Aðalfundur 4. maí 2019

Hér að neðan er að finna ýmis gögn vegna aðalfundar Krabbameinsfélags Íslands 4. maí 2019.

Dagskrá fundarins

Samkvæmt lögum félagsins skulu þessi mál tekin fyrir á aðalfundi:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið starfsár.
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
  3. Skýrslur aðildarfélaga.
  4. Lagabreytingar.
  5. Stjórnarkjör.
  6. Tveir endurskoðendur kosnir og einn til vara.
  7. Fimm menn kosnir í uppstillingarnefnd.
  8. Önnur mál.

Tillögur að fundarstjóra og ritara fundarins

Fundarstjóri: Guðmundur Pálsson, vefstjóri Krabbameinsfélags Íslands 

Ritari: Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands

Skýrsla stjórnar

Skýrslur aðildarfélaga

Áritaðir reikningar félagsins

Kjör til stjórnar og kjör endurskoðenda

Frá uppstillingarnefnd:

Uppstillingarnefnd Krabbameinsfélags Íslands hefur unnið samkvæmt vinnureglum félagsins um kjör í stjórn félagsins og kosningu félagslegra endurskoðenda (skoðunarmanna), sem voru samþykktar á aðalfundi félagsins 13. maí 2006. Á aðalfundi 2019 þarf að kjósa formann félagsins, þrjá aðalmenn til tveggja ára og tvo varamenn í stjórn til eins árs auk þriggja endurskoðenda (skoðunarmenn) þar af einn til vara.

Nefndin leggur eftirfarandi tillögu sína um kjör í stjórn félagsins beint fyrir aðalfund þann 4. maí 2019:

Formaður:

  • Valgerður Sigurðardóttir, læknir

Aðalmenn:

  • Árni Einarsson, uppeldisfræðingur
  • Halldóra Björg Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis
  • Sigríður Zoëga, hjúkrunarfræðingur

Árni gefur kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn félagsins. Hann var fyrst kosinn í stjórn félagsins árið 2014. Sigríður gefur nú í fyrsta sinn kost á sér í stjórn félagsins en hún var kjörin varamaður í stjórn árið 2017 og endurkjörin árið 2018.

Halldóra Björg Sævarsdóttir gefur nú kost á sér í stjórn Krabbameinsfélags Íslands í fyrsta sinn.

Dora_KaonÉg heiti Halldóra Björg Sævarsdóttir og er textílkennari með mastersgráðu í List- og verkmenntun.

Gerðist sjálfboðaliði hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis haustið 2013 þar sem ég hélt utan um opið hús fyrir konur sem greinst hafa með krabbamein og í framhaldi af þeirri vinnu vann ég mastersverkefnið mitt árið 2014 um "Gildi skapandi handverks fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein".

Hef verið starfsmaður félagsins síðan vorið 2014 og er nú framkvæmdastjóri í 100% stöðu.

Bý á Akureyri, gift og á 3 börn

Varamenn:

  • Hildur Björk Hilmarsdóttir, viðskiptafræðingur, stofnandi Krafts
  • Svanhildur Inga Ólafsdóttir, félagsráðgjafi, formaður Krabbameinsfélags Árnesinga.

Hildur Björk Hilmarsdóttir gefur nú kost á sér sem varamaður í stjórn Krabbameinsfélags Íslands í fyrsta sinn.

Hildur_bjorkHildur Björk Hilmarsdóttir stofnaði Kraft á sínum tíma, árið 1999, eftir að hún sjálf greindist með bráðahvítblæði og kom að uppbyggingu frá fyrstu árum félagsins. Hildur vann einnig sem söfnunarstjóri Landssöfnunar Krabbameinsfélagsins 3. mars 2001 og vann síðan sem verkefnastjóri á samskiptasviði KÍ í 3 ár. Það starf fólst í að fræða og aðstoða aðildarfélög KÍ við að stofna stuðningshópa og efla tengsl aðildarfélaganna við KÍ og ýmsum öðrum verkefnum. Hildur er því kunn störfum beggja félaganna.

Hildur starfar í dag sem vörustjóri hjá Stuðlabergi heilbrigðistækni sem selur hjálpartæki. Hildur hefur meðal annars starfað hjá Össuri og núna síðasta hjá Rauða krossinum sem sviðsstjóri Samskiptasviðs áður en hún hóf störf hjá Stuðlabergi.

Svanhildur Inga Ólafsdóttir gefur nú kost á sér sem varamaður í stjórn Krabbameinsfélags Íslands í fyrsta sinn.

SVANHILDURÉg heiti Svanhildur Ólafsdóttir og er ný orðin 40 ára. Ég er gift Ölver Jónssyni flugstjóra og flugrekstrarstjóra Flugfélagsins Ernir í Reykjavík. Við eigum fimm börn á aldrinum 7 til 20 ára, tvo stráka og þrjár stelpur. Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en hef búið á Selfossi frá árinu 1989. 

Ég er menntaður félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur og í sumar verð ég komin með réttindi sem sáttamiðlari.

Ég hef starfað í barnavernd og í starfsendurhæfingu en frá árinu 2016 hef ég rekið mitt eigið fyrirtæki, Velferð á Selfossi, þar sem ég sinni ýmsum verkefnum fyrir félagsþjónustur auk samtalsmeðferðar fyrir einstaklinga, pör/hjón og fjölskyldur.

Ég hef verið formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu frá vori 2016. Inn í þann félagsskap fór ég eftir að hafa sjálf greinst tvívegis með brjóstakrabbamein og gengið í gegnum strangar meðferðir við því. Ég finn að ég brenni fyrir málstaðnum og vill gefa mig alla í verkefnin sem tengjast félaginu. 

Ég hlakka til að starfa í stjórn Krabbameinsfélags Íslands.

Félagskjörnir endurskoðendur (skoðunarmenn)

  • Birna Guðmundsdóttir
  • Jón Auðunn Jónsson
  • Ólafur Dýrmundsson (varamaður)

Birna, Jón Auðunn og Ólafur gefa áfram kost á sér sem félagskjörnir endurskoðendur. Birna og Jón Auðunn voru fyrst kosin árið 2014 og Ólafur árið 2017.

Kjör fimm manna í uppstillinganefnd

Friðrik Vagn Guðjónsson, Guðrún Sigurjónsdóttir og Kristín Auður Sophusdóttir gefa kost á sér til áframhaldandi starfa í uppstillingarnefnd. Þau voru öll kjörin í uppstillingarnefnd í fyrsta sinn í fyrra. 

Auk þeirra gefa kost á sér til starfa í uppstillingarnefnd: 

Þráinn Þorvaldsson. Þráinn Þorvaldsson er fæddur á Akranesi 1944. Hann er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1964, viðskiptafræðingur frá HÍ 1969 og með Master próf í markaðs- og sölufræðum frá University of Lancaster í Bretlandi 1974. Þráinn hefur einkum starfað að markaðs- og útflutningsmálum m.a. framkvæmdastjóri Loðskins hf á Sauðárkróki, framkvæmdastjóri ullarvöruútflutningsfyrirtækisins Hildu hf, fyrsti framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Ísland, framkvæmdastjóri matvælaframleiðandans Íslensks fransks eldhúss og síðast fyrir starfslok einn af stofnendum og framkvæmdastjóri náttúruvöru framleiðandans SagaMedica ehf. Þráinn hefur setið í fjölda nefnda og stjórna á starfsævi sinni. M.a. sat hann 28 ár í sóknarnefnd Bústaðakirkju og 20 ár í skólanefnd Tónlistarskólans í Reykjavík. Þráinn greindist með BHKK árið 2005 og valdi Virkt eftirlit í stað meðferðar. Hann hefur í fimm ár leitt stuðningshóp þeirra manna sem eru í sömu sporum og nefnist Frískir menn og er nýr formaður Krabbameinsfélagsins Framfarar. Eiginkona Þráins er Elín G. Óskarsdóttir viðskiptafræðingur og eiga þau 3 börn á lífi og 8 barnabörn. 

Kristján Freyr Helgason. Kristján Freyr Helgason greindist með colitis ulcerosa árið 1993 og hefur verið félagi í Stómasamtökum Íslands frá árinu 1994. Hann var formaður samtakanna á árabilinu 2003-2007 og starfaði þá í krafti þess embættis innan Krabbameinsfélags Íslands og Öryrkjabandalagsins. Kristján hefur frá árinu 2008 starfað sem sérfræðingur á sviði fiskveiðistjórnunar, fyrst hjá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og síðan hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Á árunum 2015 – 2018 var hann fulltrúi ráðuneytisins við sendiráð Íslands í Brussel.

Heiðursráð Krabbameinsfélags Íslands

Bókun úr fundargerð stjórnar Krabbameinsfélags Íslands 2. apríl 2019: 

„Kjör í Heiðursráð KÍ. Stjórn KÍ samþykkti samhljóða kjör þeirra Þórunnar Rafnar, sem var fyrsti formaður Vísindaráðs félagsins og Sigrúnar Gunnarsdóttur, fyrrverandi formanns félagsins."

Fundargerð aðalfundar 2018

 

 


Var efnið hjálplegt?