Aðalfundur 21. maí 2022

Hér að neðan er að finna gögn vegna aðalfundar Krabbameinsfélags Íslands 21. maí 2022.

 

Aðalfundarboð


Dagskrá fundarins


Kl. 9:30
Léttur morgunverður.

Kl. 10:00 Málþing: Krabbameinsáætlun, á áætlun?

Kl. 12:00 Hádegisverður fyrir aðalfundarfulltrúa.

Kl. 13:00 Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands.

Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins

1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið starfsár.

2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.

3. Skýrslur aðildarfélaga lagðar fram til kynningar.

4. Kynning á starfs- og fjárhagsáætlun til tveggja ára.

5. Lagabreytingar.

6. Stjórnarkjör.

7. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.

8. Kosning fimm manna uppstillingarnefndar.

9. Önnur mál.

Tillögur að fundarstjóra og ritara fundarins

 

  • Fundarstjóri: Kristján B. Thorlacius.
  • Fundarritari: Eva Íris Eyjólfsdóttir.

Skýrsla stjórnar

 
Ársskýrsla 2021.

Endurskoðaðir reikningar félagsins


Ársreikningurinn er endurskoðaður, samþykktur af stjórn, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins og félagskjörna skoðunarmenn og lagður fram til samþykktar aðalfundar.

Skýrslur aðildarfélaga

 
Ársskýrslur aðildarfélaga Krabbameinsfélags Íslands 2021 (PDF).

Kynning á starfs- og fjárhagsáætlun til tveggja ára


Starfs- og fjárhagsáætlun til tveggja ára (PDF).  

Lagabreytingar


Tillögur stjórnar Krabbameinsfélags Íslands til breytinga á lögum félagsins (PDF).

Stjórnarkjör


Frá uppstillingarnefnd:

Uppstillingarnefnd Krabbameinsfélags Íslands hefur unnið samkvæmt vinnureglum félagsins um kjör í stjórn félagsins og kosningu félagslegra endurskoðenda (skoðunarmanna), sem voru samþykktar á aðalfundi félagsins 13. maí 2006.

Á aðalfundi 2022 þarf að kjósa tvo meðstjórnendur í stjórn félagsins, til tveggja ára, tvo varamenn í stjórn til eins árs auk þriggja endurskoðenda (skoðunarmenn) þar af einn til vara.

Nefndin leggur eftirfarandi tillögu sína um kjör í stjórn félagsins beint fyrir aðalfund þann 21. maí 2022:

Meðstjórnendur til tveggja ára:

Vigdís Stefánsdóttir, erfðaráðgjafi

Vigdis-StefansdottirVigdís er fædd árið 1956 og útskrifaðist með meistaragráður í erfðaráðgjöf frá Cardiff háskóla 2006 og Háskóla Íslands með doktorspróf 2019. Hún hefur gegnt starfi erfðaráðgjafa við Landspítala frá 2006 og var lengst af eini erfðaráðgjafi landsins. Stærsti hluti starfsins er og hefur verið erfðaráðgjöf tengd krabbameinum og hluti af starfinu hefur verið að byggja upp kerfi þar sem notaður er ættfræðigrunnur og upplýsingar úr Krabbameinsskrá til að gera rafræn ættartré en Ísland er eina landið í heiminum þar sem slíkt er gert. Í tengslum við starf á LSH og vísindarannsóknir er Vigdís í erlendum nefndum og samstarfshópum. 


Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur

Vilhjalmur-Egilsson-2Vilhjálmur er doktor í hagfræði. Hann á langan starfsaldur að baki og hefur gegnt mörgum ábyrgðarstörfum. Hann starfaði sem hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins, var framkvæmdastjóri Verslunarráðs og Samtaka atvinnulífsins, alþingismaður frá 1991 til 2003, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og síðast rektor Háskólans á Bifröst frá 2013 til 2020. Hann hefur langa reynslu af stjórnarstörfum í fjölda fyrirtækja og sjóða og félagasamtaka og hefur gegnt formennsku í fjölmörgum nefndum á vegum Alþingis. Hann situr í nú í ýmsum nefndum og starfshópum á vegum hins opinbera. Vilhjálmur er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki, kvæntur Ragnhildi Pálu Ófeigsdóttur. Þau eiga fjögur börn og sex barnabörn. 

Varamenn til eins árs

Gisli-AlfgeirssonHildur-Baldursdottir

Gísli Álfgeirsson og Hildur Baldursdóttir, sem voru kjörin varamenn í stjórn á síðasta aðalfundi gefa bæði kost á sér til endurkjörs. 

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara


Birna Guðmundsdóttir, Jón Auðunn Jónsson og Ólafur Dýrmundsson gefa öll kost á sér til áframhaldandi starfa sem skoðunarmenn reikninga.

Birna og Jón Auðunn voru fyrst kosin árið 2014 og Ólafur árið 2017.

Skoðunarmenn reikninga til eins árs:

  • Birna Guðmundsdóttir.
  • Jón Auðunn Jónsson.

Skoðunarmaður, til eins árs, til vara:

  • Ólafur Dýrmundsson.

Kjör fimm manna í uppstillingarnefnd

Guðjón Hauksson, Jón Þorkelsson og Ragnheiður Davíðsdóttir gefa öll kost á sér til áframhaldandi starfa í uppstillingarnefnd.

Guðjón var kjörinn í nefndina árið 2021, Ragnheiður árið 2020 og Jón árið 2021.

Auk þess gefur kost á sér til starfa í uppstillingarnefnd:

  • Ragnar Davíðsson, viðskiptafræðingur. Ragnar er formaður Nýrrar raddar og þekkir vel til Krabbameinsfélagsins eftir langt og farsælt starf með félaginu.
  • Sigrún Lillie Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Sigrún hefur nýlokið störfum sem sérfræðingur og forstöðumaður ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins til fjölda ára. 

Önnur mál

 

Styrkleikarnir á Selfossi 30. apríl til 1. maí


Myndband af Styrkleikunum 2022.

Tillaga stjórnar Krabbameinsfélags Íslands fyrir aðalfund félagsins 2022

 

Fjáröflunarráð Krabbameinsfélags Íslands, sem stofnað var á aðalfundi árið 2004 verði lagt niður.

Í staðinn verður fjáröflun fastur liður á dagskrá að minnsta kosti eins formannafundar á ári. Markmiðið er að efla fjáröflun félaganna, bæði að umfangi og gæðum.

Breytt verklag vegna þessa þarf að þróa í góðri samvinnu Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga en til bráðabirgða er gert ráð fyrir, líkt og rætt var á formannafundi 4. apríl sl. að:

Félögin skuldbindi sig til að senda fjáröflunarstjóra KÍ hugmyndir sínar að fjáröflun á landsvísu fyrir 1. nóvember ár hvert. Fjáröflunarstjóri kynnir hugmyndirnar á stjórnarfundi KÍ. Stjórn tekur hugmyndirnar fyrir, vinnur frekar í samráði við aðildarfélögin, gerir athugasemdir eða samþykkir óbreyttar, út frá þeim sjónarmiðum að hagsmunir allra séu virtir, yfirsýn allra tryggð, og mestur árangur náist. Yfirlit yfir fjáraflanir á landsvísu er kynnt aðildarfélögum í síðasta lagi eftir desemberfund stjórnar.

KÍ safnar saman á ári hverju upplýsingum um fjáraflanir félaga og árangur þeirra og gerir grein fyrir á formannafundi.

Til samræmis við tillöguna er lögð fram tillaga til breytinga á lögum félagsins.

Rökstuðningur:

Fjáröflun er forsenda fyrir starfi Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga þess. Markmið félaganna, sem miða að því að fækka þeim sem fá krabbamein, að fjölga lifendum og bæta lífsgæði þeirra og aðstandenda eru metnaðarfull. Til að ná árangri þarf að beita fjölbreyttum leiðum og verkefnin eru óþrjótandi. Öllu máli skiptir því að fjáröflun gangi vel og miðist alltaf að því að stækka heildarkökuna.

Til að svo megi verði þarf að vanda mjög til verka, gæta að orðspori, verjast svikastarfsemi, vera skapandi og finna nýjar leiðir, svo eitthvað sé nefnt.

Fjáröflunarráð Krabbameinsfélags Íslands var stofnað árið 2004. Síðan hefur margt vatn runnið til sjávar.

Tillaga stjórnar KÍ fyrir aðalfund félagsins 21. maí 2022 tekur mið af umræðu á formannafundi KÍ sem haldinn var þann 4. apríl 2022.

Tilkynning um nýtt aðildarfélag


Perluvinir, félag um mergæxli hefur sótt um aðild að Krabbameinsfélagi Íslands. Stjórn Krabbameinsfélagsins staðfesti á fundi sínum þann 25. apríl sl. að félagið uppfyllir skilyrði um aðild að Krabbameinsfélaginu og fagnar inngöngu þess í Krabbameinsfélagið.

Krabbameinsfélag Íslands
Skógarhlíð

Umsókn um aðild að Krabbameinsfélaginu

Perluvinir félag um mergæxli á Íslandi sækir hér með um aðild að Krabbameinsfélagi Íslands. Perluvinir voru formlega stofnaðir sem félag 11. október 2015. Félagið hefur þann tilgang að gæta hagsmuna þeirra sem greinst hafa með mergæxli. Áður en félagið var formlega stofnað hafði hópur, sem kallaði sig Perluvini, hist reglulega í Perlunni um nokkurra ára skeið. Þótt Perluvinir séu nú formlegt félag þá starfar hópurinn áfram fyrst og fremst sem stuðningshópur við þá sem greinst hafa með mergæxli. Nú eru 75 skráð í Perluvini, 61 sem greinst hafa með mergæxli og 13 aðstandendur.

Perluvinir eru aðilar að Alþjóðasamtökum um mergæxli, International Myeloma Foundation (IMF), frá 2015 og Evrópusamtökum mergæxlis sjúklinga, European Patients Europe frá 2019.

Perluvinir halda að jafnaði fundi einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Fundirnir eru fyrst og fremst hugsaðir sem stuðningur við þá sem á þurfa að halda innan hópsins en öðru hvoru eru fengnir fyrirlesarar til að upplýsa um ný lyf, meðferðir eða annað áhugavert sem tengist mergæxli. Frá árinu 2016 hafa verið haldnar ráðstefnur árlega í samvinnu við IMF, HÍ og Landspítala. Upplýsingar um dagskrá er að finna á krabb.is/myeloma. Krabbameinsfélagið hefur stutt Perluvini í gegnum árin m.a. með gerð vefsíðu og viðhald á henni sem og hýsingu á vef Krabbmeinsfélagsins krabb.is/myeloma. Auk þess höfum við fengið aðstöðu til að halda fundi í húsnæði félagsins og aðstoð við Zoom-fundi á Covid tímum.

F.h. Perluvina

Kristín Einarsdóttir Kjartan Gunnarsson

Tillaga stjórnar Krabbameinsfélags Íslands til aðalfundar 21. maí 2022


Á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands sem haldinn var á Selfossi þann 29. maí 2021 var lýst yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala, þar sem flestir fá lyfjameðferð. Aðalfundur samþykkti að Krabbameinsfélagið veitti allt að 450 milljónum til byggingar nýrrar dagdeildar, að því gefnu að stjórnvöld settu verkefnið í forgang þannig að taka mætti nýja deild í notkun árið 2024.

Ekkert liggur fyrir um framtíðarhúsnæði dagdeildarinnar.

Af viðbrögðum stjórnvalda við samþykkt aðalfundar á því ári sem er liðið, er ljóst að framlag félagsins skiptir ekki máli fyrir framgang verkefnisins.

Krabbameinsfélagið mun áfram beita sér fyrir að aðstaða fyrir krabbameinsmeðferð verði fyrsta flokks, fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk.

Samþykkt aðalfundar félagsins frá 2021 er fallin úr gildi. Aðalfundur Krabbameinsfélagsins felur stjórn félagsins að nýta ofangreinda fjármuni til framgangs markmiða félagsins. 

Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélags Íslands


Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins var veitt í fyrsta sinn á aðalfundinum. Viðurkenninguna hlutu þær Jónína Edda Sævarsdóttir, forsprakki undirskriftasöfnunar vegna breytinga á skimunum fyrir brjóstakrabbameini, Elín Sandra Skúladóttir, formaður Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og Erna Bjarnadóttir forsprakki hópsins Aðför að heilsu kvenna fyrir að stíga fram og skapa vettvang fyrir fólkið í landinu til að sýna í orði og verki að skimanir fyrir krabbameinum skipta máli.


 Var efnið hjálplegt?