delia-og-hundarnir.jpeg

Delia og Team Hraunhvammur í einni gönguferðinni.

Uppfært 18.9.2020
Delia á eftir tvö skipti í beinþéttimeðferð en hefur ekki lokið uppbyggingu á brjóstinu enn. Hún hefur eignast tvö barnabörn frá því hún greindist, Róbert Inga sem fæddist 27.8.2017 þegar Delia var í miðri lyfjameðferð – og Hafdísi Deliu sem fæddist 3.4.2020.

Í Bleiku slaufunni 2019 var Delia fengin til að flytja hugleiðingu um þessa lífsreynslu í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði: „Ég fékk ótrúlega sterk viðbrögð í kirkjunni. Fólk kom til mín, bað um að fá að taka utan um mig og maður sem hafði misst konuna sína var mér mjög þakklátur. Þetta var yndisleg stund.“

Við birtum hugleiðinguna hér með góðfúslegu leyfi Deliu.

Hugleiðing

Kæru kirkjugestir.

Þann 29.mars 2017 lagðist ég á koddann, klóraði mér í vinstra brjóstinu og líf mitt breyttist.

Ég hafði oft velt því fyrir mér, eftir að hafa fylgt mömmu minni í sinni baráttu þegar hún greindist með brjóstakrabba fyrir rétt 20 árum, hvort að ég myndi finna ef eitthvað væri að. Og í mínu tilfelli fór það ekkert á mili mála – þarna undir geirvörtunni var eitthvað sem var ekki eðlilegt.

Ég hafði strax samband við Leitarstöðina, þar var tekið á móti mér með hlýju og umhyggju og ég var stungin, ómuð og þreifuð. Fjórir dagar liðu og 10. apríl fæ ég símtal á miðjum fundi í vinnunni frá Einari lækni leitarstöðvarinnar. Hann upplýsir mig að ég þurfi að koma á Landsspítalann – og ég misskil hann eitthvað – fannst eins og ég þyrfti að fara í frekari rannsóknir. Mæti þangað galvösk – alein – ætlaði nú aldeilis ekki að fara að trufla börnin mín eða vinkonur með einhverjum æsing yfir kannski engu. En ég áttaði mig nú fljótt á því þegar ég labba inn í herbergi með Eddu hjúkrunarfræðingi að mín biðu slæmar fréttir. Ég brotnaði alveg í spað – ameríski hlutinn af mér tók völdin með öllu sínu drama og ég hágrét. Síðan steig hin sterka norræna kona fram, tók yfir og ég snýtti mér og hætti að skæla.

Þá lá fyrir að ég þyrfti að fara í aðgerð, sem breyttist úr því að vera fleygskurður í brjóstnám. Þar sem ég var búin að plana ferð til Grikklands fékk ég að fresta aðgerðardegi um 2 vikur – til 17. maí. Ég notaði tímann í Grikklandi til að pústa aðeins og þegar ég leyfði mér að fljóta um í sjónum undan ströndum þessa fallega lands þá valdi ég mér þá stund til að muna þegar sársaukinn og erfiðleikarnir væru að buga mig – þá myndi ég hverfa til þessa staðar – kyrrðin og blár himininn myndu vera minn staður.

Þegar viðtalinu var lokið þá kallaði ég börnin mín og tengdabörnin saman til að segja þeim fréttirnar. Nokkrum dögum áður hafði birst mynd af mér á Fésbókinni með lítinn hvolp. Ég er mikil hundamanneskja og dýravinur og átti sjálf þá 5 hunda. Þegar ég bað þau um að hitta mig því ég væri með fréttir þá héldu þau að sjálfsögðu að ég væri að tilkynna þeim að ég ætlaði að bæta við sjötta hundinum. Þögn sló á hópinn þegar ég sagðist vera með krabbamein og sagði ég þá „Já nú hefðu þið viljað að mamma væri að fá sér annan hund“ . Mér fannst ég mjög fyndin en þeim var ekki skemmt.

Þegar maður greinist þá er manni hent inní einhvers konar búbblu. Allt í einu er maður komin með dagskrá þar sem allt snýst um krabbann, blóðprufur, skanna, myndatökur, hjartaómun og viðtöl. Elsta dóttir mín fylgdi mér í gegnum þetta allt saman, var ritarinn minn, því þarna var ég sem betur fer búin að átta mig á því að maður getur þetta ekki einn.

Aðgerðin fór fram eins og áður sagði þann 17. maí 2017 og gekk vel. Ég þurfti að vera með drenið úr sárinu í tæpar 3 vikur – var alvarlega að hugsa um að sækja um kennitölu fyrir kvikindið. Settur var vefjaþenjari í brjóstið til að undirbúa uppbyggingu. En eftir fund hjá læknum í lok maí þegar niðurstöður úr sýnatöku úr eitlum lágu fyrir þá var mér ráðlagt að fara í fyrirbyggjandi lyfjameðferð. 12 skipti með tilheyrandi hármissi og vanlíðan. Við bættist síðan heilt ár af Herceptine meðferð, þar sem ég er HER-2 jákvæð. Sú meðferð hefur gefist mjög vel samhliða lyfjameðferð fyrir HER-2 greindar konur með hormónajákvæð æxli.

Fyrri hluti meðferðar voru 3 sprautur á 3.vikna fresti og síðan 9 sprautur vikulega. Meðferðin við HER-2 var einu sinni í mánuði í eitt ár, létt stunga í lærið, frekar einfalt. Þá þakkaði ég mínu sæla fyrir umfram kíló því annars hefði ég þurft að fá lyfið í æð. Lyfjabrunnur var að sjálfsögðu staðalbúnaður og hefði ég ekki viljað vera án hans í lyfjameðferðinni . Ég fylgdi leiðbeiningum hjúkrunarfólksins út í æsar, var ekki mikið í margmenni þegar hvítu blóðkornin voru lág, fór ekki á hlaðborð, sprittið aldrei langt undan og almennt hugsaði bara vel um mig.

Lyfjameðferð var valkvæð en ég ákvað að treysta lækninum mínum, honum Óskari Þór Jóhannssyni.

Ég fór í fyrstu sprautuna föstudaginn 9. júní 2017, lauk chemo meðferðinni miðvikudaginn 1.nóvember sama ár og var svo útskrifuð mánudaginn 17. september 2018. Tek töflu á dag næstu árin, beinþéttisprautur á 6 mánaða fresti og nú er ég í miðju ferli að klára uppbyggingu á brjóstinu.

Hvernig tókst ég svo á við þetta allt saman?

Það var alveg ótrúlega erfitt til að byrja með að koma frá mér setningunni „ Ég er með krabbamein“. Ég tók þann pólinn í hæðina að æfa mig – fór með hundana mína í göngu út fyrir bæinn og þar æfði ég mig að segja þetta á alls konar hátt: öskraði , hvíslaði, sagði það hlæjandi , grátandi – sem sagt tuggði þetta aftur og aftur og aftur þar til þetta var bara tiltölulega auðvelt að segja „Ég er með krabbamein“.

Þegar ég hitti Óskar lækninn minn í fyrsta viðtalinu sagði ég honum frá því að ég ætti 5 labrador hunda. Hann verður þetta yfir sig ánægður og sagði jess! Ég varð að sjálfsögðu forviða og hváði. Hann tjáði mér að rannsóknir hefðu sýnt margoft að konur sem færu í gegnum lyfjameðferð og ættu hunda gengi betur að takast á við þetta verkefni heldur en konur sem ættu ketti. Tilkynnti ég honum þá að ég ætti nú líka 2 kisustráka en þá svaraði hann – en þú ferð ekki út að ganga með kettina. Hundarnir mínir voru mér algjörlega ómetanlegir í öllu þessu ferli! Þeir röltu með mér, í stuttar eða langar göngur – allt eftir því hvað ég treysti mér í. Þeir kúrðu hjá mér, hugguðu mig þegar ég skældi og voru alltaf til staðar.

Hreyfing er svo stór þáttur þegar maður fer í gegnum lyfjameðferð. Og markið er ekkert endilega fleiri fleiri kílómetrar – heldur bara það að komast aðeins út, anda að sér fersku lofti og hugsa um eitthvað annað. Minn staður var skóglendi rétt við Krísuvíkurveginn – þar sótti ég mína hreyfingu, súrefni, kyrrð og hugleiddi. Leyfði mér að skæla og öskra ef dagsformið var þar eða bara njóta.

Einn fylgifiskur lyfjanna sem ég tek í dag eru bein og liðverkir. Kyrrseta er versti óvinur minn og hreyfing mér því lífsnauðsynleg.

Ég fíflast stundum með að ég sé best þekkt sem „Konan sem fékk krabbamein og gat ekki hætt að ganga“!

Ég sótti mikinn styrk í börnin mín, vinkonur mínar og fjölskyldu. Setti saman hóp á Fésbókinni þar sem ég gat sett inn fréttir af mér og miðlað upplýsingum um hvernig mér leið. Allt starfsfólk Landsspítalans var sömuleiðis ómetanlegt og Ragnheiður hjúkrunarkonan mín sem fylgdi mér í gegnum lyfjameðferðina var yndisleg.

Ég leyfði mér að grínast með krabbann. Þetta er minn krabbi og ég mátti alveg gera grín að honum. Segi oft að það besta sem hafi komið fyrir mig var að lenda í lyfjameðferð. Ég var alltaf með millisítt hár sem ,eftir á að hyggja, var ekkert að gera fyrir mig. En við það að missa hárið þá uppgötvaði ég að stutt fer mér bara vel og ég hætti að lita á mér hárið.

Það að missa hárið var eiginlega minna mál en ég átti von á. Ég bað Gullu mína að stytta það áður en ég byrjaði í meðferðinni svo þetta yrði minna sjokk. Þann 27. júní lét ég síðan raka af mér allt hárið þar sem það sat meir og minna eftir í burstanum og hársvörðurinn verður svo aumur. Tók smá táraflóð í nokkrar sekúndur rétt áður en skafan fór á kollinn en þegar hárið var farið þá eiginlega brá mér! Mér fannst ég sjúklega smart svona sköllótt! Ég var alltaf harðákveðin í að setja ekki upp hárkollu, fannst tilhugsunin um hárið af einhverjum öðrum á hausnum á mér ekki alveg ganga upp – fyrir mig. En ég keypti mér fullt af flottum slæðum og húfum, og svo bara naut ég þess að vera sköllótt! Bakka ekki með það að ég púllaði þetta lúkk fullkomlega. En það má ekki gleyma því að það er ekki bara hárið á hausnum á manni sem hverfur. Öll líkamshár hverfa! Sumt er fínt að losna við en ég viðurkenni að ég sá eftir augnhárunum því þau hafa svo mikilvægu hlutverki að gegna, þau grípa alls konar óþverra sem annars lendir í augunum á manni. Ég nýtti styrkinn frá Sjúkratryggingum og lét gera á mig augabrúnir svo ég yrði nú ekki alveg sviplaus.

Ég var dugleg sömuleiðis að mála mig og lagði áherslu á að líta vel út – það læknar ekki krabbann en maður lifandi hvað manni líður betur með fallegan varalit!

Ég vinn í Arion banka og ég var svo heppin að fékk að sækja vinnu eins og ég treysti mér til. Sem var ekki oft en það var samt ótrúlega gott að koma inn öðru hvoru og átta mig á því að ég gat fullt og minnið var ekki alveg farið. Chemo brain er nefnilega vel þekkt fyrirbæri og ótrúlega erfitt að upplifa að stundum náði minnið ekki milli skrefa.

Ég ferðaðist á þessum tíma sem ég var í meðferðinni – fór með góðum vinkonum til Hollands, fór í 2 ferðir tengdar vinnunni og svo var rúsínan í pylsuendanum – göngu og jóga ferð til Tenerife í febrúar 2018.

Þrekið kemur smátt og smátt. Meðan á þessu öllu stendur er maður eins og undin tuska. En svo kemur þetta hægt og rólega. Mér finnst bara mikilvægt að missa ekki trúna á að á einhverjum tímapunkti þá verði ég uppfull af krafti. Tókst reyndar í sumar að ganga 4 langar dagleiðir á Víknaslóðum fyrir austan. Hélt reyndar á fyrstu dagleiðinni að ég myndi gefast upp – en ég gafst ekki upp.

Í síðustu viku fór ég aftur í uppbyggingaraðgerð. Púði sem var settur inn í fyrra var fjarlægður og annar settur í staðinn. Þetta var ekki alveg samkvæmt áætlun en lýtalæknirinn var ekki alveg sáttur við fyrra handverk og vildi því breyta um áætlun. Nú er ég með dren í 3. skiptið, fagmaður í faginu og tek því rólega meðan saumar jafna sig.

Ég hlakka til þess tíma þegar krabbinn og allt sem honum tengist verður bara minning. Þegar ég hætti að vera smeyk við verki í höfði, að ég fari á flug og ímyndi mér allt það versta. Það er fullkomlega eðlilegt að vera hrædd og tekur tíma að ýta þessu inn í fortíðina. Sá tími kemur og þangað til þá held ég bara áfram að byggja mig upp og læra á þessa nýju útgáfu af mér.

Þema bleiku slaufunnar í fyrra var mikilvægi vinahópa. Ég var svo lánsöm að fá að taka þátt í ljósmyndaverkefni sem tengdist bleikum október þar sem ég sagði mínu sögu og hversu mikilvægur stuðningur vinkvenna væri í þessu ferli. Mér þykir ótrúlega vænt um ljósmyndasýninguna sem var í Kringlunni, þar sem ég fór vel út fyrir þægindarammann.

Þemað í ár er Þú ert ekki ein. Ég tek undir þá setningu, lærði það strax að maður fer ekki einn í gegnum svona verkefni. Maður þarf allan þann stuðning sem maður getur fengið og maður á að þiggja alla þá hjálp sem manni býðst. 

Í lokin vil ég hvetja ykkur konur til að fylgjast með heilsufari ykkar.