Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 29. mar. 2019

Yfirlýsing vegna umfjöllunar um áfengisfrumvarp

Í lok janúar á þessu ári samþykkti heilbrigðisráðherra tillögur að íslenskri krabbameinsáætlun. Tillögurnar eru unnar af okkar færustu sérfræðingum og byggja á þekkingu og rannsóknum. Fyrsti liður áætlunarinnar fjallar um aðgerðir til að minnka líkur á krabbameinum. 

Í dag getur þriðji hver einstaklingur á Íslandi vænst þess að greinast með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni en vitað er að hægt er að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 tilfellum krabbameina með heilsusamlegum lífsstíl. Vinna þarf gegn fjölgun krabbameina með öllum tiltækum ráðum.

Lengi hefur verið vitað að neysla áfengis eykur líkur á krabbameinum í munnholi, koki, barkakýli, vélinda, lifur, brjóstum, ristli og endaþarmi. Áfengi veldur til dæmis 5% brjóstakrabbameina og 3% krabbameina í ristli og endaþarmi á Norðurlöndum.

Það skýtur óneitanlega skökku við að nú sé til umræðu að leyfa frjálsari verslun með áfengi. Verði frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi samþykkt verður það aðgerð sem vinnur stórlega gegn markmiðum nýsamþykktrar krabbameinsáætlunar.

Samþykkjum ekki lög sem valda aukningu dauðsfalla

Miðað við óbreyttar drykkjuvenjur á Norðurlöndunum má búast við að áfengisneysla muni valda 83.000 krabbameinstilfellum næstu 30 árin. Ef drykkja minnkaði og helmingur þeirra sem drekka 1-4 glös af áfengi á dag myndi hætta að drekka áfengi væri hægt koma í veg fyrir 21.500 krabbameinstilvik.

Aftur á móti hefur verið sýnt fram á að þegar sala áfengis er gefin frjáls þá eykst neyslan til muna. Rannsökuð voru áhrif þess að aflétta ríkiseinokun í Svíþjóð, ef salan færðist annars vegar yfir í einkareknar sérverslanir með áfengi og hins vegar í almennar verslanir. Samkvæmt nýlega uppfærðum niðurstöðum myndi drykkjan aukast um 20% ef sérverslanir tækju við sölunni, en um 31% ef það yrðu almennar verslanir. Áfengistengd dauðsföll vegna krabbameina myndu aukast um 18% (sérverslanir) og 29% (almennar verslanir).

Nýlega birti hið virta vísindatímarit Lancet grein þar sem metin voru gögn frá 195 löndum með alls 28 milljónum þátttakenda um tengsl áfengis og heilsu. Þar kom fram að árlega má rekja 3 milljónir dauðsfalla til neyslu áfengis. Krabbamein er þar í efsta sæti áfengistengdra dánarmeina meðal einstaklinga eldri en 50 ára.

Tvískinnungur í afstöðu þjóðkjörinna fulltrúa?

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gefur skýr skilaboð um að áhrifaríkustu leiðirnar til að draga úr áfengisneyslu séu allar á valdi stjórnvalda og að þær séu: Takmörkun á framboði áfengis, verðstýring og bann við áfengisauglýsingum.

Ákvarðanir stjórnvalda hljóta alltaf að byggja á bestu þekkingu. Augljóst er að ekki fer saman að Alþingi leyfi frjálsari verslun með áfengi, sem mun meðal annars fjölga dauðsföllum, sjúkdómum og kostnað í heilbrigðiskerfinu á sama tíma og vinna á eftir nýrri íslenskri krabbameinsáætlun og lýðheilsuáætlunum með forvarnir að leiðarljósi. Stjórnvaldsaðgerðir hafa skipt sköpum í þeim árangri sem Íslendingar hafa náð í tóbaksvörnum og vekur þessi árangur athygli á heimsvísu. Lærum af reynslunni og vinnum að betri lýðheilsu, til dæmis með aðgangstakmörkunum og skattlagningu.

Krabbameinsfélag Íslands hvetur þjóðkjörna fulltrúa til að nýta möguleika sína til að vinna að aukinni velferð íslensku þjóðarinnar og forgangsraða aðgerðum í þágu bættrar lýðheilsu.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?