Kraftur

Félagið var stofnað 1. október 1999

Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Félagsmenn: Um 620 
Netfang: kraftur@kraftur.org
Vefsíða: www.kraftur.org 

Stjórn Krafts, kosin á aðalfundi 25. apríl 2017:

  • Formaður: Ástrós Rut Sigurðardóttir
  • Varaformaður: Kristín Þórsdóttir
  • Ritari: Ösp Jónsdóttir
  • Gjaldkeri: Bóel Hjarta
  • Meðstjórnandi: Jónatan Jónatansson
  • Varamenn: Aðalheiður Þorgeirsdóttir og Berglind Jónsdóttir

Starfsemi 2016-2017

Stjórn og starfsmenn

Á aðalfundi í apríl 2017 gaf Hulda Hjálmarsdóttir ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Fjórir einstaklingar gáfu kost á sér til stjórnarsetu. Haldnir voru alls tólf stjórnarfundir á starfsárinu. Núverandi starfsmenn Krafts eru þær Ragnheiður Davíðsdóttir, sem starfar sem verkefnastjóri í 50% starfi, Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri í 100% starfi og Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur í 30% starfi. Auk þeirra starfar Atli Már Sveinsson, þjálfari og umsjónarmaður Fítonskrafts, sem verktaki.

Stuðningsnetið o.fl.

Þorri Snæbjörnsson sálfræðingur félagsins, heldur utan um Stuðningsnet Krafts. Frá því hann tók við starfi hafa 19 beiðnir borist um jafningjastuðning og fimm nýir stuðningsfulltrúar hafa bæst í hóp stuðningsnetsins. Haldið var námskeið fyrir nýja stuðningsfulltrúa hér í Reykjavík í október og til stendur að halda annað námskeið nú á vordögum. Sálfræðingur félagsins veitti 33 einstaklingum samtals 58 sálfræðiviðtöl frá miðjum ágúst. Samstarfið við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins um að samnýta starfskrafta sálfræðings hefur gengið vonum framar og nýst mjög vel. Sem stendur starfar sálfræðingur í 30% starfi hjá Krafti og 70% starfi hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Sálfræðingur hélt endurmenntunarnámskeið í mars á þessu ári og mættu átta manns. Kraftur hefur verið með viðtalsíma á göngudeild krabbameinslækninga einu sinni í viku auk þess sem nýgreindir fá poka frá Krafti með nauðsynlegum upplýsingum.

Heimasíða og samfélagsmiðlar

Ný heimasíða Krafts var tekin í notkun undir lok síðasta árs. Það er Vefgerðin sem á allan heiðurinn af hönnun hennar og uppsetningu. Meðal nýjunga þar má nefna vefverslun Krafts þar sem hægt er að kaupa varning merktan félaginu. Nú er hægt að kaupa þar perluarmböndin okkar, boli, taupoka og bækur. Einnig er hægt að styrkja félagið í gegnum heimasíðuna, annað hvort með stökum styrkjum eða skrá sig sem mánaðarlegan styrktaraðila. Þá er Kraftur með nokkra virka Facebook-hópa. Má þar nefna FítonsKraft, Stjórn Krafts, Stuðningsnet Krafts, Ungliðahópinn og síðan hóp fyrir félagsmenn Krafts. Á árinu voru stofnaðir umræðuhópar á Facebook fyrir unga krabbameinsgreinda og annan hóp fyrir aðstandendur. Kraftur byrjaði á því í upphafi þessa árs að tilnefna einn félagsmann sem Kraftsmann eða Kraftskonu mánaðarins. Þetta hefur reynst afar vel og eru um 2.000 fylgjendur sem hafa bæst inn á snapchat til að fylgjast með lífi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og/eða aðstandendum. Kraftur er einnig með Facebook síðu, Instagram síðu og Twitter síðu. Flesta fylgjendur hefur félagið á Facebook eða um 7.000 fylgendur. 

Útgáfustarfsemi

Krafts-blaðið hefur nú verið sett í rafrænt form inn á timarit.is en auk þess eru öll tölublöðin aðgengileg á heimasíðunni í gegnum Issuu. Árið 2016 kom aðeins út eitt tölublað af Kraftsblaðinu. Blaðið var sent til allra félagsmanna, á allar heilsugæslustöðvar og helstu læknastofur ásamt að því var dreift á allar deildir Landspítala. Í nóvember var gefið út jólakort með fræðslu- og upplýsingaívafi sem sent var á alla félagsmenn. Um er að ræða áttblöðung í brotinu A5 þar sem fram komu örfréttir af starfseminni auk jólakveðju frá stjórn og starfsfólki.

Viðburðir o.fl.

Sumargrill var í Hljómskálagarðinum 23. júní. Reykjavíkurmaraþonið var haldið í lok ágúst og um 90 hlauparar hlupu fyrir Kraft og söfnuðust áheit upp á 1,2 millj. kr. Aðventukvöld Krafts var haldið 1. desember. Kraftsfélögum bauðst ein hvíldarhelgi í Bergheimum, glæsilegu húsi Bergmáls, síðasta haust. Tuttugu einstaklingar mættu og áttu yndislega helgi saman þar sem var spilað, borðað, hvílst og spjallað.  Árið 2015 var bryddað upp á þeirri nýjung að halda sérstök kaffihúsakvöld á kaffihúsinu Stofunni. Þangað hefur ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur mætt og rætt málin á óformlegan hátt og einnig til að kynnast öðrum í sömu sporum. Kaffihúsakvöldin eru fyrsta hvern miðvikudag mánaðarins og eru auglýst á vefsíðu og Facebook-síðu Krafts. Tekið var á móti nemendum í tveimur vísindaferðum á árinu fyrir háskólanema sem koma til með að starfa að málefnum krabbameinssjúkra eftir að þeir útskrifast. Tekið var á móti hjúkrunarfræðinemum í október 2016 og nemendum í sjúkraþjálfun í apríl á þessu ári. 

Neyðarsjóður Krafts

Neyðarsjóðurinn úthlutaði tvisvar á síðasta starfsári. Átta einstaklingur sóttu um í haustúthlutun 2016 og átta í vorúthlutun 2017. Enn á eftir að úthluta styrkjum fyrir vorúthlutun. Allir umsækjendur uppfylltu kröfur sjóðsins og var haustúthlutun samtals 2,3 millj. kr. Næsta úthlutun verður í maí 2017, er stjórn sjóðsins að fara yfir umsóknir. 

Lífið er núna – það þarf Kraft til að takast á við krabbamein

Kraftur stóð fyrir átaki undir þessu slagorði. Undirbúningur hófst í haust þegar stjórn Krafts samþykkti að boða til vitundarvakningar um ungt fólk og krabbamein og safna um leið mánaðarlegum styrktaraðilum til þess að styrkja fjárhagslegar stoðir félagsins. Auglýsingastofan Hvíta húsið var fengin til að hanna myndræna útfærslu átaksins og var ákveðið að fá sex þjóðþekkta einstaklinga til að „bera skallann“ þ.e. til að sitja fyrir á mynd sem síðan var unnin þannig að fyrirsæturnar voru gerðar sköllóttar. Leitað var til Sögu Garðarsdóttur leikkonu, Jóns Jónssonar söngvara, Þorvaldar Davíðs Kristjánssonar leikara, Björgvins Páls Gústavssonar landsliðsmarkmanns, Annie Mistar Þórisdóttur crossfitkonu og Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur sjónvarpskonu.

Útbúnar voru sjónvarps- og útvarpsauglýsingar auk þess sem myndirnar voru birtar í dagblöðum, vefmiðlum, strætisvagnaskýlum og umhverfisskiltum. Allar báru myndirnar yfirskriftina „Lífið er núna – Það þarf Kraft til að takast á við krabbamein“. Átakið hófst formlega með tónleikum á KEX 11. janúar 2017 þar sem fram komu MC Gauti, Hildur, Hjálmar og Emiliana Torrini.

Húsfyllir var og mikil ánægja með tónleikana auk þess sem mikil sala var á armböndunum. Hvíta húsið gaf Krafti alla vinnu við átakið, nánast allir fjölmiðlar birtu myndirnar án endurgjalds, módelin gáfu vinnu sína og allir listamennirnir sem komu fram á tónleikunum. Landsbankinn styrkti árakið með 500 þús. kr. framlagi en alls þurfti Kraftur að leggja út 455 þús. kr. vegna þessa átaks, sem verður að teljast vel sloppið miðað við umfangið.

Perlað með Krafti

Í tengslum við átakið var hafin sala á perluarmböndum sem öll eru unnin af sjálfboðaliðum fyrir Kraft. Armböndin eru litrík og bera áletrunina „Lífið er núna“. Um miðjan desember var opið hús í húsi Krabbameinsfélagsins þar sem fjöldi manns mætti til að perla armböndin. Sá lager seldist nær alveg upp á tónleikakvöldinu. Aftur var auglýst opið hús fyrir sjálfboðaliða og nú á KEX og fylltist allt út úr dyrum. Perluarmböndin voru síðan sett í sölu á vefverslun Krafts og hafa fengið afar góðar viðtökur. Efnt hefur verið til fjölda „perludaga“, ýmist í húsakynnumn Krabbameinsfélagsins eða annars staðar.

Fjármál og styrkir

Mikil áhersla er lögð á ábyrga fjármálastjórn og ráðdeild í rekstri. Kraftur byggir afkomu sína eingöngu á frjálsum framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Helstu kostnaðarliðir Krafts eru laun og launatengd gjöld fyrir starfsmenn sína þrjá og rekstur sálfræðiþjónustu, stuðningsnetsins og FítonsKrafts.

Krabbameinsfélag Íslands hefur frá upphafi styrkt Kraft með endurgjaldslausum afnotum af skrifstofu og fundaraðstöðu, auk annarrar fyrirgreiðslu af ýmsum toga. Það er ómetanlegur stuðningur og færir Kraftur Krabbameinsfélaginu þakkir fyrir hann. Kraftur hefur fengið nokkra stóra styrki á starfsárinu. Hæst ber styrkur frá Hrossarækt og góðgerðarfélaginu Aurora að upphæð 3,5 millj. kr., sem runnu í Neyðarsjóð Krafts. Krabbameinsfélag Íslands styrkti auk þess Neyðarsjóðinn um eina millj. kr. Þá fékk félagið einnar millj. kr. styrk frá Lýðheilsusjóði, Skeljungur styrkti félagið um eina mill. kr., Isnic um 500 þús. kr., Landsbankinn um 500 þús. kr. og velferðarráðuneytið um 2,2 millj. kr. Þá fékk Kraftur 2,7 millj. kr. frá Aðföngum sem hluta af sölu Himneskt línunnar.
Í gegnum Reykjavíkurmaraþonið fékk Kraftur 1,2 millj. kr. Flensborgarskóli efndi til hlaups og gaf Krafti ágóðann, samtals 580 þús. kr., Lionsklúbburinn Fjörgyn styrkti Kraft 100 þús. kr., Kristinn Björn Tryggvason afhenti félaginu 553 þús. kr. sem hann safnaði einn síns liðs í Fjarðarkaupum og Norðlingaholtsskóli hélt sérstakan góðgerðardag fyrir Kraft þar sem ágóðinn var 650 þús. kr.

Þá styrkti Atlantsolía Kraft um 300 þús. kr. Sýrlenskir flóttamenn hér á landi efndu til góðgerðarkvöldverðar til styrktar félaginu og söfnuðust þar 200 þús. kr. Fjölmargir fleiri styrktu félagið með minni upphæðum. Fjárhagur Krafts tók miklum breytingum til hins betra á meðan á átakinu „Lífið er núna“ stóð og í kjölfarið hafa sjóðir okkar stækkað og dafnað. Salan á jólakonfektinu gekk afar vel og við lauslega athugun má ætla að ágóðinn hafi verið um 1,5 millj. kr. Þá hafa armböndin selst betur en nokkur átti von á og nú hafa selst rúmlega 3.600 armbönd. Mánaðarlegir styrktaraðilar eru nú 194 en betur má ef duga skal og er ætlunin að safna enn fleirum innan tíðar.

Þá hefur Apótekarinn, sem er í eigu Lyfja og heilsu, ákveðið að styrkja Kraft um 500 þús. kr. á mánuði í formi lyfjakaupa til félagsmanna Krafts. Lilja Katrín Gunnarsdóttir, sem rekur bloggsíðuna Blaka, hélt bökunarmaraþon í september þar sem hún bakaði í heilan sólahring og söfnuðust 550 þús. kr. sem runnu óskiptar til Krafts. Fjárhagur Krafts er afar sterkur um þessar mundir, enda veitir ekki af vegna metnaðarfullra verkefni sem framundan eru.

Hagsmunabarátta

Á starfsárinu beitti Kraftur sér í hagsmunamálum ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þess. Félagið hefur m.a. gagnrýnt stjórnvöld fyrir að innleiða ekki sömu sjúkrahúslyf og gert er í samanburðarlöndum okkar. Þá minnir félagið reglulega á háan kostnað félagsmanna sinna vegna læknisverka og lyfja. Nú hefst vinna við að endurskoða efni Lífskrafts og gefa bókina síðan út í fimmta sinn.

Á næstunni verður boðið upp á fleiri vörutegundir í vefversluninni og er hönnunarvinna farin af stað. Í haust mun Kraftur bjóða upp á mánaðarlega fagfyrirlestra um hvaðeina sem tengist krabbameini og ungu fólki. Kraftur mun einnig leitast við að safna fleiri mánaðarlegum styrktaraðilum til að tryggja stoðir félagsins. Þá býður Krafts vinna við að skipuleggja hvernig standa skuli að úthlutun styrkja til lyfjakaupa frá Apótekaranum. Verkefnin eru því næg framundan hjá litla félaginu sem nú er búið að slíta barnsskónum.
Ragheiður Davíðsdóttir.

Starfsemi 2015-2016

Nokkrar breytingar áttu sér stað á stjórn Krafts á aðalfundi félagsins þann 20. apríl sl. Svanhildur Ásta Haig, Salvör Sæmundsdóttir og Jenný Þórunn Stefánsdóttir gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Starfsmenn

Starfsmaður Krafts er Ragnheiður Davíðsdóttir, sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra frá 1. september 2013. Edda Margrét Guðmundsdóttir er sálfræðingur félagsins en hún hefur sagt starfi sínu lausu í sumar. Enn á eftir að ráða nýjan sálfræðing. Sálfræðingur sér um Stuðningsnet Krafts og sálfræðiþjónustu við félagsmenn Krafts og skjólstæðinga Ráðgjafarþjónustunnar. Starfsmaður ungliðahóps Krafts, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna (SKB) og Ljóssins er Kristján Friðriksson. Starfsmaður Fítonskrafts er Atli Már Sveinsson, íþróttafræðingur.

Stuðningsnetið

Á síðasta ári voru haldin námskeið fyrir nýja stuðningsfulltrúa á Ísafirði og Akureyri og ætlunin er að halda slíkt námskeið einnig á Egilsstöðum á þessu ári. Þá var haldið eitt stuðningsfull¬trúa-námskeið í Reykjavík. Alls bættust 22 nýir stuðningsfulltrúar í stuðningsnet Krafts á síðasta ári. Sálfræðiþjónusta Krafts hefur aukist mikið og veitti sálfræðingur félagsins 64 sálfræðiviðtöl á síðasta starfsári Krafts. Ráðist var í útgáfu á bæklingum auk annars konar kynningarefnis og hélt sálfræðingur, ásamt framkvæmdastjóra og stjórnarfólki, kynningarfundi með starfsfólki á geisla- og krabbameinsdeildum Landspítalans þar sem Kraftur kynnti starfsemi sína og þjónustu. Starfsfólk þessara deilda, sem allar tengjast krabbameini á einn eða annan hátt, hyggst afhenda nýgreindum einstaklingum kynningarefnið í sérmerktum pokum frá Krafti með slagorðunum „Sigrumst á því saman“. Pokinn inniheldur bókina Lífskraft, þrjá bæklinga yfir almenna starfsemi félagsins, Fítonskraft og Stuðningsnetið. Þá er gjafakort á sérmerktan bol frá Krafti auk nýjasta tölublað Krafts-blaðsins.

Heimasíða og samfélagsmiðlar

Reglulega er settar fréttir, myndir og fróðleikur inn á www.kraftur.org. Ný heimasíða var tekin í notkun árið 2014 sem hefur fallið í góðan jarðveg. Facebooksíða Krafts er talsvert mikið notuð og skrá félagsmenn sig gjarnan á viðburði félagsins á síðunni. Nú eru fylgjendur Facebook-síðu félagsins um 3.600 að tölu. Þá hefur félagið sett á laggirnar Facebook-síðu Fítonskrafts þar sem fréttir eru reglulega settar inn og tilkynningar um starfsemina. Auk þess eru sérstakar Facebook-síður starfræktar á vegum Ungliðahópsins og Stuðningsnetsins. Þá er félagið einnig á Instagram, Twitter og Snap Chat.
Útgáfumál

Bókin Lífs-Kraftur, hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur, nýtur alltaf jafn mikilla vinsælda og er regluleg eftirspurn eftir henni í heilbrigðiskerfinu og víðar. Krafts-blaðið var gefið út síðasta vor og var blaðið að koma út nú í maí fyrir þetta ár. Það kemur nú einungis út einu sinni á ári, að vori. 

Fjármál og styrkir

Efnahagur Krafts er traustur. Reykjavíkurmaraþon var haldið í ágúst. Heildarafrakstur af áheitum einstaklinga færðu félaginu um 1,7 milljónir króna. Þá seldi Kraftur konfekt fyrir jólin sem gaf félaginu umtalsverðar tekjur. Auglýsingar og styrktarlínur voru seldar í blaðið og stóð sú sala undir kostnaði þess og gott betur. Ýmsir aðilar styrktu starfsemina auk þess með beinum og óbeinum hætti. Neyðarsjóður Krafts hefur nú úthlutað þrisvar sinnum til alls átta manns. Styrkir eru einungis veittir til að standa straum af læknis- og lyfjakostnaði. Alls hefur verið úthlutað um 2,4 milljónum til þessara átta einstaklinga. Nú stendur yfir fjáröflun sem sérstaklega er ætluð í Neyðarsjóð Krafts en ástand og horfur í greiðsluþátttökumálum sjúklinga gefa tilefni til að ætla að þörf sé á slíkum neyðarsjóði enn um sinn.

Viðburðir

Sumargrill Krafts var haldið í júní í Guðmundarlundi í Kópavogi og mættu um 80-100 manns. Vísindaferðir Krafts eru vinsælar meðal háskólanema en í þeim er starfsemi Krafts kynnt, sérstaklega fjallað um stuðningsnetið auk þess sem fenginn er fagmaður úr viðkomandi grein til að miðla af reynslu sinni. Í byrjun desember var haldin jólastund félagsins. Þar mætti Jón Gnarr og las upp úr bók sinni og Jón Jónsson skemmti viðstöddum auk þess sem dregið var í veglegu happdrætti. Alls mættu um 120 manns sem er metþátttaka til þessa. Í byrjun þessa árs var var farið af stað með svoköllum kaffihúsakvöld þar sem ungt krabbameinsgreint fólk og aðstandendur þess hittast og ræða málin á óformlegan hátt. Haldin hafa verið tvö slík kvöld og virðist þessi nýjung lofa góðu.

#Share your scar

Í janúar á þessu ári stóð Kraftur fyrir miklu átaki/vitundarvakningu um krabbamein og ungt fólk sem bar yfirskriftina „Share your scar“. Hugmyndin kom frá systurfélögum Krafts á hinum Norðurlöndunum. Félagið birti myndir af tíu einstaklingum sem stigu fram og deildu örunum sínum sem þeir hlutu vegna krabbameinsmeðferðar. Með þessu vildi Kraftur leggja áherslu á mikilvægi þess að fólk sé ófeimið að opinbera örin sín og deila sinni reynslu. Örin eru ekkert sem við þurfum að skammast okkar fyrir, þau eru vitnisburður um sigra okkar. Myndirnar birtust á samfélagsmiðlum, í sjónvarpi, strætóskýlum og plakötum um allan bæ og landsmenn hvattir að leggja málefninu lið með því að birta örin sín og deila af reynslu sinni. Undirtektirnar voru framar okkar björtustu vonum og lögðu landsmenn átakinu lið með því að deila myndum á samfélagsmiðlum og segja frá sinni reynslu. Átakið endaði síðan með örráðstefnu í Stúdentakjallaranum sem bar yfirskriftina „Sigrumst á því saman“, þar sem reynsluboltar deildu af reynslu sinni sem krabbameinsgreindir eða aðstandendur. Mikil fjölmiðlaumfjöllun varð um átakið og fjöldi manns gekk til liðs við Kraft í kjölfarið. Ljóst er að þetta átak Krafts hefur skilað sér í mikilli kynningu á félaginu sem mun auðvelda mjög fjáröflun í framtíðinni.

Ragnheiður Davíðsdóttir


Var efnið hjálplegt?