Beint í efni

Vit­rænar áskor­an­ir

Áskoranir í tengslum við vitræna getu, eins og samskipti, tjáning, hugsun, lærdómur, skipulag og lausn vandamála, eru þekktar aukaverkanir krabbameins. Þau sem glíma við þunglyndi, kvíða eða minnisleysi við greiningu virðast líklegri til að upplifa vitrænar áskoranir.

Einkenni vitrænna áskorana eru t.d.:

  • Minnisleysi
  • Einbeitingarskortur
  • Minni skipulagsfærni
  • Erfiðleikar við að orða hlutina
  • Erfiðleikar við að hugsa skýrt
  • Minna þol fyrir ýmiss konar álagi og áreiti

Breytingar af þessu tagi hafa áhrif á það hvernig fólki gengur að snúa aftur í þann hversdag sem það lifði fyrir krabbameinið og krabbameinsmeðferðina.

Hjá mörgum sem upplifa vitrænar áskoranir ganga einkennin tilbaka nokkrum mánuðum eftir að meðferð lýkur. Í sumum tilfellum verða vitrænar áskoranir hinsvegar viðverandi vandamál (langvinn aukaverkun) og í einstaka tilfellum verður ekki vart við þær fyrr en töluvert eftir að meðferð lýkur (síðbúin aukaverkun).

Hvað veldur vitrænum áskorunum í tengslum við krabbamein/krabbameinsmeðferð?

Erfitt er að átta sig á hvað veldur vitrænum áskorunum. Mögulegar ástæður geta verið:

  • Andlegt álag og erfiðar tilfinningar tengdar krabbameinsgreiningu.
  • Krabbameinið sjálft.
  • Krabbameinsmeðferð, lyfjameðferð, geislameðferð og hormónameðferð. Algengast er að slíkar áskoranir komi fram í tengslum við lyfjameðferð.
  • Síðbúnar aukaverkanir á borð við krabbameinstengda þreytu, blóðleysi (lítinn fjölda rauðra blóðkorna), svefnleysi eða hormónabreytingar.
  • Depurð, kvíði og streita.

Hafa þarf í huga að breytingar eða afturför á vitrænni getu fylgja oft hækkandi aldri. Þannig getur orðið erfiðara að greina á milli þess hvort breytingarnar séu vegna aldurs eða krabbameins/krabbameinsmeðferðar. Þess vegna er auðveldara að greina áhrif á vitræna getu hjá yngra fólki.

Upplifun á vitrænum áskorunum getur verið:

  • Minni yfirsýn en áður
  • Ná ekki að hugsa jafn hratt
  • Ganga verr að koma hugsunum sínum í orð
  • Tapa þræði í hugsun eða frásögn
  • Erfiðleikar við að takast á við fleiri en eitt verkefni í einu
  • Hafa lítið andlegt úthald og finna fyrir þreytu í höfðinu
  • Heilaþoka

Að takast á við vitrænar áskoranir

Það er  hægt að takast á við vitrænar áskoranir á ýmsa vegu, til að auðvelda sér lífið og minnka áhrif þeirra í daglegu lífi:

  • Ýmiss konar „heilaleikfimi“. Leikir, gátur og spil, t.d. krossgátur, sudoku og skrafl, geta örvað hugsun og einbeitingu.
  • Nota minnislista og dagatöl til áminningar í hversdeginum.
  • Virkja rafrænar áminningar í símum og tölvum. Einnig getur verið gott að koma sér upp skipulögðum og föstum rútínum í daglegum venjum.
  • Stunda reglulega hreyfingu.
  • Huga að svefninum, svefnleysi getur gert einkennin verri.

Heimildir

www.cancer.org

https://kreftforeningen.no/om-kreft/senskader-voksne/kognitive-utfordringer/

https://www.cancer.dk/hjaelp-viden/bivirkninger-senfolger/kemohjerne/

https://www.cancer.dk/dyn/resources/File/file/4/8754/1591082450/redskabsark-koncentration-og-hukommelse.pdf

https://www.cancer.dk/dyn/resources/File/file/4/8754/1591082450/redskabsark-koncentration-og-hukommelse.pdf

https://webshop.cancer.dk/pjecer-og-information/hvis-du-har-faet-kraeft-eller-er-paroerende/boeger-video-og-dvder/2863/efter-din-kraeftbehandling-p2?_ga=2.11582263.26755975.1667821430-1145899905.1666016633

Heimildir

(á eftir að fylla út)