Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 3. sep. 2020

Yfirlýsing frá Krabbameinsfélaginu

Vegna fréttar um greiningu sýna hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins

Líkt og fram hefur komið hefur skjólstæðingur Krabbameinsfélagsins verið greindur með leghálskrabbamein þrátt fyrir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu í leghálsskimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins árið 2018. Leghálssýni konu, sem komið hafði í skoðun hjá kvensjúkdómalækni og sent var til rannsóknar á frumurannsóknarstofu Leitarstöðvarinnar var ranglega greint. Niðurstöður rannsóknarinnar voru á þá leið að frumubreytingar greindust ekki. Í sumar kom í ljós að konan er með leghálskrabbamein.

Þegar leghálskrabbamein greinist fer af stað hefðbundið verklag. Í því felst að kannað er hvort konan hafi þegið boð í leghálsskimun og ef svo er eru sýnin skoðuð að nýju. Þetta er gert til þess að kanna hvort sýnin hafi verið rétt greind á sínum tíma. Í flestum tilfellum leiðir skoðunin í ljós að ekki voru sjáanleg merki um frumubreytingar. Jafnvel eru dæmi um, við greiningu krabbameins, að í innan við ársgömlum sýnum hafi ekki greinst neitt óeðlilegt.

Rannsóknir hafa sýnt að skimun fyrir leghálskrabbameini nær aldrei að greina öll tilfelli þar sem hætta er á að krabbamein geti myndast. Með reglubundinni skimun er hægt að koma í veg fyrir 90% tilvika. Í ákveðnum tilfellum þegar krabbamein kemur upp hefur það ekki greinst við skimun og getur ástæðan annað hvort verið sú að krabbameinið þróaðist á skömmum tíma eða sú að greining sýnisins hafi verið röng. Röng greining þýðir þó ekki sjálfkrafa að um mistök hafi verið að ræða. Greining frumubreytinga í leghálsi er flókið ferli og það er ekki alltaf einfalt að sjá hvort frumubreytingar séu eðlilegar eða óeðlilegar. Þegar sýnið frá árinu 2018 er skoðað að nýju sést að frumubreytingarnar hefðu átt að vera greinanlegar.

Strax og málið kom upp, í lok júní síðastliðnum, fór í gang víðtæk endurskoðun á þeim sýnum sem viðkomandi starfsmaður frumurannsóknarstofu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hafði rannsakað. Kom þá í ljós að fleiri sýni, sem hann hafði rannsakað á árinu 2018, voru talin gefa ástæðu til frekari skoðunar. Tekið skal fram að ekkert þeirra tilfella var jafn alvarlegt og fyrrgreint mál þar sem um var að ræða mun vægari frumubreytingar og er því að öllum líkindum um einangrað tilvik að ræða. Um 2,5% sýna starfsmannsins hafa verið metin á þann hátt að ástæða sé til að boða viðkomandi konur í frekari skoðun.

Krabbameinsfélagið telur rétt að upplýsa að starfsmaðurinn, sem málið snertir, hafði verið í veikindaleyfi um nokkurt skeið en tekið skal fram að ekki er hægt að fullyrða að heilsubrestur starfsmannsins hafi stuðlað að því sem gerðist. Hann lét af störfum hjá Leitarstöðinni að eigin ósk í febrúar 2020.

Almennt eru 10% allra sýna sem koma til rannsóknar hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins skimuð handahófskennt af tveimur ólíkum starfsmönnum. Þetta verklag er þáttur í eftirliti með gæðum skimananna sem framkvæmdar eru á rannsóknarstofunni. Árið 2019 var tekin í notkun ný tölvustýrð smásjá á frumurannsóknarstofunni þar sem gervigreind forskimar öll sýni og dregur fram þá hluta sýnanna sem ástæða er til að skoða betur. Tilkoma tækisins dregur enn frekar úr hættu á mannlegum mistökum.

Skýrar reglur gilda um það þegar alvarleg atvik sem þessi koma upp á heilbrigðisstofnunum. Þegar í ljós kom í lok júní síðastliðnum að um slíkt atvik væri að ræða tilkynntu stjórnendur Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins samstundis um það til Embættis landlæknis, auk þess sem viðbragðsáætlun félagsins var virkjuð.

Viðbrögð félagsins hafa ennfremur falist í eftirfarandi aðgerðum:

  • Hafin hefur verið ítarleg rannsókn á atvikinu og er Embætti landlæknis, sem einnig framkvæmir sína eigin sjálfstæðu rannsókn, upplýst um niðurstöður hennar jafn óðum.
  • Endurskoðun sýnanna hófst í júlí síðastliðnum og nær yfir 6.000 sýni frá árunum 2017-2019 sem umræddur starfsmaður hafði haft með höndum. Nú hafa 1.800 sýni verið skoðuð aftur og af þeim hefur þótt ástæða til að kalla 2,5% viðkomandi kvenna í frekari skoðun.
  • Haft hefur verið samband við konuna sem greinst hafði og þær upplýsingar staðfestar að sýnið hafi verið ranglega greint árið 2018.
  • Þá var starfsmaðurinn, sem þá hafði fyrir nokkru látið af störfum, einnig upplýstur um málið og honum veittur aðgangur að áfallahjálp.
  • Haft hefur verið samband við þær konur þar sem endurskoðun sýna hefur leitt í ljós frumubreytingar. Hingað til hafa um 2,5% sýna þessa tiltekna starfsmanns á þessu tímabili gefið tilefni til að kalla konur í aðra skoðun. Í engum af þeim tilfellum hefur krabbamein verið greint.
  • Konur sem kallaðar eru í aðra skimun fá flýtimeðferð og fá niðurstöðu skimunarinnar innan tveggja daga nú í stað 4-6 vikna áður. Í þeim tilfellum sem tekin eru HPV sýni lengist þessi tími um 5 daga í viðbót. HPV veiran (Human Papilloma Virus) er veiran sem orsakar leghálskrabbamein.
  • Þá hefur verið bætt við mannafla á leitarstöðinni til að flýta endurskoðun þeirra sýna sem rannsóknin nær til.
  • Í kjölfar þess að málið kom til umfjöllunar í fjölmiðlum hefur félagið óskað eftir upplýsingum frá lögmanni konunnar, sem sagst hefur í fjölmiðlum vera með upplýsingar um eitt eða tvö mál til viðbótar, svo hægt sé að skoða þau sérstaklega. Þá hefur Krabbameinsfélagið einnig óskað eftir að Embætti landlæknis taki þau mál til skoðunar.

Bakgrunnsupplýsingar um leghálsskimanir

Leghálskrabbamein eru fremur fátíð hér á landi í alþjóðlegum samanburði (um 17 tilvik á ári að meðaltali). Í langflestum tilfellum (90%) leiðir vel framkvæmd og reglubundin skimun til þess að hægt er að koma í veg fyrir að krabbamein myndist eða vaxi. Af þessum sökum býðst konum á aldrinum 23 til 65 ára að fara í slíka skimun á 3 ára fresti.

Dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hefur lækkað um 83% frá því að leitarstarfið hófst árið 1964. Árlega látast nú að meðaltali fimm konur úr meininu.

Leghálskrabbamein er sjaldgæft hjá konum undir 25 ára aldri. Flestar ungar konur smitast af HPV veirunni stuttu eftir að þær hefja kynlíf. Sýkingin hverfur hjá helmingi þeirra sem smitast á um sex mánuðum og í um 90% tilfella er hún horfin innan tveggja til þriggja ára. Þessar HPV veirusýkingar geta valdið frumubreytingum sem flestar ganga til baka. Í sumum tilfellum getur veirusýkingin hins vegar valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein, venjulega á löngum tíma (nokkrum árum eða áratugum). Þess vegna er ekki talið nauðsynlegt að leita skipulega að krabbameini í leghálsi fyrr en við 23 ára aldur.

Með skipulegri leit að krabbameini í leghálsi er reynt að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða. Ef leitað er of sjaldan er hætta á að missa af alvarlegum frumubreytingum og krabbameini. Ef leitað er of oft getur það leitt af sér ónauðsynlegt eftirlit, leghálsspeglanir eða keiluskurði. Rannsóknir hafa sýnt að með því að leita að leghálskrabbameini á þriggja ára fresti er hægt að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða fyrir konuna. Nágrannalönd okkar leita einnig á þriggja ára fresti hjá ungum konum, sum þeirra leita á fimm ára fresti hjá konum eldri en 50 ára.

Frá árinu 2018 hafa konur getað skoðað upplýsingar um boð og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum á mínum síðum á Ísland.is. Í upphafi þessa árs var þjónustan aukin með frekari upplýsingagjöf og nú fá allar konur rafrænar niðurstöður úr skimunum hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar.

Tekið skal fram að skimanir eru ekki 100% forvörn gegn krabbameinum. Í langflestum tilfellum er þó hægt að grípa inn í áður en krabbamein myndast. Leghálsskimun er því afar mikilvæg forvörn gegn leghálskrabbameini. 


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?