Hefur skimun áhrif á andlega heilsu?

Andri Steinþór Björnsson og Inga Wessman rannsaka áhrif skimunar og greiningar á forstigi mergæxlis á andlega heilsu 80 þúsund Íslendinga.

Um allan heim er skimað fyrir krabbameinum og í sumum tilfellum forstigum krabbameina, eins og gert er í rannsókninni Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum sem Sigurður Yngvi Kristinsson læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands stýrir. Að sögn þeirra Andra Steinþórs Björnssonar prófessors og Ingu Wessman doktorsnema, sem bæði eru meðal rannsakenda í rannsóknarhópnum sem stendur að Blóðskimun til bjargar, er þó lítið vitað um það hvaða áhrif slík skimun hefur á andlega heilsu og lífsgæði. Sérstaklega sé lítið vitað um langtímaáhrif, þ.e. áhrif sem gætir til lengri tíma en nokkurra mánaða eftir þátttöku í skimun.

https://youtu.be/YSUMPhD45Pc

Einstök gögn

Sérstaða gagnanna sem þau hafa í höndum er því mikil, en þau skoða einkenni kvíða, þunglyndis, áfallastreitu og streitu bæði nokkrum vikum eftir skimun, og í sumum tilfellum greiningu forstigs mergæxlis, og hálfu ári eftir skimun, ári eftir skimun og svo árlega eftir það.

Önnur sérstaða sé fjöldi þátttakenda, því yfir 80 þúsund manns tóku þátt í rannsókninni, sem er um helmingur Íslendinga 40 ára og eldri. Enda telja þau Andri og Inga sig vera með einstök gögn í höndunum:

Það er einstakt á heimsvísu að vera með svona þátttökuhlutfall, við þekkjum ekki neina rannsókn sem slær okkur við. Að líkindum er þetta stærsta klíníska rannsókn þar sem raðað er í hópa eftir slembivali (randomized controlled trial) sem gerð hefur verið.“

Fyrstu niðurstöður koma á óvart

Þau eru tilbúin til að deila fyrstu niðurstöðum, sem þau vonast til að birta í ritrýndri grein á næstunni. Þær gefa til kynna að það að greinast með forstig mergæxlis hafi ekki áhrif á kvíða, þunglyndiseinkenni og einkenni áfallastreitu tveimur vikum síðar. Þau slá þann varnagla að það eigi eftir að skoða gögnin betur, en segja að fyrirfram hefðu þau búist við að fá einhver áhrif á andlega líðan til skemmri tíma. Þannig að miðað við þessar fyrstu vísbendingar sé skimunin að hafa minni áhrif á andleg einkenni en þau bjuggust við.

Verkefnið Áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis á andlega heilsu hefur hlotið styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins í þrígang: 9,3 milljónir króna styrk árið 2020, 7,4 milljónir króna styrk árið 2019 og 5,2 milljónir króna styrk árið 2018. Styrkurinn hefur verið nýttur fyrir laun doktorsnema, tölfræðiaðstoð og nú mun nýdoktor bætast í hópinn, enda er mikil vinna framundan því þau gera ráð fyrir að birta helstu niðurstöður verkefnisins á næsta ári.

Þessi styrkur er mjög mikilvægur og mun gera okkur kleift að rannsaka áhrif skimunar og greiningar á forstigi mergæxlis á andlega heilsu, sem er mikilvæg vitneskja fyrir leitarstöðvar krabbameins í heiminum.“


Hér má lesa um niðurstöður verkefnisins: 


Við höfum birt yfirlitsgrein um áhrif skimunar á forstigi og krabbameini á andlega heilsu en samantektin sýnir að áhrifin hafa lítið verið rannsökuð og þá sérstaklega langtíma afleiðingar skimunar. Einnig höfum við birt niðurstöður um áhrif COVID á andlega heilsu sem sýna lítil sem engin áhrif fyrstu bylgju faraldursins á líðan og lífsánægju. Á næsta misseri munum við svo birta grein um andlega heilsu Íslendinga 40 ára og eldri ásamt lykilgreininni um áhrif skimunar á andlega heilsu og lífsánægju.


The half-painted picture: Reviewing the mental health impacts of cancer screening

The first wave of COVID-19 and concurrent social restrictions were not associated with a negative impact on mental health and psychiatric well-being