Styrkveitingar 2017

Styrki veittir úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins árið 2017

6. maí 2017 var úthlutað í fyrsta sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 42,6 milljónir króna en hæsta styrkinn, 7,5 milljónir króna, hlaut Margrét Helga Ögmundsdóttir.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í byrjun febrúar og bárust 23 umsóknir. Umsóknirnar fóru til umfjöllunar hjá níu manna Vísindaráði Krabbameinsfélagsins sem lagði mat á gæði þeirra. Ráðið lagði til að ellefu umsóknir hlytu styrki að þessu sinni og féllst stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands á þá tillögu.  

Styrkþegar og lýsingar styrkþega á verkefnunum
 

Aðalgeir Arason sameindalíffræðingur hlaut 1.940.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Leit að erfðabreytileikum með fjölgenaáhrif á myndun brjóstakrabbameins.“ 

„Ættlæg tilhneiging til myndunar brjóstakrabbameins tengist oft genunum BRCA1 og BRCA2 en í mörgum tilvikum eru erfðaorsakir enn óþekktar. Sterk líkindi hafa sést á samspili þriggja óþekktra breytileika í einni ætt. Viðkomandi litningssvæði hafa verið raðgreind og nokkrir álitlegir breytileikar verða rannsakaðir frekar í fjarskyldum ættingjum og íslensku þýði.“ 

Dr. Birna Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og aðjúnkt hlaut 4.360.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Prófun á gagnvirku ákvörðunartæki sem aðstoðar karlmenn, sem greinst hafa með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein, við ákvarðanatöku um meðferðarleið.“ 

„Meðferðarleiðir við staðbundnu blöðruhálskirtilskrabbameini hafa mismunandi aukaverkanir. Engin ein meðferð er talin best og getur val á meðferð því valdið streitu og vanlíðan og leitt til ákvörðunar sem ekki er nægjanlega ígrunduð. Markmið okkar er að prófa gagnvirkt tæki sem veitir upplýsingar og aðstoð við þessa erfiðu ákvörðun.“

https://www.youtube.com/watch?v=csELC-uDUBQ

Dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur og prófessor hlaut 2.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Þróun meðferðarsamræðna við konur með krabbamein og maka og áhrif samræðna á aðlögun tengda kynlífi og nánd.“

„Greining og meðferð krabbameins er fyrirséður álagsvaldur í sambandi við kynlíf og nánd og skortur er á rannsóknum um þetta efni. Tilgangur doktorsverkefnisins er að þróa og meta árangur meðferðar fyrir pör þar sem konan hefur greinst með krabbamein í því skyni að efla aðlögun tengda kynlífi og nánd.“

Í myndbandinu er rætt við Jónu Ingibjörgu Jónsdóttur hjúkrunar- og kynfræðing sem vinnur að rannsókninni ásamt Dr. Erlu Kolbrúnu Svavarsdóttur. 

https://www.youtube.com/watch?v=GeE5WPYnRiE

Dr. Erna Magnúsdóttir sameindalíffræðingur og dósent hlaut 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Sameindaferlar að baki BLIMP1 og EZH2 miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum.“ 

„Um 3 milljónir einstaklinga eru greindir með Waldenströmssjúkdóm á hverju ári í heiminum, en sjúkdómurinn er ólæknandi hægfara krabbamein B-eitilfruma. Í þessu verkefni er ætlunin að kanna genastjórnun og mögulega samverkan stjórnpróteinanna BLIMP1 og EZH2 í Waldenströms-æxlisfrumum, en niðurstöður okkar benda til þess að þættirnir séu nauðsynlegir fyrir lifun frumanna og því möguleg lyfjamörk.“

https://www.youtube.com/watch?v=8V54QNVlQFw

Dr. Guðrún Valdimarsdóttir sameindalíffræðingur og lektor hlaut 6.300.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Samspil TGFβ boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma.“

„Þótt batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga séu tiltölulega góðar þá steðjar aðalógnin að mögulegri meinvarpamyndun. Markmið verkefnisins er að skilja í þaula samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma á sameindafræðilegum grundvelli m.t.t. hinnar margslungnu TGF-beta boðleiðar. Sú þekking hefur gífurlegt gildi þegar litið er til sértækra meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa sem er aðaldánarorsök krabbameins.“ 

https://www.youtube.com/watch?v=cFdVtqbNzd0
Dr. Gunnhildur Ásta Traustadóttir
 sameindalíffræðingur hlaut 2.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk Delta-like 1 homolog (DLK1) í greinóttri formgerð brjóstkirtils og brjóstakrabbameini.“

„Verkefnið miðar að því að rannsaka hlutverk stofnfrumustjórnprótínsins Delta-like 1 homolog (DLK1) í framþróun/meinvörpun krabbameina sem eiga upptök sín í stofnfrumum brjóstkirtilsins. Verkefnið miðar einnig að því að greina hvort DLK1 geti orðið nýtt lífmerki og hugsanlega lyfjamark við brjóstakrabbameini.“ 

Dr. Inga Reynisdóttir sameindalíffræðingur hlaut 2.145.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk microRNA á 8p12-p11 í framvindu brjóstakrabbameins.“

„Krabbamein í brjóstum er algengasta krabbamein kvenna á Vesturlöndum.  Breytingar í erfðaefni frumna geta leitt til brenglunar í erfðavísum sem ýta undir æxlismyndun.  Rannsóknir okkar eru á æxlisvef úr brjóstum og beinast að því hvort slíkir erfðavísar tengist klínískum eða vefjameinafræðilegum þáttum sem geta sagt fyrir um framgang brjóstakrabbameins.“ 

Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir
 lífefnafræðingur hlaut 7.500.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk sjálfsátsgensins ATG7 í þróun krabbameina.“

„Verkefnið gengur út á að skilgreina hlutverk frumusjálfsáts í myndun æxla. Við höfum greint erfðabreytileika í frumusjálfsátsgeni, sem hefur áhrif á krabbameinsáhættu. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur og mun gera okkur kleift að skoða virkni þessa erfðabreytileika í krabbameinsfrumum með það að leiðarljósi að bæta meðferðarmöguleika.“

Dr. Stefán Sigurðsson
 sameindalíffræðingur og dósent hlaut 4.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Áhrif stökkbreytinga í BRCA2 á vefjasértækni og þróun krabbameina.“

„Markmið verkefnisins er að nota CRISPR-erfðatæknina til að rannsaka tvær þekktar stökkbreytingar í BRCA2 geninu sem valda aukinni áhættu á myndun brjóstakrabbameins annars vegar og lungnakrabbameins hins vegar. Í verkefninu verður leitast við að skilgreina áhrif þessara stökkbreytinga á virkni BRCA2 próteinsins og þar með vefjasértækni þeirra.“

https://www.youtube.com/watch?v=2pig7yJh-f4

Dr. Valtýr Stefánsson Thors barnasmitsjúkdómalæknir hlaut 2.814.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Miðlægir bláæðaleggir hjá börnum með illkynja sjúkdóma, fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit með fylgikvillum.“

„Verkefnið lýtur að skráningu fylgikvilla miðlægra bláæðaleggja sem eru nauðsynlegir fyrir börn með illkynja sjúkdóma. Með ítarlegum rauntíma-gagnagrunni og reglulegum úttektum á ísetningum æðaleggjanna og fylgikvillum þeirra  er markmiðið að umönnun miðlægra bláæðaleggja hjá börnum með illkynja sjúkdóma verði sambærileg bestu sjúkrahúsa heims.“

https://www.youtube.com/watch?v=up9bg1VJzuw
Dr. Þórarinn Guðjónsson frumulíffræðingur og prófessor hlaut 4.560.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk non-coding RNAs í greinóttri formgerð og bandvefsumbreytingu þekjuvefjar í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.“

„RNA-sameindir sem ekki tjá fyrir próteinum (ncRNA) eru mikilvægar fyrir þroskun vefja en jafnframt eru þær taldar gegna mikilvægu hlutverki í tilurð og framþróun æxlisvaxtar. Í verkefninu munum við rannsaka hlutverk ncRNA í tengslum við greinótta formgerð brjóstkirtils og hvernig ncRNA-sameindir taka þátt í bandvefsumbreytingu þekjufruma en það ferli er talið nauðsynlegt fyrir ífarandi æxlisvöxt og meinvarpamyndun.“ 

https://www.youtube.com/watch?v=R62y7QtfJ2c