© Mats Wibe Lund

Skagafjörður

Krabbameinsfélag Skagafjarðar var stofnað 12. júní 1996 og eru félagsmenn um 500 talsins. Þjónustuskrifstofa er á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Starfsmaður er María Reykdal og formaður félagsins er Dalla Þórðardóttir. Stuðningshópur félagsins heitir Dugur. 

Starfsemi 2019

Stjórn félagsins er samhentur hópur og hefur áralanga reynslu af samstarfi. Enginn hefur, að vitað sé, sótt að sæti nokkurs stjórnarmanns um árabil, enda hefur það ekki legið á lausu. Stjórnin hittist óreglulega til funda þegar erindi krefjast þess en oftar er fundað í gegnum síma eða með tölvupósti.

Starfsmaðurinn María Reykdal er andliti félagsins og leysir úr fjölmörgum erindum fólks, en reynsla hennar svo og þekking bæði á málum félagsins sem og innviðum KÍ er ákaflega dýrmæt. Algengustu spurningar þeirra sem til hennar leita varða upplýsingar um aðstoð vegna gistingar þegar fólk þarf að leita sér lækninga fjarri heimabyggð, um réttindamál og hvernig ber að rata um kerfið. Þá veitir hún einnig sálfræðiaðstoð.

Á liðnu starfsári var að venju boðið upp á samveru á Löngumýri.

Þar hefur annars vegar verið orlofsdvöl fyrir krabbameinssjúka og hins vegar hefur þar hist hópur ekkla og ekkna. Fyrr hefur í þessum skýrslum komið fram hversu mikla ánægju og hversu mikinn frið gestir finna á Löngumýri og er það ekki síst að þakka, auk andrúmsloftsins, einstöku starfsfólki staðarins og forstöðumanninum Gunnari Rögnvaldssyni. Að sögn hans var venju fremur vel mætt i hóp ekkla og ekkna á liðnu ári.

Á Löngumýri var haldið vel heppnað HAM námskeið undir stjórn Maríu Reykdal .

Á haustdögum hélt Þorsteinn Þorsteinsson læknir erindi um Blöðruhálskrabbamein og risvandamál og var sá fundur eingöngu ætlaður karlmönnum. Um fimmtán manns mættu það kvöld og var mikið um spurningar bæði undir eins eftir fyrirlestur Þorsteins sem og í spjalli í kaffinu á eftir. Eftir jólin var matarboð á Gránu bistro og spjall á eftir. Eins og undanfarin ár hefur samtalshópur hist í safnaðarheimilinu á Sauðárkróki.

Stjórn félagsins hefur í nokkur misseri rætt um möguleika þess að setja á fót í héraðinu opið hús, stað þar sem fólk sem hefur greinst nýlega eða er að koma úr meðferð, gæti hist, notið fræðslu eða uppbyggingar eða starfað að sínum málum. Úrræðið er þekkt víða um land og stjórnin hefur það fyrir satt að það hafi ævinlega sýnt sig að þegar starfseminni hefur einu sinni verið komið á laggirnar, hafi þátttaka stóraukist og fólk tekið henni fagnandi. María Reykdal hefur lengi talað fyrir þessari hugmynd og á liðnu ári hóf stjórnin að undirbúa málið. Markhópurinn hér í héraði er að vísu tiltölulega fámennur og í allnokkuð ráðist fjárhagslega, en engu að síður er hugur á því að láta á reyna. Ótaldar eru þær stundir sem farið hafa til þess að leita leiða og búa allt i haginn, finna húsnæði, leita upplýsinga og ráða um víðan völl og sér ekki fyrir endann á þvi máli. En vonandi tekst okkur að ráða málinu til lykta og getum sagt frá opnun og starfi í næstu skýrslu.

Hlýhugur íbúa héraðsins styrkir stjórn og félag nú sem fyrr og þegar lokahönd er lögð á þessa skýrslu berast fregnir af því að árgangur 1967, sem í vetur stóð fyrir Króksblóti láti ágóðann, kr. 50.000 renna til starfs Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Kærar þakkir.

Dalla Þórðardóttir.


Starfsemi 2018

Á starfsárinu var boðið upp á ýmis námskeið. Ber þar fyrst að nefna það námskeið, sem hvað lengst hefur verið við lýði, en það er dvöl á Löngumýri um hásumar fyrir ekkjur og ekkla krabbameinssjúkra. Þau sem heimsótt hafa Löngumýri vita hve móttökur þar eru hlýjar og viðmót allt og andrúmsloft einstakt. Því er það ekki furða að fólk sem einu sinni hefur kynnst staðnum, leitast við að heimsækja hann aftur og aftur.

Krabbameinsfélagið styrkti fólk til að sækja sundnámskeið, sem haldin voru bæði fyrir og eftir jól.

Í febrúarmánuði var yfirskrift námskeiðsins Einbeiting og minni. Í aprílmánuði stendur félagið fyrir tveimur námskeiðum, María Reykdal kennir á HAM námskeiði og í lok mánaðar er á Löngumýri rætt um þreytu. Þau eru mörg sem kvarta undan síþreytu, minnisleysi og einbeitingarskorti í kjölfar lyfjainngjafar og meðferðar.

Starfsmaður félagsins hefur stýrt og haft umsjón með samverustundum fyrir bæði sjúka og aðstandendur þeirra, þar sem fólk getur rætt um breytta stöðu í tilverunni og leitað stuðnings. Mikil nauðsyn er að þessu starfi og að hafa vettvang fyrir fólk til að ræða við þau sem eru í svipuðum aðstæðum.

Sem fyrr nýtur félagið skilnings og stuðnings samfélagsins. Í haust komu boð frá Verslunarmannafélagi Skagafjarðar, sem safnað hafði fjármunum til styrktar félaginu og var framlagi veitt móttaka á fundi. Á liðnum árum hafa nemendur Varmahlíðaraskóla oftar en einu sinni safnað umtalsverðu fé með því að hlaupa ákveðna vegalengd og í vor er leið lögðu nemendur í Árskóla á Sauðárkróki fram söfnunarfé til að styrkja starfið. Það var ánægjulegt að sækja útskriftarathöfn í skólanum á fallegu vorkvöldi og finna hlýhug starfsmanna og nemenda, enda er það svo að sífellt eru fleiri að greinast og nær allar fjölskyldur eiga einhvern í nærhópi, sem glímir við þann vágest, sem krabbamein er.

Nýlega hélt Samband skagfirskra kvenna, SSK, aðalfund sinn og þar var Krabbameinsfélagi Skagafjarðar afhentur ágóði af árlegri vinnuvöku kvenfélaganna. SSK lætur afrakstur vinnuvökunnar renna til einhvers góðs málefnis og er þetta ekki í fyrsta sinn sem Krabbameinsfélagið fær að njóta hans.

Þörfin fyrir styrktarfé er sístæð og ómetanlegt að eiga slíka hauka í horni.

María Reykdal, starfsmaður, er til ráðgjafar og viðtala á skrifstofutíma og oft endranær.

Aðalfundur félagsins árið 2019 verður fyrir miðjan maímánuð.

Dalla Þórðardóttir.


Var efnið hjálplegt?