Kynlíf eftir krabbamein
Að greinast með krabbamein getur haft áhrif á alla þætti lífsins, þar á meðal kynlíf. Fyrir flesta er kynlíf mikilvægur hluti af tilverunni, en við krabbameinsgreiningu og meðferðir er eðlilegt að það falli í skuggann til lengri eða skemmri tíma. Orsökin getur verið líffræðileg, sálfræðileg, félagsleg eða blanda af þessu þrennu.
Sumar krabbameinsmeðferðir hafa mjög lítil áhrif á kynhvöt og getu fólks til að stunda kynlíf. Aðrar meðferðir geta haft áhrif á hvernig ákveðnir líkamshlutar virka, skaðað taugar sem liggja nálægt kynfærum eða raskað hormónajafnvægi líkamans.
Hjá konum eru meðal þekktra aukaverkana verkir við samfarir, verkir í ytri kynfærum, leggangaopi eða leggöngum, minnkuð kynlöngun, þurrkur í leggöngum, blæðingar í tengslum við kynlíf og röskun á hormónajafnvægi.
Hjá körlum eru það meðal annars risvandamál, minni kynlöngun, truflun eða skortur á sáðláti og röskun á hormónajafnvægi.
Hvað hjálpar hverjum og einum fer eftir eðli vandans. Sleipiefni, hormónalyf, kynlífstæki og stinningarlyf eru dæmi um það sem getur nýst fólki eftir krabbameinsmeðferð.
Sumir upplifa vanlíðan ef löngun og/eða geta til þess að stunda kynlíf minnkar eða hverfur. Það getur reynst erfitt að tala við maka eða heilbrigðisstarfsfólk um tilfinningar tengdar kynlífi. Þetta er oft falið vandamál sem heilbrigðisstarfsfólk minnist ekki alltaf á í tengslum við krabbameinsmeðferð.
Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að krabbameinssjúklingar fá almennt takmarkaðar upplýsingar um þau áhrif sem krabbameinsmeðferðir geta haft á kynlíf ásamt þeim stuðningi eða úrræðum sem í boði eru. Því er mikilvægt að ræða við einhvern, eins og kynfræðing, sálfræðing, lækni eða hjúkrunarfræðing, ef fólk upplifir vandamál tengd kynlífi eftir krabbameinsmeðferð.
Kynlíf og sambönd
Krabbamein og krabbameinsmeðferð veldur líkamlegum breytingum og andlegu álagi sem getur reynt mjög á náin sambönd. Í sumum tilfellum styrkjast samböndin, en í öðrum tilfellum veldur álagið vandamálum. Í kjölfar krabbameinsgreiningar og meðferðar finna margir fyrir kvíða, reiði, eirðarleysi og breyttri sjálfsmynd. Þessir þættir geta haft áhrif á samskipti, náin sambönd og kynlíf, óháð því hvort sjúkdómurinn og meðferðin hafi bein áhrif á líkamlega virkni og getu til þess að stunda kynlíf.
Kynlíf eftir krabbamein
Það getur verið stórt skref að byrja að stunda kynlíf aftur eftir krabbameinsmeðferð. Það getur líka tekið tíma að venjast líkama sem er á einhvern hátt öðruvísi en áður. Sumir eru t.d. hræddir við að meiða þegar þeir stunda kynlíf og aðrir eru hræddir við höfnun. Fyrsta skrefið er að vinna með sjálfsmyndina og viðhorfið. Það er mikilvægt að sætta sig við sjálfa/n sig, með þeim ummerkjum sem krabbameinið og meðferðin hefur skilið eftir. Hafa skal í huga að kynlíf getur verið svo margt annað en samfarir. Nánd, snerting, faðmlög og kossar eru fyrir marga ekki síður mikilvæg en samfarir.