Aðgát skal höfð í nærveru sólar

Taktu prófið

Þó sólin sé mikill gleðigjafi er nauðsynlegt að verja sig fyrir geislum hennar.  Þannig drögum við úr áhættu á húðkrabbameini og ótímabærri öldrun húðarinnar. Taktu prófið hér að neðan til að kanna þekkingu þína á því hvernig við verjum okkur fyrir sólinni.


Líklega væri hægt að koma í veg fyrir meira en 80% tilfella húðkrabbameina ef allir færu eftir ráðleggingum um sólarvarnir og enginn færi í ljósabekki

Rétt, yfirgnæfandi meirihluti allra tilfella húðkrabbameina stafar af húðskemmdum sem verða af völdum of mikillar útfjólublárrar geislunar, bæði frá sólinni og ljósabekkjum.

Á Íslandi er sólin svo dauf að sjaldan þarf að bera á sig sólarvörn nema á einstaka sólríkum dögum yfir sumarmánuðina

Rangt, í mánuðunum apríl til september getur útfjólublár stuðull (UV-index sem segir til um styrk útfjólublárra geisla) farið yfir 3 á Íslandi en við þann styrk er hætta á sólbruna ef fólk er óvarið úti í sólskini. Svo má ekki gleyma því að geislunin getur verið meiri en UV-stuðull segir til um vegna endurkasts frá umhverfi t.d. snjó eða vatni. 

Rétt er þó að geislar sólarinnar eru enn sterkari í löndum sem eru nær miðbaug en Ísland og fólk ætti ávallt að vera enn frekar á varðbergi, t.d. þegar farið er í sólarlandaferðir.

Mestu líkurnar eru á að verða fyrir húðskemmdum af völdum sólargeisla á andliti og hálsi

Rétt, þetta stafar af því að þessir líkamshlutar eru þeir sem oftast eru óvarðir fyrir geislum sólar. Einnig eru handarbök oft óvarin og axlir ef hlýtt er í veðri. Fólk ætti að huga betur að því að verja þessa líkamshluta.

Þegar skýjað er þarf ekki að huga að sólarvörnum

Rangt, umtalsverður hluti sólargeisla sleppur gegnum skýjahulu og því á einnig að nota sólarvörn þegar skýjað er.

Börn eru með ungar, öflugar húðfrumur og þola því sólargeislana mun betur en fullorðnir

Rangt, þessu er einmitt öfugt farið. Húðfrumur barna og unglinga eru viðkvæmari fyrir geislum sólarinnar og líklegri til að verða fyrir sólskaða en húðfrumur fullorðinna. 

Því fyrr á ævinni sem húð brennur, því meiri tími gefst fyrir skemmdir að hlaðast upp og líkurnar á að krabbamein myndist seinna á ævinni aukast. Þess vegna þarf að huga sérstaklega vel að sólvörnum barna og unglinga. Ungbörn eiga ekki að fá neina sól á sig.

Ef maður passar að bera á sig sólarvörn endurtekið yfir daginn er manni óhætt að vera langdvölum í sólinni

Rangt, jafnvel þó að maður passi upp á að bera sólarvörn reglulega á sig eins og mælt er með á líka að viðhafa önnur sólvarnarráð samhliða. Þau eru að vera sem mest í skugga yfir miðjan daginn þegar sólin er hæst á lofti (kl. 12-15 á Íslandi), hylja sig með fötum, nota höfuðfat með deri/börðum og sólgleraugu.

Jafnvel þeir sem eru með mjög dökka húð eiga að nota sólarvörn

Rétt, allar húðgerðir þarf að verja gegn sólinni þó að þær þoli sólina misvel. Allir geta fengið húðkrabbamein þó að sumir sé í meiri áhættu en aðrir.

Þegar fólk er komið yfir miðjan aldur er sjaldan þörf á að huga mikið að því að verja húðina þar sem ekkert er hægt að gera við þeim skemmdum sem þegar eru til staðar og litlu breytir hvort passað sé sérstaklega vel upp á húðina þaðan í frá

Rangt, þó að það sé verra að hljóta skaða vegna sólargeisla því yngra sem fólk er (þar sem þá eru enn meiri líkur á að þróa húðkrabbamein), geta frekari húðskemmdir af völdum sólar, óháð aldri fólks, líka ýtt undir krabbameinsmyndun og flýtt frekari öldrun húðarinnar.

Alltaf ætti að velja sólarvörn með SPF (sun protection factor) styrk 30 eða hærri

Rétt, almennt er mælt með að notuð sé sólarvörn með SPF styrk 30 eða hærri. Einnig þarf að gæta að því að bera nógu þykkt lag af kremi á húðina og bera endurtekið á reglulega og enn oftar þegar fólk er í vatni eða svitnar mikið. Þetta á líka við um vatnshelda sólarvörn.

Þó að fólk haldi sig algerlega í skugga úti við (t.d. undir sólhlíf), ætti samt að nota sólarvörn

Rétt, sólargeislar geta endurkastast, m.a. frá vatni, sjó, snjó og sandi þrátt fyrir að fólk haldi sig í skugga.

Gott er að fara í ljósatíma snemma að vori til að undirbúa húðina fyrir komandi sólartíð, þá er maður búinn að koma sér upp brúnum húðlit sem ver húðina svo fyrir sólskaða

Rangt, útfjólubláir geislar ljósabekkja skaða húðina rétt eins og geislar sólarinnar. Enginn ætti að stunda ljósaböð í ljósabekkjum. Þegar húð hefur tekið á sig lit er það í raun merki um að húðin hafi orðið fyrir skaða og það er ekki vörn gegn frekari húðskaða sem flýtir öldrun húðarinnar og eykur líkur á húðkrabbameini.

Sólarvörn ætti að bera á um leið og farið er út í sólina

Rangt, þar sem það tekur tíma fyrir sólarvörn að fara inn í húðina og veita þá vörn sem henni er ætlað er best að bera hana á um hálftíma áður en haldið er út.

Það þarf að vera lengi í sólskini yfir sumarmánuðina á Íslandi til húðin myndi nóg D-vítamín

Rangt, það þarf bara að vera 10-20 mínútur óvarinn í sólinni með uppbrettar ermar til að fá ráðlagðan dagskammt af D-vítamíni. Hins vegar er öruggast að láta sólarvarnir vera í forgangi en passa upp á það að fá nóg D-vítamín úr matnum og/eða bætiefnum (t.d. D-vítamíntöflum) allt árið um kring. D-vítamínríkur matur er m.a. lýsi, feitur fiskur, egg og ákveðnar fæðutegundir sem eru með viðbættu D-vítamíni. 

Sólarljós samanstendur af mismunandi geislum og af þeim geta tvær tegundir útfjólublárra geisla (UVA og UVB) skaðað húðina. Gæta þarf að því að nota sólarvörn sem verndar gegn báðum gerðunum.

Rétt, bæði UVA og UVB-geislar geta valdið húðskemmdum. UVB-geislar geta valdið sólbruna sem fólk finnur fyrir en þó að UVA-geislar valdi ekki bruna geta þeir samt valdið skemmdum og m.a. flýtt fyrir öldrun húðarinnar. Húðskemmdir, hvort sem er af völdum UVB eða UVA-geisla, geta leitt til húðkrabbameins. Því er mikilvægt að nota sólarvörn sem verndar bæði gegn UVB og UVA-geislum.


Til að fyrirbyggja ruslpóst:

Niðurstöður

{"First":{"Svar":"First","Fjöldi":"14","Niðurstaða":"first"},"Second":{"Svar":"Second","Fjöldi":"12","Niðurstaða":"second"},"Third":{"Svar":"Third","Fjöldi":"9","Niðurstaða":"third"},"Fourth":{"Svar":"Fourth","Fjöldi":"6","Niðurstaða":"fourth"},"Default":{"Svar":"Default","Fjöldi":"0","Niðurstaða":"default"}}

Frábært, (14/14)

Frábært, þú svaraðir öllu rétt! Þú veist greinilega ýmislegt um sólarvarnir.  Það er gott, enda dregur skynsamleg hegðun í sólinni úr líkum á húðkrabbameini og ótímabærri öldrun húðarinnar.

Hægt er að lesa nánar um rétt svör með því að loka þessum glugga.

Vel gert, (12-13/14)

Vel gert, þú svaraðir næstum öllu rétt og veist greinilega ýmislegt um sólvarnir! Það er gott, enda dregur skynsamleg hegðun í sólinni úr líkum á húðkrabbameini og ótímabærri öldrun húðarinnar.

Hægt er að lesa nánar um rétt svör með því að loka þessum glugga.

Nokkuð gott, (9-11/14)

Þú svaraðir þó nokkru rétt en það gæti komið sér vel fyrir þig að kynna þér betur hvernig verjast má geislum sólarinnar. Þeir sem fylgja ráðleggingum um skynsamlega hegðun í sólinni draga úr líkum á húðkrabbameini og ótímabærri öldrun húðarinnar. 

Hægt er að lesa nánar um rétt svör með því að loka þessum glugga.

Þokkalegt, (6-8/14)

Þú svaraðir sumu rétt en það gæti líklega komið sér vel fyrir þig að kynna þér betur hvernig verjast má geislum sólarinnar. Þeir sem fylgja ráðleggingum um skynsamlega hegðun í sólinni draga úr líkum á húðkrabbameini og ótímabærri öldrun húðarinnar. 

Hægt er að lesa nánar um rétt svör með því að loka þessum glugga.

Ekki nógu gott, (0-5/14)

Þú ættir að kynna þér betur hvernig verjast má geislum sólarinnar. Þeir sem fylgja ráðleggingum um skynsamlega hegðun í sólinni draga úr líkum á húðkrabbameini og ótímabærri öldrun húðarinnar. 

Hægt er að lesa nánar um rétt svör með því að loka þessum glugga.


Var efnið hjálplegt?