Ása Sigríður Þórisdóttir 12. jún. 2020

Viðtökur við Áttavitanum fram úr björtustu vonum

Boðsbréf sem send voru út í vikunni til markhóps í rannsókn Krabbameins­félagsins, Áttavitans, sem fjallar um reynslu fólks af greiningu og meðferð krabbameins, hafa fengið góð viðbrögð og mikill fjöldi nú þegar skráð sig í rannsóknina.

Boðsbréf sem send voru út í vikunni til markhóps í rannsókn Krabbameinsfélagsins, Áttavitans, sem fjallar um reynslu fólks af greiningu og meðferð krabbameins, hafa fengið góð viðbrögð og mikill fjöldi nú þegar skráð sig í rannsóknina.

„Þessi viðbrögð fara fram úr okkar björtustu vonum. Við hjá Krabbameinsfélaginu erum afar stolt af þessu verkefni og þess vegna er það sérstakt gleðiefni hversu vel fólk bregst við,“ segir Jóhanna Eyrún Torfadóttir, sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu og ábyrgðarmaður rannsóknarinnar.

Rafræn skilríki eru notuð við skráningu í rannsóknina til að tryggja persónuvernd og öryggi gagna. Nokkur símtöl og tölvupóstar hafa borist frá fólki sem langar að taka þátt en getur ekki sökum þess að það hefur ekki rafræn skilríki.

„Allra best er auðvitað ef fólk getur orðið sér úti um þau en annars munum við reyna að finna aðrar leiðir til að gera því fólki kleift að deila reynslu sinni af því að greinast með krabbamein. Það skiptir máli fyrir okkur að allir í markhópnum taki þátt, því þannig náum við betri yfirsýn yfir hvar úrbóta er þörf. En það gleður okkur líka að margir virðast kunna virkilega að meta þetta tækifæri til að deila sinni reynslu, ekki síst ef það getur orðið til bóta fyrir aðra í framtíðinni,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Sum krabbamein meinlaus, önnur ekki

Félaginu hafa einnig borist erindi frá fólki sem kannast ekki við að hafa fengið krabbamein og boðsbréfið kemur þá verulega á óvart.

Í krabbameinsskrá eru skráð öll krabbamein sem greinast í landinu hvort sem þau eru meinlaus eða alvarleg og listi yfir þátttakendur rannsóknarinnar er fenginn þaðan. Sumum hefur því brugðið við að fá boðsbréfið.

„Þegar um saklaus mein er að ræða getur verið að fólk hafi ekki fengið upplýsingar um að það hafi fengið krabbamein, heldur forstig eða eitthvað viðlíka. Meinin eru engu að síður skráð sem krabbamein í krabbameinsskrá. Þetta getur komið illa við fólk og auðvitað hörmum við það. En þetta sýnir í raun það sem ekki er nægilega mikið í umræðunni, að krabbamein eru afar fjölbreyttir sjúkdómar, sum eru algerlega meinlaus en önnur mjög alvarleg,“ segir Halla.

Batahorfur þeirra sem greinast með krabbamein aukast sífellt en margir lifa lengi með krabbamein og því er mikilvægt að hafa sem bestar upplýsingar um þá þjónustu sem fólki býðst og hvernig líf og lífsgæði þeirra er eftir greiningu krabbameins.

„Við viljum þakka öllum þeim sem hafa tekið boði okkar um að taka þátt í rannsókninni og vonumst eftir áframhaldandi góðri þátttöku á næstu dögum og vikum,“ segir Halla.

Nánari upplýsingar um Áttavitann má finna hér.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?