© Mats Wibe Lund

Suðausturland

Krabbameinsfélag Suðurausturlands var stofnað 21. apríl 1970 og endurvakið 1. október 2002. Félagsmenn voru um 150 talsins. Félagið styrkir einstaklinga sem dvelja þurfa langdvalar í Reykjavík vegna krabbameinsmeðferðar. Formaður félagsins er Snæfríður Svavarsdóttir. 

Starfsemin 2019-2020

Félagið styrkir einstaklinga sem dvelja þurfa langdvölum í Reykjavík vegna krabbameinsmeðferðar.

Starfsemin 2019-2020

Aðalfundur var haldinn þann 28. maí 2019. Ólöf Óladóttir hætti í stjórn og sæti hennar tók Guðmundur Heiðar Gunnarsson. Hjálmar Jens Sigurðsson hætti einnig í stjórn og sæti hans tók Helena Bragadóttir. Ólöfu og Hjálmari er þakkað gott samstarf árin á undan.

Bleikur október

Sunnudaginn 13. október var bleik helgistund í Hafnarkirkju þangað sem gestir mættu í bleiku. Sr. Gunnar Stígur Reynisson sá um athöfnina. Guðrún Dadda Ásmundardóttir flutti hugvekju. Að lokinni messu var boðið upp á kaffi og kökur og spjall. Frjáls framlög bárust félaginu að athöfn lokinni.

Af ýmsum ástæðum frestaðist fræðslukvöldið sem átti að vera í október og var í staðin haldið þann 28. nóvember, en það kom ekki að sök. Erna Magnúsdóttir frá Ljósinu kom til okkar og var með frábæran fyrirlestur. Að honum loknum var spurningum svarað og voru auk Ernu í panel, þrjár konur frá Höfn sem allar eiga það sameiginlegt að hafa greinst með krabbamein. Þetta voru þær Guðlaug Hestnes, Helena Bragadóttir og Heiðrún Högnadóttir og er stjórnin þeim öllum afar þakklát fyrir þeirra framlag. Mæting á fræðslufundinn var góð og voru bæði gestir og viðmælendur á því að kvöldið hefði í alla staði verið mjög vel heppnað.

Fundur hjá KÍ

Þann 22. nóvember 2019 fór formaður á fund hjá Krabbameinsfélagi Íslands sem haldinn var í Skógarhlíðinni. Þar var fjallað um ásýnd og áherslur félagsins í ljósi breyttra aðstæðna.

Mottumars

Vegna Covid-19 féll niður fræðsla sem var í undirbúningi vegna mottu-mars en vonandi munum við geta nýtt okkur þann undirbúning síðar.

Styrkir til félagsins

Þann 1. desember 2019 stóð Félag eldri Hornfirðinga fyrir jólatónleikunum ,,Undir Vatnajökli“ í Hafnarkirkju og þann 20. desember stóð Karlakórinn Jökull fyrir jólatónleikum í kirkjunni. Allur ágóði beggja þessara tónleika rann óskiptur til Krabbameinsfélags Suðausturlands og er stjórnin afar þakklát fyrir.

Fræðsla og fleira

Góð mæting er á fræðslufundi sem félagið stendur fyrir og ávallt vel tekið á móti okkar fólki þegar fjáraflanir eru í gangi. Fyrirtæki og einstaklingar standa einnig þétt við bakið á félaginu með fjárstuðningi og styrkveitingum.

Gott samstarf er á milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Hornafirði og félagsins með áherslu á forvarnir og fræðslu. Veittir hafa verið styrkir til einstaklinga. Greiðir félagið jafnframt leiguhluta einstaklinga í krabbameinsmeðferð, hvort sem dvalið er í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða gist á Sjúkrahótelinu meðferðardagana. Krabbameinsfélag Suðausturlands er með eigin minningarkort.

Aðalfundi frestað

Vegna Covid-19 var aðalfundi félagsins sem auglýstur var þann 17.mars, frestað. Hann mun verða settur á um leið og leyfilegt verður.

6. maí 2020
F.h. stjórnar
Snæfríður Svavarsdóttir,
formaður Krabbameinsfélags Suðausturlands.


Starfsemin 2018-2019

Félagið styrkir einstaklinga sem dvelja þurfa langdvölum í Reykjavík vegna krabbameinsmeðferðar.

Aðalfundur var haldinn þann 20. apríl 2018. Þórhildur Kristjánsdóttir hætti í stjórn og sæti hennar tók undirrituð. Þórhildi er þakkað gott samstarf árin á undan.

Bleikur október

Sunnudaginn 7. október var bleik helgistund í Hafnarkirkju þangað sem gestir mættu í bleiku. Sr. María Rut Baldursdóttir var prestur í messunni. Formaður félagsins kynnti starfsemi Krabbameinsfélagsins, bæði Íslands og Suðausturlands. Að stund lokinni bauð Pakkhúsið upp á súpu og brauð. Frjáls framlög bárust félaginu að athöfn lokinni.

Fræðslukvöld var haldið fimmtudagskvöldið 27. október í sal Ekru. Arnar Hauksson dr. med. var með fræðslu um kvenheilsu og krabbamein og var að venju góð mæting og þátttaka kvenna hér á svæðinu. Sr. María kom og spilaði á fiðluna sína og söng fyrir gestina.

Mottumars

Þriðjudaginn 19. mars stóð félagið hér fyrir vel heppnuðu fræðslukvöldi í sal Ekru. Jóhann Johnsen læknir var með fræðsluerindi fyrir karla var vel mætt. Karlakórinn Jökull tók lagið fyrir gesti.

Fræðsla og fleira

Góð mæting er á fræðslufundi sem félagið stendur fyrir og ávallt vel tekið á móti okkar fólki þegar fjáraflanir eru í gangi. Fyrirtæki og einstaklingar standa einnig þétt við bakið á félaginu með fjárstuðningi og styrkveitingum. 

Gott samstarf er á milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Hornafirði og félagsins með áherslu á forvarnir og fræðslu. Veittir hafa verið styrkir til einstaklinga. Greiðir félagið jafnframt leiguhluta einstaklinga í krabbameinsmeðferð, hvort sem dvalið er í íbúðum Krabbameinsfélagsins eða gist á Sjúkrahótelinu meðferðardagana. Krabbameinsfélag Suðausturlands er með eigin minningarkort.

Snæfríður Svavarsdóttir, formaður 


Var efnið hjálplegt?