© Mats Wibe Lund

Austur-Húnavatnssýsla

Krabbameinsfélag Austur-Húnavatnssýslu var stofnað 2. nóvember 1968 og eru félagsmenn um 240 talsins. Á hverju ári veitir félagið styrki til að létta undir með þeim sem greinst hafa með krabbamein. Formaður stjórnar félagsins er Sveinfríður Sigurpálsdóttir.

Starfsemi 2016-2017

Félagið reiðir sig hverju sinni á íbúa í héraðinu með árlegri sölu ýmissa hluta og minningarkorta, auk félagsgjalda. Á hverju ári veitir félagið styrki til fólks til að létta undir með afleiðingum sjúkdómsins. Síðastliðið starfsár voru veittir þónokkrir styrkir, m.a. vegna rannsókna erlendis í svonefndum jáeindaskanna. Einnig var greitt fyrir dvöl í íbúðum að venju. Unnið er að gerð reglna af stjórn um hvernig skuli staðið að styrkveitingum af hálfu félagins til að auðvelda stjórninni framkvæmd þeirra. 

Stuðlað var að því og útvegaðar bleikar filmur til að lýsa upp mannvirki í októbermánuði en það voru kirkjur á Skagaströnd og Bólstaðarhlíðarkirkja, auk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Blönduósi. Það átak var okkar framlag til að minna héraðsbúa á krabbamein kvenna og varnir gegn þeim. 
Formaður sat aðalfund Krabbameinsfélags Íslands í maí 2016 og einnig haustfund svæðafélaga sem að þessu sinni var haldinn að Bakkaflöt Skagafirði. Naut hann góðs af þeirri miklu fræðslu og upplýsingum sem komu þar fram til að efla sitt eigið félag.

Sveinfríður Sigurpálsdóttir.


Var efnið hjálplegt?