Brjóstakrabbamein

Taktu prófið!

Með því að taka brjóstaprófið lærir þú að þekkja staðreyndir um krabbamein í brjóstum, sem er algengasta krabbamein hjá konum. Með því að þekkja einkenni og mæta í skoðun er oft hægt að greina sjúkdóminn á byrjunarstigi.1Brjóstakrabbamein greinist eingöngu hjá konum.

Rétta svarið er: "Rangt"

Karlar geta einnig greinst með brjóstakrabbamein og greinist um einn karl á móti hverjum hundrað konum.


2Verkir og eymsli eru algengustu einkenni brjóstakrabbameins.

Rétta svarið er: "Rangt"

Verkir og eymsli í brjóstum eru mjög algeng og langoftast af saklausum toga, t.d. vegna hormónabreytinga eða frá stoðkerfinu. Algengasta einkenni brjóstakrabbameins er eymslalaus hnútur eða þykkildi. Hnútur getur einnig greinst í handarkrika. Önnur einkenni eru inndregin húð eða brjóstvarta, exemlíkar breytingar á brjóstvörtu eða sár sem ekki grær, blóðlituð eða glær útferð úr brjóstvörtu og einstaka sinnum verður brjóstið þrútið og húð bjúgkennd. Athugið að þessi einkenni eru þó oft af saklausum toga. Til að fræðast meira um einkenni brjóstakrabbameins og hvert á að leita eru nánari upplýsingar hér.


3Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá íslenskum konum.

Rétta svarið er: "Rétt"

Á hverju ári greinast að meðaltali rúmlega 230 konur og 50 deyja af völdum þess. Nú eru um 3.400 konur og 35 karlar á lífi sem greinst hafa með brjóstakrabbamein. 

4Fjölskyldusaga og erfðir eiga lítinn þátt í þróun brjóstakrabbameins.

Rétta svarið er: "Rétt"

Talið er að erfðir eigi hlut í þróun brjóstakrabbameins hjá um 10% kvenna sem greinast með sjúkdóminn. Um 7% kvenna og um 40% karla með brjóstakrabbamein eru með stökkbreytingu í BRCA2-geni sem eykur líkur á brjóstakrabbameini. Stökkbreyting í BRCA1-geni hefur einnig fundist hér á landi en er sjaldgæf. Því fleiri nákomnir ættingjar og því yngri sem þeir eru við greiningu sjúkdómsins því meiri líkur eru á að einstaklingurinn beri meðfædda genastökkbreytingu. 

Einnig getur fjölskyldusaga skýrst af sameiginlegum umhverfisþáttum sem auka líkur á sjúkdómnum.


5Kvenhormón eiga oft þátt í myndun brjóstakrabbameins.

Rétta svarið er: "Rétt"

Sjúkdómurinn er hundraðfalt algengari hjá konum en körlum og um 75% æxlanna eru hormónajákvæð. Frjósemissaga tengist einnig tíðni brjóstakrabbameins en konur sem eiga sitt fyrsta barn fyrir 18 ára og konur sem eiga mörg börn eru í minni áhættu að fá brjóstakrabbamein. Konur sem byrja seint á blæðingum og fara á breytingaskeiðið fyrir fimmtugt eru einnig í minni hættu. Langvarandi notkun getnaðarvarnapillu og tíðahvarfahormóna eykur einnig líkur á sjúkdómnum.


6Hnútur í brjósti er oftast krabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

Flestir hnútar sem greinast í brjóstum eru af saklausum uppruna. Algengir góðkynja hnútar í brjóstum eru bandvefshnútar (fibroadenoma), belgmein (cyst), fituæxli (lipoma), fitudrep (fat necrosis) og totumyndandi æxli (intraductal papilloma). Ráðlagt er að láta lækni meta hnúta sem greinast í brjóstum. 


7Tíðni brjóstakrabbameins byrjar að hækka eftir 25 ára aldur.

Rétta svarið er: "Rétt"

Tíðni brjóstakrabbameins eykst samhliða hækkandi aldri, nær hámarki um 65 ára og lækkar aðeins eftir það. Meðalaldur við greiningu er 62 ár. Þó sjúkdómurinn sé sjaldgæfur undir fertugu þá greinast árlega rúmlega tíu einstaklingar á þeim aldri.


8 Áfengisneysla tengist ekki auknum líkum á brjóstakrabbameini. 

Rétta svarið er: "Rangt"

Asetaldehýð, sem er meginniðurbrotsefni alkóhóls í áfengi, er þekkt krabbameinsvaldandi efni.  Áfengisneysla eykur líkur á ýmsum tegundum krabbameina, þar á meðal brjóstakrabbameini. Engin örugg neðri mörk eru fyrir magn af áfengi sem neytt er og því meira sem drukkið er af áfengi því meiri er áhættan. 


9Næturvaktavinna er líklegur áhættuþáttur brjóstakrabbameins.

Rétta svarið er: "Rétt"

Vaktavinna sem felur í sér röskun á lífklukku og svefni er líklegur áhættuþáttur brjóstakrabbameins. Rannsóknir hafa sýnt að stéttir sem vinna mikið á vöktum, t.d. hjúkrunarfræðingar og flugfreyjur, eru í aukinni áhættu að fá brjóstakrabbamein.


10Regluleg hreyfing er verndandi gegn brjóstakrabbameinum

Rétta svarið er: "Rétt"

Reglubundin hreyfing getur minnkað líkur á brjóstakrabbameini hjá konum á öllum aldri og bætt lífshorfur þeirra sem greinast. Miðað er við að hreyfing feli í sér áreynslu í um 30-60 mínútur í senn, að minnsta kosti þrisvar í viku


11Einstaklingur sem lifir heilbrigðu lífi fær ekki brjóstakrabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

Þó svo að ýmsir þættir auki líkur á brjóstakrabbameini þá er yfirleitt ekki hægt að benda á neinn stakan þátt sem orsakar sjúkdóminn. Yfirleitt þarf samspil margra þátta sem margir hverjir eru óþekktir. Fólk sem er hraust og lifir heilbrigðu lífi getur þannig einnig greinst með brjóstakrabbamein. 


12Flestir sem greinast með brjóstakrabbamein læknast.

Rétta svarið er: "Rétt"

Mjög góður árangur hefur náðst í meðferð brjóstakrabbameins og um 90% eru á lífi fimm árum eftir greiningu. Konur sem eru með útbreiddan sjúkdóm hafa einnig nokkuð góðar lífshorfur því bylting hefur orðið í meðferð útbreidds sjúkdóms. Oft er hægt er að halda sjúkdómnum niðri með lyfjameðferð í áratugi. Var efnið hjálplegt?