Legháls- og brjóstakrabbamein

Kannaðu þekkingu þína!

Hvað veistu um skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum?


Með leghálsskimun er fyrst og fremst verið að reyna að koma í veg fyrir að krabbamein nái að myndast.

Rétta svarið er: "Rétt"

Leghálsskimun gerir kleift að finna frumubreytingar sem eru ekki orðnar að krabbameini en gætu þróast yfir í það. Þá er hægt að grípa inn í og koma í veg fyrir að krabbamein nái að myndast.

Einnig veitir skimunin færi á að finna krabbameinsæxli þegar þau eru það stutt á veg komin að engra einkenna verður vart. Því fyrr sem hægt er að grípa til meðferðar því betri eru horfurnar.

Í skimun fyrir brjóstakrabbameini þreifar ljósmóðir eða læknir brjóst viðkomandi konu.

Rétta svarið er "Rangt" 

Skimunin felst í því að tekin er röntgenmynd af brjóstunum. Ef myndatakan leiðir í ljós eitthvað sem telst þurfa nánari skoðunar við er konan boðuð í frekari rannsóknir.

Leghálsskimanir fara nú fram á heilsugæslustöðvum úti um allt land.

Rétta svarið er "Rétt" 

Frá árinu 2021 hafa leghálsskimanir farið fram á Heilsugæslustöðvum út um allt land. Ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur sér um að taka sýni frá leghálsi.

Ef kona finnur fyrir einhverjum óvenjulegum breytingum í brjósti eða handarkrika ætti hún að bíða eftir næsta boði í skimun og láta vita þá af breytingunum.

Rétta svarið er "Rangt"

Brjóstaskimun eru fyrir konur sem ekki finna fyrir neinum einkennum. Ef einkenna verður vart í brjósti eða handarkrika sem eru óvenjuleg ætti að leita til læknis eða Brjóstamiðstöðvar LSH en EKKI bíða eftir næsta boði í skimun.

Einkenni sem geta bent til brjóstakrabbameins (þó að líklegt sé að eigi sér aðrar orsakir):

- Hnútur eða fyrirferð í brjósti, ofar á bringu eða í handarkrika
- Roði, hiti, bólga eða litabreytingar í húð
- Breytingar á geirvörtu, t.d. að hún hafi dregist inn
- Vökvi fer að leka úr geirvörtu
- Áferðarbreyting á húð, er t.d. ójöfn
- Breytingar á lögun eða stærð brjósts
- Útbrot, hreistrug húð eða sár sem ekki grær á geirvörtu eða kringum hana

Konur fá fyrsta boð í skimun fyrir brjóstakrabbameini þegar þær ná 55 ára aldri.

Rétta svarið er "Rangt"  

Konur fá boð í skimun fyrir brjóstakrabbameini með reglubundnum hætti frá 40 ára til 74 ára.

Konur ættu að mæta í skimun fyrir leghálskrabbameini þó að þær finni ekki fyrir neinum einkennum.

Rétta svarið er "Rétt"  

Skimun er einmitt ætluð einkennalausum konum. Leghálsskimun gerir kleift að greina, áður en einkenna verður vart:

-forstig, þannig að hægt er að koma í veg fyrir að krabbamein nái að myndast 

- mein sem eru bara skammt á veg komin, þegar góðar líkur eru á lækningu. 

Ef kona verður hinsvegar vör við einhver einkenni sem geta vakið grun um lehgálskrabbamein á hún að leita til læknis en EKKI bíða eftir næsta boði í skimun. (Einkenni geta t.d. verið óvenjulegar blæðingar, óþægindi við samfarir eða blæðingar eftir samfarir).

Eftir tíðahvörf er miklu minni ástæða fyrir konur að fara reglulega í brjóstaskimun.

Rétta svarið er "Rangt"  

Þó að aldurinn færist yfir og konur séu búnar að ganga í gegnum tiðahvörf ættu þær að mæta reglulega í brjóstaskimun (þegar þær fá boð). Í raun aukast líkurnar á að fá brjóstakrabbamein eftir því sem aldurinn hækkar fram að því að hámarki er náð um 65 ára aldur en líkurnar lækka nokkuð eftir það.

Skimun fyrir leghálskrabbameini kemur í veg fyrir að margar konur deyi af völdum þess meins.

Rétta svarið er "Rétt"  

Ef ekki væri skimað fyrir leghálskrabbameini er áætlað að að jafnaði myndu um 20 konur deyja árlega af völdum leghálskrabbameins en ekki 4-6 eins og nú er.

Aukin mæting í leghálsskimun myndi auka árangurinn enn frekar og fleiri líf bjargast.

Konur sem mæta reglulega í skimun fyrir brjóstakrabbameini þurfa ekki að þreifa brjóstin reglulega.

Rétta svarið er "Rangt"  

Mörg tilfelli brjóstakrabbameina greinast þegar konur verða sjálfar varar við breytingar á brjóstum.

Mælt er með að konur á öllum aldri skoði brjóstin reglulega. Þá átta þær sig á hvað er eðlilegt og ef eitthvað breytist frá því síðast. Þegar konur ná þeim aldri að boð um skimun fyrir brjóstakrabbameini fara að berast er mælt með að konur mæti reglulega í skimun en haldi þó áfram að fylgjast sjálfar með brjóstunum.


Þetta eykur líkur á að mein finnist áður en þau eru langt á veg komin.

Það tekur um hálfa klukkustund að taka frumusýni frá leghálsi í leghálsskimun.

Rétta svarið er "Rangt"  

Eftir að kona er komin á staðinn þar sem skimun fer fram tekur einungis örfáar mínútur að taka sýni frá leghálsi.

Skimun fyrir brjóstakrabbameini fer nú fram í Heilsugæslustöðinni í Árbæ.

Rétta svarið er "Rangt" 

Frá árinu 2021 hafa skimanir fyrir brjóstakrabbameini farið fram á Brjóstamiðstöð Landspítala, Eiríksgötu 5 og á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Leghálskrabbamein greinist aðallega hjá konum sem eru eldri en 60 ára.

Rétta svarið er "Rangt" 

Ólíkt flestum öðrum gerðum krabbameins sem greinast frekar hjá eldra fólki, finnst nálægt helmingur leghálskrabbameinstilfella hjá konum sem eru yngri en 45 ára. 

Konur á aldursbilinu 23-64 ára fá boð í leghálsskimun með reglubundnum hætti og er ráðlagt að panta tíma um leið og boð berst.

Markmið brjóstaskimunar er að greina krabbamein á byrjunarstigi áður en nokkur einkenni koma fram.

Rétta svarið er "Rétt"

Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist því ólíklegra er að meinið nái að dreifa sér og því meiri líkur eru á góðum árangri af meðferð. Þær konur sem taka reglulega þátt í brjóstaskimun eru ólíklegri til að látast úr sjúkdómnum. 

Leghálsskimun er nú næstum gjaldfrjáls en greiðsla fyrir brjóstaskimun hefur ekki lækkað.

Rétta svarið er "Rétt" 

Á heilsugæslustöðvum þarf einungis að greiða komugjald (500 kr) fyrir leghálsskimun en gjald fyrir brjóstaskimun (fer fram á Brjóstamiðstöð og á Sjúkrahúsinu á Akureyri) er kr. 5.072 og kr. 2.589 fyrir fólk á lífeyri.

Konur ættu að mæta í skimun þó þær hafi fengið HPV-bólusetningu gegn leghálskrabbameini (byrjað var að bólusetja 12 ára stúlkur á Íslandi 2011).

Rétta svarið er "Rétt" 

HPV-veirur valda nær öllum tilfellum leghálskrabbameina. Bóluefnið sem notað er hérlendis er talið veita um 70% vörn gegn leghálskrabbameini en þar sem vörnin er ekki alger ættu konur sem eru bólusettar líka að fara í skimun þegar þær fá boð.

Þátttaka kvenna á Íslandi í legháls- og brjóstaskimunum er með því allra hæsta sem gerist á Norðurlöndunum.

Rétta svarið er "Rangt" 

Þátttaka í krabbameinsskimunum á Íslandi mætti vera miklu betri og er lakari en á hinum Norðurlöndunum, sérstaklega hvað varðar brjóstaskimun.

Einungis tæplega 60% kvenna sem fá boð í brjóstaskimun taka þátt og tæplega 70% þeirra sem fá boð í leghálsskimun.

Það eru því mörg þúsund konur sem annað hvort taka ekki þátt reglulega eða alls ekki.

Skimanirnar bjarga lífi fjölda kvenna en með meiri þátttöku væri enn fleiri lífum bjargað. 

 

Konur eru eindregið hvattar til að bóka tíma þegar þær fá boð í skimun og bíða ekki með það enda dregur þátttaka úr líkunum á að deyja úr þessum meinum auk þess sem að því fyrr sem mein greinist þá getur það stuðlað að því að þörf er á umfangsminni meðferð en ef það væri komið lengra á veg.

Almennt bjóða heilbrigðisyfirvöld í löndum sem við berum okkur saman við upp á skimanir fyrir fjölmörgum tegundum krabbameina.

Rétta svarið er "Rangt" 

Í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við takmarkast krabbameinsskimanir við þrjár tegundir meina:
- Skimun fyrir leghálskrabbameini líkt og gert er hér á Íslandi
- Skimun fyrir brjóstakrabbameini líkt og gert er hér á Íslandi
- Skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini sem er í undirbúningi að verði einnig komið í framkvæmd hérlendis.

Aðeins er skimað fyrir þessum ákveðnu meinum þar sem sannanir liggja fyrir um að þau áhrif skimananna að bjarga lífi vegi mun þyngra en sá skaði sem mögulega hlýst af því að skima mikinn fjölda fólks sem langflest mun ekki fá slík krabbamein. Hugsanlega verður seinna mælt með skimun fyrir fleiri tegundum krabbameina ef rannsóknir sýna fram á nægilegan ávinning.

 


Til að fyrirbyggja ruslpóst:

Niðurstöður

{"First":{"Svar":"First","Fjöldi":"16","Niðurstaða":"first"},"Second":{"Svar":"Second","Fjöldi":"15","Niðurstaða":"second"},"Third":{"Svar":"Third","Fjöldi":"14","Niðurstaða":"third"},"Fourth":{"Svar":"Fourth","Fjöldi":"13","Niðurstaða":"fourth"}," Fifth":{"Svar":" Fifth","Fjöldi":" 12","Niðurstaða":"fifth"}," Sixth":{"Svar":" Sixth","Fjöldi":" 11","Niðurstaða":"sixth"}," Seventh":{"Svar":" Seventh","Fjöldi":" 8","Niðurstaða":"seventh"},"Default":{"Svar":"Default","Fjöldi":"0","Niðurstaða":"default"}}

Frábært, (16/16)

Frábært, þú svaraðir öllu rétt! Þú ert greinilega með hlutina á hreinu hvað varðar skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

Vel gert, (15/16)

Vel gert, þú svaraðir næstum öllu rétt og ert væntanlega ansi vel að þér í þeim málum sem snúa að skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

Vel gert, (14/16)

þú svaraðir næstum öllu rétt og ert væntanlega ansi vel að þér í þeim málum sem snúa að skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

Nokkuð gott, (13/16)

Þú svaraðir flestu rétt og veist líklega töluvert um skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

Nokkuð gott, (12/16)

Þú svaraðir flestu rétt og veist líklega töluvert um skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini en kannski kæmi sér vel að kynna sér málin aðeins betur. 

Þokkalegt, (9-11/16)

Þú svarar ýmsu rétt en kannski kæmi sér vel að kynna sér skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini aðeins betur. 

Sæmilegt, (8/16)

Þú svarar sumu rétt en kannski kæmi sér vel að kynna sér betur skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

Ekki nógu gott, (0-7/16)

Það gæti komið sér vel að kynna sér skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini betur


Var efnið hjálplegt?